Færsluflokkur: Mánaðarvöktun veðurs

Fyrsti snjór á Akureyri og víðar

Fyrsti snjórinn í haust á Akureyri var í morgun. Þar var alhvítt en snjódýpt 1 cm. Víða við Eyjafjörð var alhvit jörð, allt upp í 7 cm á Þverá í Dalsmynni.

Alhvítt var einnig í morgun á nokkrum öðrum stöðum víðs vegar um landið, þar með talið 2 cm á Keflavíkurflugvelli og 4 cm á Vogsósum. Mestur er snjórinn þó eins og síðustu daga í Svartárkoti 27 cm og á Mýri í Bárðardal, 15 cm. 

Hér og hvar á landinu var jörð flekkótt af snjó, eins t.d. í Reykjavík.

Alautt er svo víða við Breiðafjörð nema í Dölum,á Vestfjörðum, norðvesturlandi og suðausturlandi. Á suðurlandi er flekkótt við ströndina en snjólaust inn til landsins. E

Enn hefur ekki mælst frost í Reykjavík. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Úrkomumusamur október það sem af er en víða hlýr

Úrkoman í Reykjavík það sem af er mánaðar er nú komin í 137 mm. Það er einfaldlega meiri úrkoma en áður hefur mælst þar fyrsta 21 dag októbermánaðar frá því Veðurstofan var stofnuð 1920 og einnig þau ár sem októberúrkoma var mæld í bænum á vegum dönsku veðurstofunnar, árin 1886-1906. Úrkoma hefur fallið hvern einasta dag. Næst mesta úrkoma þessa daga var 130,6 mm árið 1936. Október það ár þegar han var allur er reyndar úrkomusamasti október sem mælst hefur í höfuðborginni, 180,8 mm. Minnst úrkoma i Reykjavik þessa daga er 10,8 mm í október 1966 sem þegar upp var staðið var sólríkasti október sem þar hefur mælst en ansi kaldur.

Enn eru 10 dagar eftir af mánuðinum og þarf úrkoman að verða 51 mm til að jafna úrkomuna árið 1936. 

Mest hefur úrkoman verið á vestanverðu landinu og syðst á því.Í Drangshlíðardal undir Eyjafjöllum er úrkoamn komin yfir 400 mm. Á Akureyri er úrkoman hins vegar aðeins 21 mm.

Meðalhitin fyrstu 20 dagana í mánuðinum er 5,7 í Reykjavík sem er ekki nema 0,9 yfir meðallaginu 1961 til 1990 en 0,2 stig UNDIR meðallaginu á þessari öld. 

Öðru máli gegnir um norður og austurland. Á Akureyri er meðalhitinn heil 3 stig yfir meðallaginu 1961-1990. Þar er meðalhitinn 6,3 stig. Dalatangi bætir um betur með meðalhita upp á 7,45 stig, Neskaupstaður með 7,2 en Seyðisfjörður með um 7,5 stig. Á síðast talda staðnum er meðaltal daglegs hámarkshita 11,5 stig. Það væri þolanlegt sumarástand á þeim bæ.

Tiltölulega hlýjast er hins vegar í innsveitum á norðausturlandi og helst til fjalla, allt upp í þrjú stig yfir meðalhita síðustu tíu ára hvað þá annarra ára. Reykjavík er þarna mjög neðarlega á blaði tiltölulega en Mýrdalurinn allra neðst ásamt sveitunum undir Eyjafjöllum.

Menn á netsíðum hefur verið að lofa mjög haustið í Reykjavík þó það sé svona úrkomusamt og hitinn svo sem ekkkrt til að hrópa sérstakt húrra fyrir. En hvorki hefur enn frosið ne snjóað. Og fólk finnur fyrir því. Sjö af októbermánuðum þessarar aldar hafa verið hlýrri fyrstu 20 dagana í Reykjavik og um 28 á árunum 1920 til 2000.Allra hlýjastur þessa daga var október 1959 með 9,5 stig (júníhiti), 1946 með 8,6, 2010 með 8,4 og 1965 með 8,2 stig. Hlýjasti október allur, 1915, var líklega með um 8,4 stig fyrstu 20 dagana en endaði í 7,9 stigum.     

Og nú fer ekki aðeins að kólna heldur er í uppsiglingu eitt af mestu kuldaköstum í október - ef spár ganga eftir. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Meira en meðal mánaðarúrkoma þegar fallin í Reykjavík

Þegar aðeins 9 dagar eru liðnir af mánuðinum er úrkoman í Reykjavík 99,3 mm. Það er meira en meðalúrkoma alls októbermánaðar 1961-1990, hið venjubundna viðmiðunartímabil, svo munar 14 mm en 25 mm yfir meðalúrkomu alls mánaðarins á þessari öld. (Einnig hvort tveggja yfir meðaltölunum 1971-2000).

Strax í fyrrdag var úrkoman kominn upp í meðalúrkomu alls októbermánaðar. Og þetta er reyndar mesta úrkoma sem fallið hefur í mælingasögunni þessa fyrstu níu októberdaga í Reykjavík og er hvorki meira né minna en um eða yfir fjórföld meðalúrkoma þessara daga ef miðað er bæði við þessa öld og tímabilin 1961-1990 og 1971-1900.

Úrkoman er þessa fáu daga einnig komin upp fyrir mánaðarmeðallag á nokkrum fleirum stöðvum.

Á Akureyri er úrkoman það sem af er hins vegar aðeins 12,3 mm. Og er lítil um miðbik norðurlands og víðar. 

Snjólaust er á landinu á veðurathugunarstöðvum.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrsti haustsnjór í byggð á veðurstöðvum

Í morgun var jörð alhvít á Augastöðum í Borgarfirði og snjódýpt var 4 cm. Einnig var alhvítt á Ísafirði. Í Bolungarvík var gefin upp 5 cm snjódýpt þó ekki væri þar talin alhvít jörð. Flekkótt var einnig talið á Korpu, Nesjavöllum, sunnanverðu Snællsnesi og á fáeinum stöðvum á vesturandi og við Ísafjarðardjúp.

Í gærmorgun var Esjan hvít ofan til en i morgun alveg niður í fjallsrætur.

Ekki hefur enn komið næturfrost í Reykjvík.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrsti tuttugu stiga hitinn á landinu

Í dag komst hámarkshitinn á sjálfvirku stöðinni á Torfum í Eyjafjarðardal í 20,7 stig. Það er í fyrsta sinn á árinu sem hiti einvhers staðar á landinu nær tuttugu stigum eða meira.

Meðalhitinn rýkur upp um land allt og vonandi má segja að sá kuldi sé ríkt hefur að mestu leyti frá sumardeginum fyrsta sé nú á enda.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hitinn er upp á við

Meðalhitinn í Reykjavík eftir gærdaginn er nú kominn upp í 7,7 stig eða 0,9 stig undir meðallaginu 1961-1990 en 2,3 stig undir meðallagi þessarar aldar.

Á Akureyri er meðalhitinn 6,8 stig eða 2,0 undir meðallaginu 1961-1990 eða 2,9 stig undir meðalhita síðustu 10 ára (-2,3 í Reykjavík þau ár, eins og á öldinni). 

Þess má geta að þegar júní í fyrra var hálfnaður var meðalhtinn í Reykjavik 11,5 stig og hefur aðeins verið hærri árið 2002, 12,0 stig (seinni hluti þess mánaðar var kaldari svo mánuðurinn endaði í 10,9 stigum).

Árið 2011 var meðalhitinn þessa daga í Reykjavík 7,8 stig en 7,5 árið 2001, 7,1 stig árið 1997  og 7,2 stig árið 1994. Kaldast frá því a.m.k. 1941 var 1973, aðeins 6,5 stig. Frá 1941 hafa tíu júnímánuður, þegar hann var hálfnaður, verið kaldari í Reykjavík en nú og einn jafn kaldur.

Sólskinsstundir í Reykjavík hafa nú mælst 111,4 eða eða um 8 stundum yfir meðallagi þessarar aldar. Miklu munaði um sólskinið þann 13. sem var sá sólríkasti sem mælst hefur þann dag í Reykjavík, 18,0 stundir, og daginn eftir voru sólskinsstundirnar 17,8 eða 0,2 stundum frá dagsmetinu. Ekki voru þessir dagar þó hlýir þrátt fyrir sólina. 

Meðalhitinn um allt land stefnir upp á við næstu daga. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þessi júní á sér marga bræður

Nú þegar einn þriðji af þessum júnímánuði er liðinn er meðalhitinn í Reykjavík 7,2 stig eða 1,2 stig undir meðallaginu 1961-1990 en 2,6 undir meðallagi þessarar aldar (fyrstu 10 júnídagana) en okkar öld hefur hingað til skartað langhlýjustu júnímánuðum sem hægt er að finna fyrir samfelld 14 ár í mælingasögunni. Og veður það að kallast afbrigðilegt.  

Á Akureyri er meðalhitinn núna 6,9 stig eða 1,6 stig undir meðallaginu 1961-1990 og 3,0 stig undir meðallagi síðustu tíu ára en ég veit ekki enn meðalhitann á þessari öld. Verður bráðum! Á Akureyri, gagnstætt Reykjavík, hefur hitinn sótt í sig veðrið því um tíma var meðalhitnn þar um 4 stig undir meðaltalinu 1961-1990.

Ekki er þetta gæfulegt. Þó var enn kaldara fyrstu tíu dagana i Reykjavik í júní 2001, við upphaf okkar aldar, 6,7 stig,  en endanleg tala fyrir þann mánuð var 8,8 stig. Og eins og ég gat um í síðasta bloggi var sá júní sá kaldasti sem af er öldinni í Reykjavík. Hugsanlega slær okkar júní hann út en við skulum þó vona að eigi eftir að hlyna hressilega áður en mánuðurinn er allur. Fyrstu 10 dagana í júní 1997 var meðalhitinn 7,0 stig, 7,2° 1994, 7,5° 1985,7,2° 1983, 7,0° 1978 (endaði í 7,8°), 6,7° 1977, 7,4° 1975, 7,0° 1970, 7,3° 1959, 6,4° 1956 og 1952, um 5,9 1946, um 7,1° 1938, svo dæmi séu tekin.

Á landinu öllu var nokkru hlyrra fyrstu tíu júnídagana 2001 en núna en frá 1949 var kaldara 1997,1994,1991, 1983,1981, 1977,1975, 1973, 1959,1952 og 1949.  

Þó vissulega sé kuldatíð núna voru álíka kuldar tiltölulega algengir alveg fram á okkar öld fyrstu dagana i júní og við erum því ekki að lifa nein söguleg tímamót í kulda vegna þessara daga út af fyrir sig, hvað sem síðar verður.

Sólskinsstundir það sem af er í Reykjavík eru 55 sem er 9 stundum færra heldur en meðaltal þessara daga frá upphafi mælinga 1923. Það er nú allt og sumt. Ísland er ekki beint sólskinsland. Þetta er reyndar bara fimm stundum færra en þessa daga á okkar öld sem sólarlega hefur ekki staðið sig sérlega vel fyrstu 10 júnídagana þó annað sé uppi á teningnum fyrir allan mánuðinn. Færri sólarstundir þessa daga en nú voru 2013, (13,4 klst), 2009, 2008, 2007, 2006 og 2003. En hlýrra var yfirleitt þessa daga í þessum  mánuðum en nú er.

Úrkoman núna, bæði á Akureyri og í Reykjavik, hefur verið fremur lítil og ekki til að tala um. 

Á netinu hefur nokkuð borið á því að menn hér í Reykjavík séu að jafna þessum júní, 2015, saman við júní í fyrra. 

Meðalhitinn í fyrra fyrstu tíu júnídagana í Reykjavik var 11,1 stig en 7,2 núna, annars vegar einn af þeim fimm hlýustu sem mælst hafa þessa daga (og allt til loka) og hins vegar okkar mánuður sem fer í flokk með þeim köldustu, miðað við það  sem af er mánaðar. Reyndar var úrkoman þessa daga í fyrra helmingi meiri í Reykajvík en nú en sólarstundir voru aftur á móti sjö fleiri og þá komu tveir miklir sólardagar en aðeins einn hefur enn komið núna, alveg skítkaldur. Báðir sólardagarnir í júní í fyrra voru vel hlýir, hásuamrdagar, með 15 stiga hámarkshita. Annars þeirra, sá 6. var reyndar sólríkasti sjötti júní sem mælst hefur og hinn, sá 7., var aðeins hálftíma frá því að jafna sólskinsmetið fyrir þann dag.

Að jafna saman júní 2015 og 2014 er hreinlega út í hött.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hlýir og kaldir júnímánuðir

Það hefur víst ekki farið framhjá mönnum að maí var óvenjulega kaldur. Í Reykjavík sá kaldasti síðan 1979 en á landinu í heild svipaður og 1982. Þetta er kaldasti mánuðurinn að tiltölu sem var í vetur og í vor.

Það kemur óneitanlega nokkuð flatt upp á mann að fá svona mánuð ofan i leiðinlegan vetur eftir góðviðrið á þessari öld en ekki kemur það samt beinlínis á óvart.

Horfurnar fyrir fyrri hluta júní eru svo vægast sagt ekki gæfulegar.

Meðalhitinn í júní í Reykjavík á þessari öld er 10,4  stig en síðustu 14 ár tuttugustu aldar 9,1 stig og má heita sá sami viðmiðunartímabilið 1961-1990. Ekkert smáræðis hitastökk! Á öllum árunum 1942-2001 kom engin júní sem náði meðaltali allra júnímánaða á okkar öld, 10,4 stigum. Frá og með 2002 hafa júnímánuður verið með eindæmum hlýir, til dæmis komið þrír mánuðir sem hafa náð ellefu stigum eða meira (sá síðasti í fyrra) en aðeins tveir frá 1871-2000, árin 1941 og 1871. 

Hitafarið í júní á okkar öld er því mjög óvenjulegt ástand og stendur varla óbreytt til langframa.

Nú eru Reykvíkingar þó auðvitað svo vanir því að fá júnímánuði frá svona tíu og hálfu stigi og upp fyrir ellefu stig, oft mjög sólríka líka, að mönnum mun sannarlega bregða í brún ef fara að koma svalir mánuðir, til að mynda undir 9 stigum og ég tala nú ekki um undir 8 stigum. Síðasti júní undir 9 stigum var reyndar sá fyrsti á okkar öld, 2001 en sá mánuður mældist 8,8 stig. Fimmtán kaldari mánuðir komu þó árin 1961-2000 og einn jafn kaldur. Af þessum mánuðum voru fjórir undir 8 stigum, sá síðasti 1992, 7,8 stig. Ekki er nú langt síðan i veðurfarslegu tilliti.

Kaldasti júní sem mælst hefur í Reykjavík var 1867 6,4 stig en kannski var aðeins kaldara í júní 1851 en þá var ekki mælt í Reykjavik en hins vegar í Stykkishólmi þar sem var kuldi mikill. Köldustu júnímánuðir sem miðaldra fólk ætti að muna eftir voru einmitt 1992, 7,8 stig og 1978 með sömu hitatölu. Fáir munu nú reka minni til júní 1922 sem mældist aðeins 7,4 stig.

Þó síst af öllu vilji maður spá af alvöru um framtíðina eða taka upp kuldahrollstakta, þó þeir séu nú nokkuð í tísku, kæmi manni ekki á óvart þó þessi órofnu að kalla má sumarhlýindi (og önnur hlýindi) sem ríkt hafa á landinu þessa öld fari nú að brotna eitthvað upp.

Fylgiskalið fylgist svo áfram með veðrinu í júni. Þar hefur við hliðina á meðalhita hvers dags á landinu verið bætt við meðaltali hitans fyrir hvern dag á þessari öld, 2001-2014.

   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vorkuldi og forlagatrú

Það er synd að segja að vori vel. Meðalhitinn í Reykjavík er nú 3,8 stig eða 1,9 stig undir meðallaginu 1961-1990 en 2,6 stig undir meðallagi þessarar gósenaldar. Á Akureyri er meðalhitinn 2,0 stig eða 1,2 stig undir meðallaginu 1961-1990.

Ekki hefur verið kaldara fyrstu 22 tvo dagana í maí síðan 1979 sem á kuldametið fyrir þá daga síðan Veðurstofan var stofnuð 1920, 0,7 stig. Kaldara var líka í hafísamaímánuðinum mikla 1968, 3,6 stig og sama í maí 1949, en 1943 var hitinn þessa daga um 2,9 stig. Líklega var einnig kaldara 1920 þegar hitinn var eitthvað i kringum 3,3, stig þessa daga en svipað 1924 en dagshitinn fyrir þessi síðast töldu ár er ekki eins öruggur og hin árin. 

Þetta eru sem sagt einhverjir köldustu maídagar það sem af er síðan 1920. Ástand gróðurs er að minnsta kosti hálfum mánuði á eftir meðallagi syðra, hvað þá annars staðar. 

Sólskinsstndir eru nú orðnar 232,2 í Reykjavík og hafa fyrstu 22 dagana í maí aðeins orðið fleiri árið 1967, 238,2 klst, og 1958, 250,5 stundir. Maí 1958 var þegar upp var staðið sá sólríkasti sem mælst hefur í Reykjavik og 1967 sá þriðji sólríkasti en voru að öðru leyti hinir ógæfulegustu. Næst sólríkasti maí í sögunni í Reykjavík var 2005 og var hann sá kaldasti á okkar öld!         

Þó nú virðist mikil tíska á netmiðlum að gera ráð fyrir því að það veður sem ríkt hefur í maí  haldi bara út allt sumarið nokkurn veginn í sama stíl er það í hæsta máta ólíklegt og er sú forlagatrú öll hin undarlegasta. 

En ef það gerist nú eigi að síður mætti kalla síðasta sumar hreina sælutíð í samanburði. Búast má samt við því að forlagatrúarmennirnir skynji svo sem engan mun enda er nú sagt á æðstu stöðum að þjóðin skynji ekki lengur veruleikann eins og hann er heldur lifi í einhverri dularfullri fantasíu!

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Metsólskin í Reykjavík í kuldanum

Þessi maí byrjar að vísu ekki með látum en meira sólskini í Reykjavík en dæmi eru um áður fyrstu dagana í maímánuði síðan sólskinsmælingar hófust þar fyrir um 90 árum. Sólarstundirnar eru nú orðnar næst flestar sem mælst hafa fyrstu fimm dagana, 74,3 en voru 76, árið 1931. Eftir daginn í dag munu sólskinsstundirnar liklega slá út fyrstu fimm maídagana 1931, ef við reiknum með 15 stundum, og munu þá slá út fyrstu sex dagana í maí 1924 og 1931 sem sólríkustu fyrstu sex dagarnir í maí í Reykjavík í sögu mælinga.

Í fyrradag mældist meira sólskin í höfuðborginni en nokkru sinni hefur mælst þennan dag, 16,0 stundir og þann þriðja var metjöfnun fyrir þann dag, líka 16,0 klukkustundir af sólskini. 

Hitanum er þó ekki fyrir að fara. Meðalhitinn í Reykjavík er 2,3 stig undir meðallaginu úrelta 1961-1990 en 3,0 stig undir meðallagi þessarar aldar. Það er alls ekki einsdæmi en vel samt í sjaldgæfara lagi

Á Akureyri er meðalhitinn -0,1 stig, þrjú stig undir meðallaginu 1961-1990. Meðalhitinn er undir frostmarki alveg frá Skagafirði austur og suður um til sunnanverða austfjarða. 

Viðbót 7.maí kl. 19. Sólarstundir í gær, þ. 6., í Reykjavík voru 16,1 klst og hafa aldrei mælst fleiri 6. maí. Og þar með er það staðfest að fyrstu sex dagarnir í maí eru þeir sólríkustu í mælingasögunni, 90,4 stundir en gamla metið var 85,2 í maí 1924. Í dag, þ. 7. má gera ráð fyrir að sólskinsstundirnar verði 15-16 og á morgun verður þá komið sólskinsmet fyrir fyrstu 7 dagana í maí. Þetta er því óneitanlega einstök sólskinstíð. En meðalhitinn það sem af er mánaðarins hefur enn lækkað, bæði í Reykjavík og á Akureyri enda var gærdagurinn sá næst kaldasti á landinu sem komið hefur í þessum maí. Ekki bætir svo dagurinn í dag úr skák. Þó dagurinn sé ekki búinn er hann með minnsta hámarkshita þessa daga í maí bæði á landinu og í Reykjavík og meðalhitinn verður ekki til að hrópa húrra fyrir. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband