Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Nafn læknisins

Læknirinn sem framkvæmdi þvagleggstökuna á Selfossi með  ofbeldi hetir Einar Björnsson og er læknir á Landsspítalanum-Háskólasjúkrahúsi.

Við vitnaleiðslur í málinu tók sýslumaðurinn réttilega fram að þvagtaka sé læknisfræðileg aðgerð. Læknirinn ber þess vegna ábyrgð á henni þrátt fyrir það aðstæður sem gerir það að hann framkvæmir hana að fyrirmælum sýslumanns. Þessu atriði hef ég alltaf haldið fram. 

Margir læknar, þeirra á meðal aðastoðarlandlæknir, lýstu á sínum tíma yfir hneykslan sinni á þessari aðgerð. Mál læknisins er til meðferðar hjá Landlæknisembættinu og virðist hún taka undarlega langan tíma.  

Nú er eftir að sjá hvort nokkuð verður gert í málinu og hvort Einar Björnsson læknir þurfi að bera ábyrgð á gerðum sínum eða hvort það eigi bara við um "smælingjana".

 

 


Þunglyndislyf eru gagnslaus nema við alvarlegu þunglyndi

"Ný kynslóð af geðdeyfðarlyfjum á borð við Prozac og Seroxat hafa litla sem enga virkni fyrir það fólk sem notar þessi lyf. Í flestum tilvikum er jafngott að bryðja brjóstsykur." Svo segir í Frétt á Vísi is. Og ennfremur:  

"Vísindamenn við háskólann í Hull hafa komist að því að geðdeyfðarlyfin virka aðeins hjá þeim hvað alvarlegast þjást af geðdeyfð eða þunglyndi. Í flestum tilfella er virknin lítil sem engin.

Vísindamennirnir skoðuðu niðurstöður úr 47 klínískum rannsóknum sem gerðar voru áður en lyfin voru markaðssett. Þar á meðal voru niðurstöður rannsókna sem aldrei hafa verið birtar opinberlega áður en vísindamennirnir fengu aðgang að þeim í gegnum upplýsingalöggjöf Bandaríkjanna. Fram kemur að jafngóður árangur náðist meðal sjúklinga hvort sem þeir notuðu lyfin eða gervipillurnar sem gefnar voru til að fá samanburð á virkni lyfjanna."

Framleiðendur lyfjanna hafa auðvitað neitað þessu enda græða þeir óheyrilegar fúlgur á sölu þeirra.

Þessar upplýsingar koma reyndar heim og saman við álit margra þeirra sem gagnrýnt hafa skefjalausa notkun geðdeyfðar-eða þunglyndislyfja. 

Skyldu þessar fréttir hafa einhver áhrif á íslenska lækna sem skrifa í tonnatali lyfseðla fyrir þessum lyfjum til sjúklinga sinna en notkun þunglyndislyfja Íslendinga mun vera einhver sú mesta í heimi.

Þunglynd þjóð? Það hlýtur að vera. En hvernig er hægt að koma því heim og saman við að vera hamingjusamasta þjóð í heimi eins og einhverjar kannanir hafa leitt í ljós?

Fjósrugluð þjóð! 

Evróvisjón þjóð!!

 


Er doktor Jósef Mengele endurborinn?

''Ökumaður ber lögregluna á Selfossi þungum sökum og segir hana hafa beitt sig ofbeldi við sýnatöku árla dags á föstudaginn. Hlaut maðurinn áverka vegna viðskipta sinna við lögreglu og hefur ráðið sér lögfræðing til að kanna stöðu sína. Vegna gruns um ölvunarakstrur stöðvaði lögreglan bíl mannsins. „Um leið og ég settist inn í   lögreglubílinn byrjuðu þeir að ausa yfir mig svívirðingunum og kölluðu mig hálfvita og aumingja," segir hann en viðurkennir að hafa ekið eftir að hafa drukkið tvö bjóra.

Þegar taka átti blóðsýni af manninum eftir að komið var á lögreglustöðina „Þá kom þarna einhver maður sem mér var sagt að væri læknir. Ég er mjög hræddur við nálar og bað því um að maðurinn framvísaði einhverjum gögnum til að færa sönnur á að hann væri læknir. Þá réðust skyndilega þrír lögreglumenn á mig og héldu mér á meðan þessi maður dró úr mér blóð." Manninum var  mjög brugðið en hann hlaut áverka vegna átakanna. „Þeir tóku mjög fast á mér en ég veitti enga mótspyrnu. Ég er rispaður og marinn eftir þá og get engan veginn sætt mig við þessa meðferð."

Það er ýmislegt athyglisvert við þessa frétt úr "24 stundum" í dag. Í fyrsta lagi að lögreglumennirnir skyldu byrja á því að ausa svívirðingum yfir manninn. Í öðru lagi að honum skyldi hafa verið haldið af þremur lögreglumönnum fyrir það eitt fara fram á það að læknirinn ávísaði einhverjum skilríkjum um það að hann væri í rauninni læknir.

Einmitt góður punkur. Við erum krafin um persónuskilríki af fulltrúum ríkisvaldsins í tíma og ótíma og er þá nokkuð athugavert við það að við förum fram á það sama þegar búningar gefa það ekki beinlínis til kynna að um fulltrúa ríkisvaldsins sé að ræða. Eða er það túlkað sjálfkrafa sem mótþrói  af lögreglunni ef maður í þessari stöðu fer fram á það sem hann gerði?

Og hver er þessi læknir? Er þetta sami læknirinn og tók þvagsýnið úr konunni á Selfossi í fyrra? Hvernig í ósköpunum getur hann fengið sig til að vinna læknisverk undir ofbeldi?

En það gildir það sama með þetta atvik og þvagleggsmálið. Fyrst af öllu á gera lækninn ábyrgan fyrir að framkvæma læknisverk með ofbeldi. Alltaf er ráðist á lögregluna sem fyrsta kost jafnvel þó um læknisverk sé að ræða. Læknirinn gæti alveg sagt: Herrar mínir! Við þessar aðstæður vinn ég ekki verkið. Eru læknar aumingjar sem engu voga sér gegn valdinu?

Hvernig stendur eiginlega á þessari linku sem höfð er við lækna sem gerast samsekir um ofbeldi í læknisverkum sínum? Þeir eru ábyrgir fyrir læknislega þætti verksins í svona tilvikum. Samt er aldrei hróflað við þeim og þeir þurfa ekki að standa við afleiðingar gerða sinna. Nöfn þeirra koma ekki einu sinni fram.

Eitt er eftirtektarvert við svona aðstæður. Ríkisvaldið hefur mörg vitni gegn einum borgara sem stendur alveg einn. Það getur því hagað sér eins og því sýnist. En ekki minnkar níðingsskapurinn við það. 

En ég endurtek: Hver er þessi læknir?

Veit nokkur það? Kannski dr. Jósef Mengele endurborinn?         


Kleppur í 100 ár

Ég var að lesa bókina Kleppur í 100 ár eftir Óttar Guðmundsson geðlækni. Ég hafði efasemdir um ritun þessarar bókar á sínum tíma hér á bloggsíðunni. En nú er mér ánægja af að viðurkenna að mér skjátlaðist. Nú tel ég að engum manni hefði farist þetta eins vel úr hendi og Óttari. 

Bókin er mjög læsileg enda er hún ekki hugsuð sem harðsvírað fræðirit heldur bók fyrir almenning sem samt á að vera áreiðanleg.  Frásögnin er blátt áfram og eðlileg, stíllinn skýr og nákvæmur, hvergi neitt mas eða óþarfa útúrdúrar og höfundurinn stillir sig að mestu um að túlka atburðarásina heldur lætur hana tala sínu máli. Túlkunin gæti orðið efni í aðra bók.

Bókin er ekki nein stofnanasaga æðstu yfirmanna heldur ekki síður starfsfólksins og sjúklinganna. Glefsur úr frásögnum sjúklinga auka mjög á raunveruleikann, ef svo má segja,  í þeim aðstæðum sem bókin lýsir.

Þegar viðhorf Óttars sjálfs gægjast fram eru þau hófstillt og skynsamleg, svo sem um starf Tengla og um andstöðuna við geðlækningar þar sem hann dregur vel fram bæði þá kosti og galla sem sú hugmyndafræði hafði í för með sér kringum 1970.

Frásögnin af stóru bombunni þegar Helgi Tómasson yfirlæknir á Kleppi lýsti því yfir að Jónas Jónasson dómsmálaráðherra væri geðveikur er með bestu köflum bókarinnar og þar gengur Óttar nær óþægilegum kjarna málsins en ég hef séð í öðrum skrifum um málið. Hann spyr einfaldlega: "Var Jónas geðveikur? Í augum skrásetjara er það engum vafa undirorpið að Jónas hafði alvarlega persónuleikabresti. En hvað svo sem segja má um háttsemi Jónasar þá var vafasamt að lýsa hann geðveikan á grundvelli sögusagna án nákvæmrar skoðunar og endurtekinna viðtala." Óttar telur þó að Helgi hafi haft nokkuð til síns máls en aðferðirnar hafi verið vafasamar og borið keim af misnotkun geðlæknisfræðinnar. Í bókinni kemur vel fram hvað allir læknar í landinu voru algjörlega slegnir blindu á kjarna málsins að undanskildum Vilmundi Jónssyni landlækni.

Það eina sem stakk mig við lestur bókarinnar var það hvað hún segir mikið frá "kynlegum kvistum" sem komu á Klepp, Símoni Dalaskáldi, Láru miðli, Jóhannesi Birkiland, Vilhjálmi frá Skáholti og þar fram eftir götunum. Af þessu mætti draga þá ályklun að það sé einna helst slíkt fólk sem hefur farið á Klepp gegnum árin. En staðreyndirnar eru allt aðrar. Þar hefur verið alls konar fólk, allt upp í landsþekka stjórnmálamenn og virðulega bankastjóra og prófessora. Og þeir voru ekkert að vappa uppi í Víðihlíð þar sem lífið var leikur einn og gaman. Þeir voru á órólegu deildunum og voru alveg einstaklega órólegir!

Margt sér maður einkennilegt við lestur bókarinnar. Lækningar Þórðar Sveinssonar, sem stóðu árum saman og voru reyndar umdeildar, eru í okkar augum ekki aðeins skottulækningar heldur hreinar pyntingar. Sjúklingarnir voru soðnir og sveltir til hlýðni. Og það segir sína sögu að ekkert afl í þjóðfélaginu hafi verið þess megnugt að stöðvar þessar aðferðir og bjóða þess í stað upp á það besta sem þá þekktist í geðlækningum. Þá er kaflinn um lóbótómíu allt annað en skemmtilegur en þá var heilinn eiginlega skorinn úr erfiðum einstaklingum, jafnvel mörgum sem voru ekkert sérlega erfiðir heldur bara óreglusamir og strekktir á tauginni, svo þeir urðu á eftir aðeins skugginn af sjálfum sér.

Þegar menn líta yfir þessa sögu, varnarleysi sjúklinganna og vankunnáttu læknanna, fer ekki hjá því að maður spyrji: En hvað með lækningar geðsjúkra í dag? Verða þær eitthvað betri en þetta í augum eftirkomenda okkar eftir hundrað ár? Ég held að svarið  muni raunar verða að svo væri, þar hefðu verið miklu betri, en alveg örugglega sjá menn þá að margt hefði betur mátt fara í þeirri nútíð sem þá var, það er okkar nútíð. Það er því eins gott að við séum vel á verði. Og tíðarandinn núna er kannski ekkert sérstaklega vinsamlegur þeim sem þjást af geðsjúkdómum eins og nýliðnir atburðir taka af  öll tvímæli um.


Fordómar gegn geðsjúkdómum, Morgunblaðið og dómsmálaráðherrann

Þáttur Spaugstofunnar um Ólaf F. Magnússon borgarstjóra hefur vakið reiði margra. Ólína Þorvarðardóttir sagði að þar hefði borgarstjórnaum verið lýst sem vitfirringi og jafnframt hefði lýsingin verið fordómafull gagnvart geðsjúklingum almennt.

Umfjöllun Spaugstofunnar var þó alveg augljóslega ýkt og grótesk parodía

Fordómar eiga sér margar birtingarmyndir. Sú lúmskasta og skaðlegasta er tiltölulega "hógvær" og "fáguð" orðræða sem er full af skrauthvörfum og undanbrögðum frá því að nefna hlutina  sínum réttu nöfnum.

Það er einmitt eðli fordóma gegn geðsjúkdómum að veigra sér við að nefna hlutina réttum nöfnum. Jafnvel heitin "þunglyndi", "geðhvörf", "kvíðaröskun", "fælni"  og svo framvegis valda ótta og ranghugmyndum í augu þeirra sem eru fullir af villuhugmyndum, hræðslu og hleypidómum í garð þeirra fyrirbæra sem orðin lýsa.

Menn skammast sín þá svo mikið að þeir geta bara ekki nefnt neitt geð-rænt í heyranda hljóði þegar að þeim sjálfum eða þeirra nánustu kemur. Þess vegna tala þeir um að vera niðurdregnir eða hafa orðið fyrir andlegu mótlæti í stað þess að viðurkenna það hreinskilnislega og eðlilega að þeir hafi verið í slæmu þunglyndiskasti. Það er einmitt orðræða og undanfærsla af þessu tagi sem er lang hættulegasta gerð fordóma gegn geðrsökunum.

Eitt skulum við hafa á hreinu: Læknar gefa ekki út veikindavottorð nema læknisfræðilega skilgreindur sjúkdómur leynist þar að baki. Þeir gefa ekki út vottorð um andlegt mótlæti vegna þess að það hefur enga læknisfræðilega merkingu.

Margir eiga við ýmis konar mótlæti að stríða og eru býsna niðurdregnir en mæta þó til vinnu viku og mánuðum saman meðan það er að ganga yfir. Það segir sig hins vegar sjálft að átta mánaða fjarvera frá vinnu er eitthvað stærra í sniðum en bara þetta.

Svo er annað atriði sem við verðum að gera okkur grein fyrir.

Geðsjúkdómar eru með algengustu sjúkdómum. Aðeins lítill hluti þeirra veldur þó sturlunarástandi sem oftast gengur þó aftur til baka sem betur fer með viðeigandi læknishjálp og stundum án hennar. Kostnaðurinn við þessa sjúkdóma er óheyrilegur í peningum en er þó lítið mál miðað við þjáningar sjúklinganna og aðstandenda þeirra. Þess vegna ríður á að menn séu sæmilega upplýstir um geðsjúkdóma svo hægt verði að bæta ástandið. Og að sama skapi veldur það samfélagslegum skaða að ala á fordómum gegn geðsjúkdómum af því að það torveldar samfélaginu að ná valdi á  þeim.

Við verðum einnig að gæta að eftirfarandi: Starf borgarstjóra er mikilvægt opinbert embætti og því skiptir máli að sá sem gegnir því mæli af heilindum opinberlega og tali ekki merkingarleysu eins og hjalið um andlegt mótlæti sannarlega er. Skoðanir manna eru heldur ekki einkamál. Ekki heldur á sjúkdómum. Skoðun er ekki sama og það að hugsa eitthvað með sjálfum sér. Skoðun er eitthvað sem við deilum með öðrum og hefur margvísleg  áhrif á aðra og umhverfið. Þegar borgarstjóri fer í feluleik um geðræn vandkvæði sín er hann því á vissan og reyndar mjög áhrifamikinn hátt að dreifa út fordómafullum skoðunum úr sínu valdamikla og opinbera embætti.  

Í ljósi hinna vandræðalegu undanbragða borgarstjórans verður að skilja afkáralega paródíu Spaugstofunnar. Ef Ólafur hefði bara verið eðlilegur og ekki rokið í þessa vandræðalegu vörn hefði sú paródía ekki farið af stað.

Þáttur Morgunblaðsins í þessu máli er kapituli ut af fyrir sig. Áratugum saman hefur blaðið talið sér trú um að það standi í fylkingarbrjósti í baráttunni gegn fordómum gegn geðsjúkdómum. En í þetta sinn gleymir blaðið sér algerlega í pólitískum átökum. Gott og vel! Blaðið telur að andstæðingar Ólafs hafi notað veikindi hans á fordómafullan hátt í ofsóknum gegn honum. Kannski er eitthvað hæft í því. Þá er ekkert athugunarvert við það  að Morgunblaðið atyrði þá sem þetta gerðu. En ef Morgunblaðið vill vera sjálfu sér samkvæmt í þessu efni getur það ekki látið sem fordómavekjandi skrauthvörf borgarstjórans um geðsýki sína hafi aldrei verið sögð. Ætli Morgunblaðið sér að minnast  aldrei á þann þátt málsins gerir það trúverðugleika þess að engu næst þegar það skrifar ritstjónargrein um nauðsyn þess að eyða fordómum gegn geðsjúkum á Íslandi. Hvers konar blað er það og hvers konar ritstjórar eru það sem þykjast vera að vinna gegn fordómum í garð geðsjúkdóma sem geta látið í raun fordómahlaðnar málrósir um þá sem vind um eyru þjóta? Það er einmitt slíkt tal sem er viðsjárverðast.  

Það er svo enn þá furðulegra að blaðið skuli reyna að gera hetju úr borgarstjóranum en það skrifar í leiðara 27. janúar: " Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, talar  ... af hreinskipti um persónulega hagi sína. Hann gerir það opið og heiðarlega. Til þess þarf  ... kjark og hugrekki ... ."

Hvers konar blað er það og hvers konar ritstjóri er það eiginlega sem verður sleginn annarri eins blindu?

Það er ekki eins og menn hafi verið að leyna því síðustu áratugi að þeir hafi þurft að glíma við geðræn vandkvæði og sú umræða hafi farið lágt. Það eru nú komin t.d. þrjátíu og fjögur ár frá því ég skýrði í bók  minni, Truntusól, frá dvöl minni á geðdeild. Sú frásögn fór ekki framhjá þjóðinni. Bókin "Kleppur í 100 ár" segir að Truntusól sé einhver frægasta bók á tuttugustu öld. Síðan hafa ýmsir aðrir sagt slíkar sögur sínar. Og  þeir hafa ekki talað neina tæpitungu.   

Flæmingur borgarstjórans þegar talið barst að geðrænum veikindum hans er hins vegar eins og ámáttlegt bergmál af tíðarandanum fyrir mörgum áratugum. Og hann hefur einnmitt beinlínis sært  marga sem átt hafa við þunglyndi að stríða eins og sést á skrifum þeirra á blogginu og á athugasemdum við færslur þeirra. Hér er eitt dæmi og hér er annað. Ég treysti vitnisburði þessa fólks betur en orðum ritsjóra Morgunblaðsins sem þiggur tvær miljónir í laun á mánuði fyrir að rugla í blaði sínu um alvarleg þjóðfélagvandamál.

Hlutur dómsmálaráðherrans, Björn Bjarnasonar, er þó enn þá einkennilegri en þáttur Morgunblaðsins.      

Í pistlinum Ofsi nýs meirihluta á  heimsíðu sinni sér hann ástæðu til að velta því fyrir sér varðandi það sem hann kallar einelti gegn Ólafi F. Magnússyni:

"Hvar er Öryrkjabandalagið, þegar veikindi eru höfð til marks um að einstaklingur sé ekki fær um að sinna því starfi, sem sá hinn sami hefur tekið að sér?  Hefur Öryrkjabandalagið engar athugasemdir fram að færa við fordómana og eineltið?"

Þetta er ekki atriði úr Spaugstofunni. Það er dómsmálaráðherra þjóðarinnar sem talar.

En hvað með Geðhjálp? Kannski veigrar ráðherrann sér við að nefna svo mikið sem á nafn eitthvað sem hefur orðið GEÐ í sér.

Því  miður á ég svo eftir að nefna mesta áhyggjuefnið í öllu þessu máli. Og það er þetta:

Hið pólitíska upphlaup mun hjaðna eins og önnur slík upphlaup. Eftir stendur þá hvernig það kom upp um virka fordóma gegn geðsjúkdómum, jafnvel þar sem síst skyldi, meira að segja hjá þeim sem telja sig  vera sérstaka málsvara geðsjúklinga.

Full ástæða er til að  þjóðin ræði þetta á málefnalegan hátt.

Það væri því sannarlega ómaksins virði  að einhver marktækur aðili, t.d. Geðhjálp, beitti sér fyrir almennum umræðufundi meðal borgaranna, ekki til að fjalla um atburðina í borgarstjórninni sérstaklega, heldur til að ræða almennt fordóma gegn geðsjúkdómum í upphafi 21. aldar í íslensku samfélagi.  Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn. Og nú virðist sem aldrei fyrr vera jarðvegur fyrir slíka umræðu.

Það er svo margt ef að gáð sem um er þörf  að ræða.   


Borgarstjórinn getur þá sjálfum sér um kennt

Þegar Sigmundur spurði Ólaf hvort það væri skammarlegt að fjalla um geðsjúkdóma sagðist hann ekki vilja nota orðið geðsjúkdómur um kvillann sem hrjáði hann. Hann hafi lent í ákveðnu andlegu mótlæti sem hann hefði leitað sér lækningar við. „Ég var niðurdreginn, ekki eins mikið og margir vilja halda og ég hef komið til baka."

Þetta er af vef Vísis þar sem sagt er frá tali Sigmundar Ernis Rúnarssonar við nýja borgarstjórann.

Þetta er auðskilið. Borgarstjórinn skammast sín fyrir að hafa átt við geðræn vandkvæði að stríða. Hann vill ekki kalla hlutina réttum nöfnum, eins og það sé eitthvað mál, heldur skal það heita andlegt mótlæti.

Skárra er það nú "mótlætið" sem heldur manni frá vinnu mánuðum saman. En þá veit maður það. Þunglyndi skal héðan í frá heita "andlegt mótlæti". Við skulum þá bara leggja niður orðið "þunglyndi" því það hefur alltaf verið flokkað undnir geðsjúkdóma og það er ekki hægt annað en skammast sín fyrir svoddan veiki alveg niður í tær. 

Það er hinn augljósi boðskapur læknisins og borgarstjórans Ólafs F. Magnússonar.

Þá held ég bara að hann geti sjálfum sér um kennt. Ég sé nú eftir færslu minni hér áður um það að hann hefði orðið fyrir barðinu á fordómunum. Hann er þar sjálfum sér verstur. Hann hefur skapað þá sjálfur eins og mér var reyndar bent á í athugasemd við bloggfærsluna mína.   

En það er ótrúlegt að annað eins pukur og fíflagangur skuli fara fram á tuttugustu og fyrstu öld þegar geðræn vandræði eru annars vegar.

Af hverju skrifar Morgunblaðið, sem allfaf þykist vera að berjast gegn fordómum gegn geðsjúkdómum,  ekki um þetta? Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn.


Engir öðrum betri með fordómana

Nú reyna sumir að klína fordómum gegn geðræðnum vandkvæðum upp á vissa stjórnmálaflokka.

Ég er nú eldri en tvævetur í þessu bransa og gef nú ekki mikið fyrir slíkan vesaldóm. Því miður eru engir stjórnmálaflokkarnir öðrum betri í þessum efnum. Hins vegar hika þeir allir ekki við að notfæra sér fordómana til eigin nota í stjórnmálabaráttu sinni ef því er að skipta.

Það sýnir best staðfestu fordómanna og spillingu stjórnmálaflokana.

 


Aðbúnaður heilabilaðra

Er það virkilega nauðsynlegt að fólk með lengstgengna heilabilun sem ekki þekkir aðra og er jafnvel óafvitandi um þá sé í einsmannsherbergi? Og er nokkur ástæða til að kvarta um slæman aðbúnað þjóðfélagsins ef þetta fólk er með öðrum í herbergi?

Samt eru aðstandendur að gera Þetta og þeir eru bakkaðir upp af fjölmiðlum og stjórnmálamönnum sem vilja koma höggi á þá sem með völdin fara. Mér finnst þetta fyrst og fremst vera á afneitun á sjúkdómnum. Menn horfast ekki í augu við veruleikann og láta eins og ástand sjúklinganna sé annað og betra en það er. 

Það er mjög algengt. Og eitt af því sem mestum vandræðum veldur.

 


Nafnlausa bréfið og yfirlæknir lýtalækningadeildarinnar

Nafnlaust bréf sem sent var forstjórum Landsspítalans, heilbrigðisráðherra, landlækni, siðanefnd lækna og Læknafélagi Íslands hefur farið mjög fyrir brjóstið á bloggurum undanfarna daga. Þeir eru æfir yfir því að bréfið sé nafnlaust en hafa ekki gefið innihaldi bréfsins neinar gætur. Það er þó hið alvarlegasta í málinu.

Í bréfinu er minnt á það að yfirlæknir lýtalækningadeildar  hafi ekki lengur óflekkað mannorð í þeim skilningi sem krafist sé af yfirlæknum því hann hafi hlotið alvarlegan dóm í fyrra fyrir að hafa ásamt öðrum lækni valdið ungri og heilbrigðri konu sem kom til hans í brjóststækkun 60 % örorku og alvarlegum heilaskaða vegna þess að hjarta hennar stöðvaðist í miðri aðgerð með tilheyrandi súrefnisskorti.

Þetta eru staðreyndir málsins: 1. Samkvæmt starfsreglum Landsspítalans eiga yfirlæknar ekki  að hafa hlotið dóm. 2. Yfirlæknirinn hefur hlotið alvarlegan dóm. Þessi atriði hafa sína sjálfstæðu tilvist óháða öllum bréfum.

Í bréfinu er vakin athygli á því að það sé á ábyrgð stjórnar spítalans og læknisins sjálfs að hann láti af störfum.

Læknirinn er samt enn að störfum.  Forstjóri Landsspítalans, Magnús Pétursson, segir að mistökin komi spítalanum ekki við af því að þau voru gerð utan hans á læknastofu Domus Medica. Hér virðast menn hengja sig í formsatriðum eingöngu og horfa framhjá kjarna málsins. Það er óumdeilanlega sami maður sem var dæmdur og situr sem yfirlæknir á vegum spítalans.

Héraðsdómur Reykjavikur dæmdi lækninn sem sagt fyrir svo alvarleg "mistök" að hann var dæmdur   til að greiða 23 miljónir í skaðabætur.

Læknirinn unir dómnum en samkvæmt orðum lögfræðings Sjóvár-Almennra, Þóru Hallgrímsdóttur , í Morgunblaðinu 24. október viðurkennir hann ekki sök eða skaðabótaábyrgð en greiðir bæturnar af því að málið sé svo stórt og erfitt viðureignar og erfitt yrði að fara með það til Hæstaréttar. Þetta þýðir í reynd að verjendur telja fátt vera til varnar í málinu. Samt er sök neitað. Fram í rauðan dauðann.

Gáum nú vel að því að þegar dómi undirréttar er ekki áfrýjað stendur hann sem fullgildur lokadómur en ekki bara eitthvert annars flokks álit. Dómurinn dæmdi lækninn sannan að sök og til að greiða skaðabætur. Einkaskoðun læknisins um sakleysi sitt breytir ekki lögfullri sekt hans.

Þessi maður er samt enn yfirlæknir  á Landsspítalanum. Enginn sem valdið hefur þar á bæ gerir neitt í málinu annað en beita hártogunum um læknastofu úti í bæ.

Gáum nú að gerðum læknisins frá öðru sjónarmiði. Með því að neita sök en greiða konunni samt bæturnar gerir hann hana að gustukamenneskju. Bæturnar eru þá ekki réttur hennar heldur ölmusa. Með þessu lítilsvirðir læknirinn konuna og er þó raun hennar ærin fyrir.

Gáum loks að því að svo virðist sem tryggingarfélagið Sjóvá-Almennar greiði bæturnar en læknirinn standi fjárhagslega jafn sléttur eftir sem áður. Og hann situr enn í starfi þvert á starfsreglur spítalans.

Konan er hins vegar úr leik í lífinu og fær ekki annað tækifæri.

Morgunblaðið segir að félag lýtalækna beri fyllsta traust til yfirlæknisins. Enginn bjóst svo sem við öðru. En í rauninni er félagið þar með enn að þyngja raun konunnar með þeirri afstöðu.

Þannig standa þá málin.

Nú beinast öll spjót að stjórn Landsspítalans, heilbrigðisráðherra, Landlækni, Læknafélaginu og Siðanefnd lækna.


Það er eitthvað að þessum mönnum

Það er ekkert nema hneyksli að heilbrigðisráðherra skuli ætla að greiða atkvæði með því að heimila sölu áfengis í matvöruverslunum. Hann neitar, eins og margir aðrir, að horfast í augu við þann einfalda sannleika að því auðveldara sem aðgengi  er að áfengi því meira er drukkið af því og því meiri líkur, sterkar meira að segja, eru á því að heilbrigðisvandi tengdur áfengisdrykkju aukist í landinu og er hann þó ærin fyrir.

Það veður núna uppi mikil og vaxandi áfengisdýrkun. Allir þykjast vilja berjast gegn vímuefnum en vímuefnið áfengi er meðhöndlað sem nauðsynjavara með sunnudagssteikinni. Svo er málið sett upp þannig að misnotendur áfengis séu bara fáeinir rónar "sem koma óorði" á göfugt vínið þó langflestir alkar séu ekki rónar og stundi vinnu og allt hvað þetta hefur en eitra samt allt í kringum sig.

Meðal annarra orða: Því ekki að gera hass og kókaín löglegt og selja það í matvöruverslunum?

Þessi vímuefni valda minni skaða í samfélaginu en áfengi og skiptir þá engu máli hvort um létt vín eða sterka drykki er að ræða.

Það er ekkkert nema alkarök að það sé nauðsynlegt að menn fái að njóta þeirra þæginda að geta keypt léttvín með sunnudagssteikinni í matvöruverslun andspænis því að slíkt mun nánast  örugglega auka áfengisvandann. Er þetta svona mikið mál að hafa léttvæg fínheit við matborðið (sem reyndar hefur aldrei verið siður meðal Íslendinga nema hjá þeim sem nota hvert tækifæri til að komst í áfengi) andspænis þeirri mannlegu ógæfu sem má bóka að aukast mun í landinu vegna þessa léttúðuga sællífisdekurs og alahólistadraumóra?

Það er bara eitthvað að þessum  heilbrigðisráðherra og stuðningsmönnum hans á Alþingi.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband