Færsluflokkur: Ég

Rafræn dagbók um mótmæli og fleira

Það er sagt að bloggið sé "rafræn dagbók". Ég hef reyndar haldið handskrifaða dagbók síðan 3. maí 1962 en nú ætla ég að skrifa dagbók rafrænt fyrir þennan dag, so far.

Ég vaknaði hress og glaður og leit til veðurs. Það er alveg skítsæmilegt. Fór galvaskur að mótmæla í Skuggasundi í hádeginu. Þar voru ekki margir en það segir ekkert um hug þjóðarinnar til máls Páls Ramses. Mótmæli sem einstaklingar boða til eru alltaf fámenn. Það þarf félagasamtök eða einhverja hálf opinbera aðila til að fjölmenni fari að mótmæla. En þessi mótmæli hafa samt þýðingu langt framyfir fjöldann sem mætir á degi hverjum.

Stefán Pálsson flutti snjalla ræðu og sagði að Páll hafi átt í  höggi við atvinnumenn. Hugsa sér að hafa atvinnu af því að valda saklausu fólki þjáningum! Þráinn Bertelson talaði líka og sagðist hafa samvisku. Eva Hauksdóttir, norn, framdi að lokum magnaðan nornaseið.

Í dagókum eiga menn að vera persónulegir og hreinskilnir og helst ganga fram af lesendum. Þess vegna ætla ég að játa þann veikleika minn að hafa alltaf fundist Björn Bjarnason mjög áhugaverður maður. Það er eitthvað á bak við frontinn sem mér finnst merkilegt. Ég hef heldur aldrei vitað nokkurn mann sem horfir eins mikið á mig og hann. Meðan ég var að krítisera allt og alla sem tónlsitargagnrýnandi sá ég hann oft á tónleikum. Og hann horfði svo mikið á mig. Hvað var hann að pæla? Ég horfi á þá sem mér finnst vera eftirtektarverðir. Horfi framhjá hinum. Og ef einhver sýnir mér áhuga sýni ég honum áhuga. Þetta er alltaf gagnkvæmt. Spáðu í mig og ég spái í þig, sagði  Megas. 

Já, ég játa intressu mína í Birni Bjarnasyni. 

Well, en áfram með smérið og mótmælin. Þar voru ýmis stórmenni. Þar var Steingrímur J. Sigfússon og Mörður Árnason og Bjarni Harðarson. Allir voru þeir mjög alþingismannalegir. Bjarni er líka maður sem mér finnst eitthvað sjarmerandi við, þó ekki væri nema bókabúðin á Selfossi. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir var líka eins og drottning og var svo sjarmerandi að það leið næstum því yfir mig. En sú persóna sem sló alla aðra út í sjarmanum var tíkin Lúna sem var með húsbónda sínum, Stefáni Unnsteinssyni vini mínum.

Það er skítt hjá forsætisráðherra að segja það eitt að að í afgreiðslu máls Páls Rameses hafi í einu og öllu verið farið eftir lögum og reglum. Það er reyndar vafasamt af því að í lögunum er gert ráð fyrir mati á mannúðarsjónarmiðum. Það er ekki eithvað sem stendur utan við lögin. Afhverju átta menn sig ekki á þessu? Eru menn ekki læsir? En með þessum orðum er forsætisráðherra einfaldlega að leggja blessun sína yfir brottvísun Páls. Ekkert hafi verið athugavert við hana. Hvað æðstu ráðamenn eru alltaf sjálfum sér líkir.

Ég var að fá ímeil frá sjálfri Tótu pönkínu. Hún lætur vel af sér þó hún sé hætt að blögga. Hún kenndi mér að blogga og allt sem ég kann í blogstælum er stælt eftir henni og nú ég þykist sjálfur alltaf vera að hætta að blogga henni til samlætis en hætti samt aldrei. Ég held að bloggið sé uppfinning djöfulsins! Já, ég er að verða þæl trúaður í seinni tíð. Ég ætla að klára að blogga um veðrið í öllum mánuðum ársins. Svo hætti ég og sest í háhelgan stein.

Það skásta við bloggið er að það gefur hverjum bloggara færi á að sýna á sér ýmsar hliðar. Menn geta bloggað um alvarleg þjóðfélagsmál jafnt sem látið eins og fífl. 

Vel á minst. Frægur bloggari heimsótti mig í gær. Í dagbók eiga menn að vera hreinskilnir og ég vona að ég megi segja frá þessu. Þetta var hvorki meira né minna en hún Anna Karen. Hún var reyndar að skoða hann Mala fyrst og fremst. Enda er hann eitt af undrum veraldar. Frá því ég fékk Mala er hér stöðugt rennerí af aðdáendum og sumir koma með gæludýrin sín til að líta goðið augum. Áður kom hér aldrei nokkur maður eða nokkurt annað kvikindi.

Mjá, það held ég nú. 

Jæja, þá er þessari rafrænu dagbók lokið í bili og ég þarf að fara að undirbúa bloggfærslu um  sjóðheitustu júlímánuði.   

  


Hvað skiptir máli?

Nú dreymir mig um það að vera í friði og af engum þekktur. Þó ég sé stundum að þenja mig á almannafæri er ég afskaplega hlédrægur og mikið fyrir að lifa í mínu eigin heimi, eiginlega utan við skarkala mannlífsins. Mér finnst ég aldrei hafa tilheyrt mannlífinu í raun og veru. Samt á ég auðvelt með að eignast vini og er í góðu sambandi við fólk þegar ég vill það viðhafa. Ég fann það vel á fordómafundinum í dag, sem heppnaðist afar vel í alla staði, hvað það er mér auðvelt að tala til fólks. 

Mér finnst ég samt alltaf standa utan við. 

Og mér líður bara vel með það.

Undanfarið hef ég verið með bloggógeð sem kemur alltaf og fer annars slagið. Best finnst mér þá að láta sem minnst á mér bera. En af því að ég er líka félagslyndur er mér orðið hlýtt til marga þeirra  sem gera athugasemdir hér á síðunni. Og þó ég hafi sagt um daginn að ég sé búinn að fá mig fullsaddan af hysterískum aðdáendum mínum er þar ekki átt við einstaklingana heldur bara að ég hef ekki verið í bloggstuði og vildi vera einn með sjálfum mér.

Þegar fer að vora eflist alltaf þessi tilfinning mín fram eftir sumri að vera einn með sjálfum mér og njóta vorsins. 

Það er aldrei að vita nema það sé síðasta vorið.

Hvað skiptir máli í lífinu? Að þenja sig á bloggi og standa upp fyrir haus í dægurmálunum eða reyna að skilja lífið einhverjum alvöru skilningi meðan enn er tími til? Útivera, góðar bækur, mikil tónlist, einhver dýpt og innileiki utan við argaþrasið sækir þá að.

Allt sem máli skiptir kemur að innan en ekki utanfrá. 


Sannleikurinn leiddur í ljós

Ég át aldrei páskalambið á páskadag. Ég sagði það bara til að gleðja hysteríska aðdáendur mína. Sannleikurinn var sá að ég vakti með uppköstum alla páskanóttina og svaf svo frá kl. 7-12. Síðan hef ég verið alveg eins og aumingi. Ég hef nánast ekkert borðað síðan á laugardag en mikið drukkið af vökva enda þjáist ég af helvítisþorsta. En ég er nú hættur að gubba. Oj, ég gæti samt gubbað yfir því hvað þetta er allt saman ömurlegt.   

Áðan kom systir mín til mín með drykkjarvöru og fleira. Það er enn ekkert lát á flensunni, sem byrjaði á föstudaginn langa og þetta er sú allra versta flensa sem ég hef nokkru sinni fengið.

Mali er alltaf að reka trýnið upp í andlitið á mér og leggst svo ofan á mig hér og hvar. Það eru hans heilunaraðferðir. Hann hefur aldrei verið jafn þægur og góður.

Ég tel víst að veiran eigi eftir að fara í hjartað og heilann enda er hún búin að koma alls staðar annars staðar við.

Kannski að ég eigi eftir að fá viðurnefnið Siggi zombí


Páskalambið

Nú er ég búinn að borða aumingja litla og saklausa páskalambið.

Og mikið lifandis skelfingar ósköp var það nú gott!


Innri maðurinn

Ekki er hún gæfuleg veðurspáin. Eftir páskana mun kólna og vera snjór og frost um allt land.

Ætlar þessum viðbjóði aldrei að linna? En kannski er það huggun harmi gegn að veðurfræðingur dagsins sagði að sólin væri farin að hlýna. Það er sannarlega komin tími til. Hún hefur verið eitthvað svo undarlega köld upp á síðkastið. Hitinn í henni var síðast þgar ég vissi 15 miljón stig í kjarnanum en kannski er hann nú kominn upp í 20.

Annars hef ég í dag verið að hlusta á Mattheusarpassíu Bach. Á morgun er það Jóhannesarpassían.

Þrjá daga ársins vil ég vera í friði með sjálfum mér og loka allt annað úti: Jóladag, föstudaginn langa og páskadag. Þetta eru fyrir mig dagar tónlistar og innri íhugunar. Ég á mér nefnilega innri mann en það er sjaldgæft nú dögum. Þessi innri maður er gerólíkur þeim útvortis manni sem er að sperra sig á þessu bloggi.     

Ég fer alltaf í gönguferð þessa daga. Í dag var sól en samt mistur í lofti svo ekki sást til Snæfellsness. 

Mér finnst alltaf þegar orðið er snjólaust en ekki byrjað að vora að það sé búið að gera hreint fyrir vorkomuna.

Æ, vonandi þarf ekki að fara að gera aftur hreint ef snjór og slabb er að koma.

 


Lífsspeki

Því lengur sem maður lifir því langdregnara verður lífsdramað. Fer ekki bráðum að koma happy end?  

Fýla

Nú ætla ég að vera í fýlu þar til snjóa leysir.

Nú er ég að lesa Aristóteles. Tótallí óskiljanlegur. 


Ég og Þórbergur

Ég kom fyrst til Þórbergs 21. september 1964.  Þórbergur spurði að ýmsu um hagi mína og var mjög látlaus og vingjarnlegur. Hann talaði síðan mikið um drauga og skrímsli sem hann taldi  að væru líkamlegir náttúruandar. Um framhaldslífið sagði hann að vísindin væru alltaf að gera uppgötvanir sem bentu til þess að eitthvað meira en efni væri að baki tilverunnar.  Annars ræddi hann um allt milli himins og jarðar.

Þórbergur olli mér reyndar gríðarlegum vonbrigðum. Í stað þess að hitta eldhuga sem réði sér ekki fyrir andlegu fjöri eins og halda mætti af bestu bókum hans var ég inni í stofu með gömlum manni sem gekk og hreyfði sig eins og gamalmenni og talaði hægt og lítilfjörlega. Þetta gerði mig enn þá feimnari en ég var fyrir og var eiginlega eins og aumingi inni í mér. Þórbergur var 76 ára.  Ég alveg að verða sautján.

Síðan kom ég nokkrum sinnum til Þórbergs næstu árin. 

thorbergur_040303Ég var í blysförinni sem farin var að heimili hans þegar hann varð  85 ára 12. mars 1974. En ég var of feiminn til að fara inn þegar hjá honum var fullt af fólki. 

Ég kynntist bókum Þórbergs í fyrsta sinn haustið 1960 þegar ég var nýorðinn 13 ára. Þegar ég tók bókina á bókasafni stóð ég í þeirri meiningu að þetta væri andatrúarrit, sögur að handan í líkingu við Bréf frá Júlíu. 

Bréf til Láru gerði mig að kommúnista og tafði þar með raunhæfan skilning minn á þjóðfélagsmálum í ein þrjátíu ár. Hvað skyldu Þórberg og Halldór Laxness hafa gert marga að fylgjendum þessarar óheillastefnu í rósrauðri hugsjónavímu? Ég dáði Þórberg síðan meira en alla aðra höfunda árum saman. En ekki lengur.

Það er óhreinskilni Þórbergs um sjálfan sig og þyrrkingslegt sálarlíf hans sem hefur fælt mig frá honum hin síðari ár. Enginn íslenskur rithöfundur hefur verið með sjálfan sig í öðrum eins felum. En það hafa menn ekki vitað fyllilega, þó sterkur grunur hafi leitað á suma fyrir löngu, fyrr en á síðari árum. Þórbergi tókst að telja mönnum trú um að hann væri allra manna hreinskilnastur og heiðarlegastur. Ábyrgðarleysi Þórbergs í kvennamálum finnst mér lika fráhrindandni. Jú, ég veit að menn eiga víst ekki að blanda saman lífi og list, en hvað Þórberg varðar var það alltaf óaðskiljanlegt í mínum huga.  Hann var kvennaflagari en brá upp þeirri mynd af sér að hann væri óframfærinn í þeim efnum. Óheilindi!    

Þórbergur er mesti stílsnillingur íslenskra bókmennta að mínu mati en er á margan hátt takmarkaður rithöfundur. Og það er enn langt í land með að menn reyni að vega kosti hans og galla með raunsæjum fagurfræðilegum skilningi. Menn eru bara enn að upphefja hann. Það er dæmigert að menn segi að það verði að taka hann eins og hann er með öllum sínum annmörkum. Þá ljúki hann upp öllum leyndardómum sínum.

Skilningurinn á takmörkunum Þórbergs sem rithöfundar leiðir til skilnings á manninum sjálfum. Það eru þessi aspergiseinkenni sem lýta bækur hans, þessi listræna ráðleysi eða getuleysi við að ritstýra efni sínu af smekkvísi og skarpleika fremur en að taka allt með. Þar með breytist ritsnilldin stundum í hreinasta stagl. Þyrrkingurinn í sálarlífinu, sem er hluti aspergiseinkennisins, veldur hins vegar því að honum var alveg fyrirmunað að skrifa um harmsefnin í lífi sínu sem voru þó mörg og sár. Þetta gerir list hans á endanum yfirborðslega. Glæsilegur stíllinn dylur vissa grunnhyggni og innihaldsleysi en birtir fyrst og fremst stöðug látalæti. En fyndni Þórbergs og þessi ótrúlega marghliða og mergjaða stílsnilld fær mann til að fyrirgefa honum margt en samt endist hrifningin ekki ævilangt. Maður fær að lokum leið á þessum manni sem aldrei getur sagt alvarlegt orð um sjálfan sig og mannlífið. Ég efast mjög um að unga fólkið nenni að lesa Þórbergs að nokkru ráði. Á því veltur það hvort hann mun lifa sem rithöfundur eða verða bara föst en lífvana stærð í bókmenntasögunni en það verða reyndar örlög næstum því allra höfunda.

Á Þórbergsráðstefnu árið 1889, þegar haldið var upp á hundrað ára afmæli Þórbergs, hélt ég í erindi á ráðstefnunni og reyndi að benda mönnum á þetta. En það féll í grýttan jarðveg. Sumir gamlir Þórbergsaðdáendur og vinir Þórbergs, sem þá voru orðnir gamlir og myglaðir, eins og t.d. Jakob Benediktsson, horfðu alveg í gegnum mig eins og menn gera þegar þeir vilja sýna mönnum sérstaka lítilsvirðingu. Einn maður var þó yfir sig hrifinn, Sigurður A. Magnússon og Þorsteinn Gylfason lét sér einnig vel líka. Og Erlendur Jónsson bókmenntgagnrýnandi Morgunblaðsins og gamall kennari minn lofaði mjög erindi mitt (sem seinna var prentað í Tímariti Máls og menningar), utan dagskrár í einhverjum ritdómi í Mogganum. En ég hyrði ég frá ýmsum vinum mínum að mönnum hafi fundist ég vera að gera lítið úr Þórbergi.  

Og enn eru menn að lofa og prísa Þórberg alveg einhliða og virðast vera gersamlega blindir á hina galla hans. Það má ekki einu sinni nefna þá.  

 

 


Sloppið með skrekkinn

Í dag þegar ég leit í veskið mitt var þar ekkert kreditkort.

Mér brá í brún og sá fram á að einhver væri búinn að taka út á það alveg heil ósköp.

Í gær verslaði ég aðeins á tveimur stöðum. Ég keypti gamla bók í Bókavörðunni hjá Braga. Og ég keypti mér vínarbrauð sem ég át af græðgi með ilmandi kaffisopa. Byrjaði á því að fara í bókabúðina. Þar höfðu menn ekki séð neitt kort. En viti menn! Var ekki kortið í Sandholtsbakaríi. Þar varð fyrir svörum falleg stúlka. En einhver hafði gert sér lítið fyrir og fengið sér te og brauð út á kortið sem hann hefur fundið á borðinu eða gólfinu. Meira var það ekki því starfsólkið áttaði sig því ég er alltaf þarna meira og minna. Það tók kortið frá og skrifaði hjá sér það sem út á það hafði verið tekið eftir að ég fór út úr bakaríinu í gær. Og það var mér endurgreitt óumbeðið.

Ég slapp sem sagt með skrekkinn og hef snöggtum meiri trú á mönnunum  - að ekki sé sagt konunum - í dag en í gær.

Sandholtsbakarí er mikið sómabakarí.

  

 


Ég og "feministarnir"

Meðan á bloggverkfallinu vegna auglýsinganna stóð sendi einn bloggari inn á athugasemdakerfið mitt mynd af rassi, sem menn greindu á um hvort var kvenmanns ellegar karlsmannsrass, en kynin eru nú aðeins tvö eins og allir vita. Meiningin með þessu var að auglýsingar Moggans á bloggsíðum væru pain in the ass. Ég tók svo þessa mynd upp til að setja á sjálfa bloggfærslu mína gegn auglýsingunum. Katrín Anna Guðmundsdóttir fyrrum formaður Feministafélagsins, held ég, gerði þá athugasemdir í fyrsta sinn á síðunni minni og sagði:

En týpískt að mótmæla auglýsingum á blogginu með mynd af kvenmannsrassi. Akkúrat ein af ástæðunum fyrir því að ég vil ekki sjá auglýsingar á blogginu mínu - dettur ekki í hug að prómótera svona óvirðingu.”

Með þessari athugasemd var hún að segja að ég sé að sýna konum óvirðingu og lætur í það skína að það sé alveg dæmigert.

Ég tók þetta mjög óstinnt upp því það virkaði eins og hnífstunga í bakið á mér. Ég sagði í athugasemd að engri athugasemd sem ég hef fengið – og þær eru sumar ekki prenthæfar og hafa verið fjarlægðar –  hefði mér sárnað eins mikið. Katrín Anna svaraði aftur og sagði að kannski hefði mér bara sárnað af því að ég skynjaði að sannleikskjarni hafi verið í ummælum sínum.

En nú ætla ég að víkja að raunverulegri ástæðu þess að mér sárnaði sem á sér dálitla sögu og hún er nokkuð persónuleg.

Fyrir einum tuttugu árum tók ég að skrifa greinar um málefni sem feministar hafa mikið látið til sín taka: kynferðisofbeldi, aðallega gegn börnum en þó ekki eingöngu. Ég var einn af þeim fyrstu sem fór að skrifa um þessi mál á Íslandi. Ég var mjög meðvitaður um tengsl þessa ofbeldis við stöðu kvenna. Einu sinni fyrir kosningar hvatti  ég  fólk til að kjósa Kvennalistann, sem þá var í framboði, sem eina listann sem hefði á stefnuskrá sinni eindregna fordæmingu á ofbeldi gegn konum og börnum. Tilfinningar mínar fyrir fullorðnum konum sem verða fyrir kynferðisofríki karla má vel sjá á þessari færslu minni  um Friðbjörgu og Guddu gröðu.

Enn síðar sagði ég sögu mína um ofbeldi sem ég varð sjálfur fyrir. Sótt var að mér vegna hennar.  Aðalsöguefni mitt er ósannað fyrir dómnstólum í nákvæmlega sama skilningi og saga Thelmu Ásdísardóttur. Hins vegar vildi svo til að eina hlið frásagnarinnar, sem fléttaðist þó algerlega saman við ofbeldissöguna, en ég var þó alveg búinn að gleyma (aukasögunni) af því að ég treysti mér ekki til þess að muna hana vegna nálægðar hennar við ofbeldið, tókst mér  að rifja upp aftur á ótrúlegan hátt. Þetta er frásögn af rússnesku stúlkunni Veru sem ég kynntist náið fyrir löngu síðan en gleymdi eins og áður segir. Ég hef nú skrifast á við hana um skeið og fengið frá henni myndir af henni og fjölskyldu hennar, á hjá henni heimboð og tala stundum við hana í síma, einu sinni með þriðja manni sem er betri í rússnesku en ég. Þetta sýnir í það minnsta að saga mín er trúverðug í heild. 

Eftir að saga mín birtist bárust mér af því áreiðanlegar fréttir að ein af forsvarskonum Stígamóta, þegar lauslegur kunningi minni spurði hana um hvað hún héldi um frásögn mína, hefði sagt um mig "Ja, Sigurður er nú umdeildur maður!"

Þessa sögu sagði mér sá maður sem þetta var sagt við. Ég gæti nefnt nafn þessarar starfskonu Stígamóta.

“Sigurður er nú umdeildur maður”. Það merkir að það er ekkert víst að hann sé að segja rétt frá. Hann er svo skrambi umdeildur.

Þannig hefði starfskona Stíamóta aldrei brugðist við ef um konu hefði verið að ræða. Stígamótakonur telja þær aldrei umdeildar í vitnisburði sínum. Þeim er alltaf trúað.

Ég hafði stundum gagnrýnt Stígamót en líka hrósað þeim. Gagnrýni mín, sem aldrei var þó harkaleg,  laut að því að eftir þeirra uppsetningu snerti kynferðisleg misnotkun eingöngu eða svo til eingöngu stúlkur. Þannig var umræða Stígamóta ár eftir ár eftir ár. Allar aðrar skoðanir voru fullkomlega þaggaðar. Það væri ekki rétt taldi ég með tilvísan í erlendar rannsóknir af ýmsu tagi og slíkur málflutningur, slíkar blekkingar, hlytu að gera drengjum erfitt fyrir sem hefðu orðið fyrir misnotkun. Það hefur nú komið á daginn að þolendur kynferðisofbeldis eru miklu algengari meðal drengja en áður var talið. 

Þetta var sök mín gagnvart Stígamótum.

Nánast enginn feministi eða kvenréttindakona, sem oft eru þó að skrifa greinar og flytja ræður um "ofbeldi gegn konum og börnum” komu mér til varnar þegar að mér var vegið vegna sögu minnar. Ekki ein einasta af þessum áberandi þingkonum og öðrum sjálfskipuðum jafnréttiskonum sem alþekktar eru með þjóðinni fyrir málgleði sína og afskiptasemi. Ef kvenmaður hefði sagt sögu mína hefði hún örugglega verið hafinn upp í dýrlingatölu af þeim. Ég þekki nú allt mitt heimafólk.

Við búum í litlu  samfélagi þar sem allir vita af öllum. Allar hafa þessar hugsjónakonur, sem sífellt eru að tala og tala gegn ofbeldi, passað sig á því að nefna mig aldrei á nafn á nokkrum vettvangi. Það hefir verið alger samstaða um það meðal þeirra að láta sem ég sé ekki til þó ég hafi árum saman verið að leggja lið málefni sem þeim er mjög hjartfólgið. Þegar um mikilægt þjóðfélagsmál er að ræða sem ég hafði skrifað um og dregið vel fram í dagsljósið heitir þetta þöggun.

Ég er afskaplega næmur maður enda töldu sumir að ég væri skyggn þegar ég var barn. Þegar ég mætti þekktum feministum á þessum árum þegar ég gagnrýndi stundum Stígamót var eins og ég fyndi alveg vanþóknun sumra þeirra í  minn garð. En ég er þó meðvitaður um að það er hægt að mistúlka svona. Samt er ég sannfærður um að grunur minn var oft réttur. Annað dæmi svipað: Einu sinni, skömmu eftir að Thelma Ásdísardóttir opnaði bloggsíðu sína kom  ég með vinsamlega athugasemd inn á hana. Hún brást á engan hátt við henni. Hundsaði mig gjörsamlega.

Hvað segir nú allt þetta? Það kemur glögglega upp um það að þær íslenskar konur sem kalla sig feminista (Thelma er hér þó undanskilin) og mest hafa haft sig í frammi stendur svo sem á sama um kynferðislega misnotkun á börnum nema sem tæki til að nota í pólitískri jafnréttisbaráttu sinni. Og þær horfa hiklaust framhjá málum sem þær geta ekki notað í því skyni. Börnin hafa þær notað sem tæki hagsmunum fullorðinna kvenna til framdráttar.

Ég get ekki ímyndað mér lítilmótlegra athæfi.

Ég hef þó fulla samúð með þessum konum í almennri jafnréttisbaráttu þeirra en þær ættu endilega að láta það vera – barnanna vegna- að vera að blanda kynferðislegri misnotkun gegn börnum inn í þá baráttu eins og þær hafa þó ótæpilega gert.

Ég stóð að mestu einn einn í skrifum mínum um þessi mál og varð að mæta afleiðingunum einn með dálitlum stuðningi fáeinna einstaklinga. Á bak við mig var hins vegar ekki stjórnmálaflokkur eins og Kvennalistinn eða aðrir flokkar, því um síðir alþjóðleg hagsmunahreyfing eins og feminisminn er. Ég stóð einn í krafti hugsunar minnar og andlegs heiðarleika.

Ekkert veit ég aumlegra en sækja styrk sinn og bakka upp egó sitt með því að samsama sig stjórnmálaflokki þar sem myndast meira og minna hópegó. Þar þarf enginn að taka persónulega á sig neina skelli heldur eru þeir bakkaðir upp af  hópsál sem samanstendur af þúsundum eða tugþúsundum einstaklinga sem allir hugsa næstum því eins og  vita að þeir þurfa aldrei að leggja sig í persónulega áhættu. Og ofsinn og  hatrið út í andstæðinga hugsjónar viðkomandi flokks eða hreyfingar er magnaður upp af þessari múghugsun sem stundum verður að hrein múgæsingu . Ég get ekki ímyndað mér meira andlegt ósjálfstæði.  

Auðvitað hef ég tekið nokkuð inn á mig þessi viðbrögð sem ég hef fengið' við því framlagi sem ég hef sett fram um kynferðislega misnotkun. Það er ekki hægt að ætlast til annars.

Þetta eru nú ástæðurnar fyrir því að mér sárnaði athugasemd Katrínar Önnu Guðmundsdóttir í bloggfærslu minni um bloggstrækið. Atvikið rifjaði upp fyrir mér gamlar minningar. Minningar um kvenlega fordóma, þöggun og afneitun. Þó er þar engan veginn hægt að segja að um öfgafeminista hafi verið ræða, bara venjulega feminista, og eins og áður segir hef ég mikla samúð með málstað þeirra almennt talað.

Öfgafeministarnir eru hins vegar  kapituli út af fyrir sig.   

Það er einkenni á lífi mínu hvað ég á margar vinkonur. Sumar þeirra eru mörgum áratugum yngri en ég. Þær eru allar eindregnir feministar. En þær eru líka skynsamar og víðsýnar, hafa innsýn  í mannlegt líf, bæði almennt og hvað varðar persónur, eiga sem sagt til mannþekkingu, skilning, hlýju og nærgætni í mannlegum samskiptum og síðast en ekki síst húmor í ríkum mæli. Allt eru þetta eiginleikar sem öfgafólk skortir. Fanatík öfgafeminista, eins og annarra öfgamanna, fælir fólk frá málstað þeirra í stórhópum. Þeir eru því þeim málstað skaðlegir sem þeir reyna að veita brautargengi þó þessir öfgamenn virðist ekki gera sér minnstu grein fyrir því. Athugasemdin sem ég fékk frá Katrínu Önnu með tilheyrandi brigslum um kvenfyrirlitningu er dæmigerð fyrir þá öfgafemínísku hugsun sem er að drepa yfirvegaða umræðu um jafnréttismál hér á landi og eitra allt mannlíf í kringum sig. 

Ég mun ekki leyfa athugasemdir við þessa færslu af því ég kæri mig ekki um að fá yfir mig hatursfull og illkvittnin skeyti, jafnvel nafnlaus, frá konum sem ég hef aldrei séð eða heyrt og þekkja mig ekki nokkurn skapaðan hlut. 

Góðu kommentin sem ég hefði kannski fengið verða þá að gjalda þessa.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband