Færsluflokkur: Mali

Mali the magnificent

 

pict2622a.jpg


Mali er larger than life

Hann Mali kann að slaka á í kreppunni og láta sér liða vel. Sá fer nú ekki á tauginni enda er hann enginn vitleysingur! 

2008_241110

2008_24118

2008_24116

Ef smellt er nokkrum sinnum á myndirnar má sjá Mala larger than life.

 


Ár liðið

Já, í dag er ár liðið frá því ég eignaðist engan annan en hann Mala. Þá  var hann þriggja mánaða. Helga systir og Eva dóttir hennar komu með hann í búri ásamt systur hans. Ætlunin var þröngva öðrum hvorum kettinum upp á mig. Ég valdi Mala sem þá hét að vísu ekki Mali. Miklar umræður fóru fram á blogginu um það hvað hann ætti að heita og margar snjallar uppástungur komu fram. En nafnið kom af sjálfu sér eftir nokkra daga. Ég hef aldrei vitað kött sem malar eins oft og eins hátt og hann Mala. Hann var því auðvitað skírður Mali og ber nafn með réttu. 

Það eru aldeilis tímamót að hann Mali sé búinn að vera hjá mér í heilt ár. PICT2372

Ég hef ekki orðið samur maður og hann ekki samur köttur. 

Ég er allur rifinn og tættur en hann er með brotna rófu eftir að hann datt ofan af svölunum á fjórðu hæð eins og heimsfrægt varð á blogginu og þó víðar væri leitað. Allir urðu rosalega sjokkeraðir! En skottið hans Mala hefur alveg jafnað sig og er lengra og listrænna en nokkru sinni fyrr.

En ég mun hins vegar aldrei bíða þess bætur hvernig hann hefur bitið mig og klórað alltaf hreint. 

Mali er orðinn eins konar lógó þessarar bloggsíðu. Án hans læsi hana ekki nokkur kjaftur nema þessir tveir sem skoða veðurfærslurnar og svo er Zoa sú þriðja sem fær alltaf hláturskast þegar hún skrollar niður þær síður. 

Án Mala væri nú lítið mal í tilverunni. 

 


Nýjustu fréttir af Mala

Hann er náttúrlega að mala núna sem aldrei fyrr. Hann biður að heilsa öllum hysterískum aðdáendum sínum nær og fjær.

Og hann segist gera sér fullkomlega grein fyrir því að gömlu hysterísku aðdáendur eiganda síns, þessa sem bloggar hér, séu ekki lengur neitt hysterískir yfir honum, heldur beinist nú öll hin ógurlega hystería óskipt og froðufellandi að engum öðrum en Mala the malicious.

Það held ég nú.


Hryllileg hryllingssaga af honum Mala

Hér kemur hreint alveg svakaleg hryllingssaga af honum Mala.

Eins og ég hef sagt áður er hann harðskeyttur köttur. Hann er oft að glefsa í mig og læsa í mig klónum en mér hefur þó ekki verið bráður bani búinn.

En hvað haldiði! Í gær eftir að ég var kominn upp í rúm kom hann upp í rúmið og var allur hinn ískyggilegasti, grimmdarlegur mjög og með eyrun aftur eins og fjúkandi vondir kettir eru vanir að vera. Hann lagðist samt niður á sængina en ég var að lesa - veðurfræði,  hvað annað. En allt í einu vissi ég ekki hvaðan á mig stóð veðrið þegar Mali stökk á beran handlegginn á mér með kjafti og klóm og læsti tönnunum djúpt í mitt veika hold. Ég var bara góða stund að hrista af mér  kvikyndið. Ég er með þrjú djúp bitsár og átta klórrispur. Ein rispan er beint yfir púlsinum. Ég hef mjóa handleggi, hálfgerða spóaleggi, og ef hann hefði náð að bíta á lífpúlsinn væri þessi saga  blogguð að handan.

Dýralæknar segja að kattabit geti verið hættuleg og maður eigi að fara á slysavarðstofuna ef maður verður fyrir biti bandóðra katta og fá sprautu við stífkrampa. En ég fór samt ekki enda var komin niðdimm nótt og margt óhreint á sveimi. Ég lagði sem sagt mitt litla líf að veði fyrir hann Mala.

Mér er mjög brugðið yfir þessu. Nú skil ég hvers vegna hún Tóta pönkína sagði um mynd af Mala að hún yrði hrædd um að þetta villidýr biði færis um að bita mann á hálsslagæðina. Hvað ef Mali gerir nú einmitt það? Þá yrði nú aldeilis blóðbað. Ég messaði náttúrlega yfir Malanum og sýndi honum mínar blæðandi benjar en hann lét sér hvergi bregða og var hinn forhertasti. Ég lokaði hann svo úti frá svefnherberginu það sem eftir var nætur. Í dag er hann með allra kelnasta móti og einstaklega fleðulegur en býður eflaust færis á að bíta mig á barkann.

En ég spyr: Hvað er eiginlega um að vera og hvað á ég nú að gjöra? Monsjör Mali var ekki að leika sér heldur var þetta fyrirvaralaus og grimmileg hryðjuverkaárás. Hann læsti alveg í mig hvössum klónum og þessum líka forynjulegu vígtönnunum og ég var lengi að losa mig við þær í dauðans angist og sárri neyð. 

Hvað segja aðdáendur Mala um þessa skammarlegu og villimannslegu framkomu- villidýrslegu framkomu vildi ég sagt hafa. Svona gera dýr bara ekki nema örgustu siðleysingjar, hermdarverkadýr og síkópatar.

Hér er svo mynd af bévítans óargadýrinu í lymskulegum árásarham.

PICT2651

 

 


Ég óttast mjög

Að við Mali förum á verri staðinn. En þið?

Viðbrögð Mala við Hauki og Sigmari í Kastljósinu

Hvernig stendur á því að hann Sigmar sem oft er grimmur eins og vargur við þá sem hann spyr út úr var eins og slytti þegar hann ræddi við Hauk Guðmundsson? Sigmar sýndist heldur ekki hafa undirbúið sig neitt. Hann virtist taka yfirlýsingu Hauks um ólöglega dvöl eiginkonu Ramses gilda að öllu leyti og spurði engra nánari spurninga út í hvernig því væri farið, hvað þá að hann spyrði óþægilegra spurninga. Ég er handviss um að vel undirbúinn spyrill sem eitthvað hefði kynnt sér lagabókstafi hefði getað leit ýmislegt í ljós. Skýringarlausa staðhæfingu Hauks Guðmundssonar er ekki hægt að taka alvarlega og Sigmar átti einmitt að sýna fram á það. Hefði það verið fagleg vinnubrögð.

Einkennilegt var annars að horfa á Hauk. Hann er maður sem lætur engan bilbug á sér finna og samviskan vefst ekki fyrir honum eða það sem kallað er "mannúð". Enda hefur hann reglurnar á hreinu. Og hann mun óhikað halda áfram á sinni braut. Björn Bjarnason treystir honum líka fullkomlega.     

Það fauk í hann Mala yfir linku Sigmars og vélrlænu miskunnarleysi Hauks. Ég náði myndum af því þegar hann mótmælti hástöfum og þegar hann varð svo heitur að hann varð bókstaflega að kæla sig  niður.

Loks er bónusmynd af því þegar Mali var að blása á kertið þegar hann átti eins árs afmæli.

Mali er góður köttur. Og í augum guðs er betra að vera góður köttur en vondur maður.

Mali að prótestera.

PICT2629

Mali að kæla sig niður.

PICT2631

Mali að blása á afmæliskertið.

PICT2633

Hægt er að stækka myndirnar mjög með því að smella þrisvar á þær.  


Hann á afmæli í dag ...

Hann á afmæli í dag,

hann á afmæli í dag,

hann á afmæli hann Mali,

hann á afmæli í dag!

 

Hann er eins árs í dag,

hann er eins árs í dag,

hann er eins árs hann Mali,

hann er eins árs í dag! 

 

Með sínu lagi.

Afrit af PICT2608


Komist að niðurstöðu

Nú hef ég komist að þeirri grandgæfilegu niðurstöðu að hann Mali minn sé í rauninni ísbjörn í dulargervi.

Ég er ekki sú manntegund sem sér ísbirni í hverju skoti. Þess vegna er þetta örugglega rétt.

Og hvað á ég nú að gjöra?


Sko, skottið á Mala!

Eins og allir hysterískir aðdáendur hans Mala vita rófubrotnaði hann í vor þegar hann flaug fram af svölunum á fjórðu hæð.

Hann hefur lítið getað hreyft skottið þar til síðustu daga að allt í einu er komið líf í það. Hann er farinn að sveifla því í veiðihug og reisa upp stýrið þegar mikið liggur við.

Ég náði þessari listrænu mynd af uppreistu glæsiskottinu hans Mala bara rétt áðan. Hægt er að stækka myndina.

Mali er algjör súperskotti! 

PICT2628


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband