Sólarminnstu septembermánuðir

September 1943 er sá sem boðið hefur upp á minnst sólskin í Reykjavík frá 1911 með 40 sólskinsstundir en meðaltalið 1961-1990 er 125 klukkustundir. Og hann er sá þriðji sólarminnsti á Akureyri með 34 stundir. En sumarið í heild, júní til september, er það sólarslakasta sem mælst hefur á Akureyri frá 1928. Auk þess var veturinn og árið 1943 það sólarrýrasta sem þar hefur mælst. Í síðustu viku mánaðarins kom mikið hríðarveður fyrir norðan. Jörð varð reyndar hvít líka sums staðar á Snæfellsnesi og á Vestfjörðum. Snjólag var 7% á landinu og hefur aðeins verið meira árin 1954 og 2005.  Hitinn var í meðallaginu 1961-1990 en úrkoman langt yfir meðallaginu 1931-2000 en eins og áður í þessum sólskinspistlum er miðað við þessi meðaltöl svo einhver viðmiðun sé notuð um það hvernig mánuðurnir sem sagt er frá komu út í hita og úrkomu. Á Mælifelli í Skagafirði mældist úrkoman 172 mm og hefur aldrei mælst önnur eins  septemberúrkoma á veðurstöðvum þar í grennd.  Þetta voru þó smámunir miðað við úrkomuna á Horni í Hornvík á Ströndum sem var 442 mm. Á Blönduósi var einnig met úrkoma, 123 mm. Íslandsklukkan eftir Halldór Laxness kom út þann 4. en heimsstyrjöldin stóð sem hæst.   

Sólarlakasti september á Akureyri er hins vegar árið 1988, 24 klukkustundir, en meðaltalið er 85 stundir árin 1961-1990. Á Melrakkasléttu mældust sólskinsstundir aðeins 19 og er það minnsta sólskin sem mælst hefur í september á íslenskri veðurstöð. Á Hallormsstað voru sólskinsstundirnar 33 og voru þar aðeins  færri í september 1981. Á Dalatanga hefur aðeins einu sinni mælst meiri úrkoma í september (frá 1938). Þar fór hitinn í 25,8 stig þann 14. sem er næst mesti septemberhiti sem mælst hefur á  landinu. Sama dag fór hitinn í 24,5 stig á Neskaupstað. Snjólag  var 5% á landinu. 

Fyrir 1920 komu fjórir septembermánuðir sem ná inn á lista yfir þá tíu sem hafa minnst sólskin í Reykjavík. Á þessum árum, áður en Veðurstofan var stofnuð, voru sólskinsmælingarnar reyndar á Vífilsstöðum.  

September 1912 er sá annar sólarminnsti með 39 sólskinsstundir. Þetta var úrkomusamur mánuður, meira en 50% yfir meðallaginu á landinu en vel  hlýr, heilt stig yfir meðallaginu. Á austurlandi féllu skriður í fyrstu vikunni vegna mikilla rigninga. Næsti september, 1913, er sá áttundi sólarminnsti með 71 sólarstund.  Það var fremur  hlýtt, hitinn meira en hálft stig yfir meðallagi og úrkoman nokkuð undir því. Árið 1916 var landshitinn sá sami og 1913 og úrkoman mjög svipuð. Sólin í Reykjavík skein 69 stundir sem gerir hann sjöunda sólarminnsta september. Um miðjan mánuð kom mikið norðanáhlaup með brimi sem olli tjóni á Siglufirði. September 1919 var ólíkur þessum mánuðum. Hann var kaldur, heilt stig undir meðallagi, og úrkoman var ennþá  minni, um þrír fjórðu af meðallaginu. Óþurrkar voru þó á norðausturlandi. Sólin skein í 61 stund í höfuðstaðnum og er þetta þar fimmti sólarsnauðasti september. Þann 3. var í fyrsta skipti flogið á Íslandi en þ. 10. var austurríska keisaradæmið lagt formlega niður. 

Á fjórða áratugnum komu tveir septembermánuðir sem eru á topp tíu listanum á Akureyri fyrir sólarleysi. Árið 1934 voru sólskinsstundirnar þar  55 og er þetta áttundi sólarrýrasti september. Hitinn var meira en heilt stig yfir meðallagi á landinu og úrkoman var meira en 50% yfir því. Einstaklega úrkomusamt var á Kjörvogi á Ströndum, 268 mm, og hefur á veðurstöðvum þar í grennd aldrei mælst jafn mikil úrkoma í september eða nokkrum öðrum mánuði ársins. Litlu minni úrkoma var á útskögum allt frá austfjörðum norður og vestur um til Stranda. Þetta var austanátta september. 

Í september 1935 skein sólin 57 stundir á Akureyri og gerir það mánuðinn níunda sólarminnsta september þar. Mánuðurinn var lítið eitt kaldari á landinu en árið áður en úrkoman var miklu minni, náði ekki þremur fjórðu af meðallaginu. Sérstaklega var þurrt á suðvesturlandi og er þetta þurrasti september sem mælst hefur í Stykkishólmi (frá 1857) og í Reykjavík.  Á síðast talda staðnum  voru sólarstundirnar 130 og meðalhitinn 9,2 stig og mun þetta vera með ljúfari septembermánuðum í höfuðborginni. Úrkoman á Vestfjörðum var einnig sjaldgæflega lítil. Þann 15 voru gyðingar í Þýskalandi sviptir mannréttindum með alærmdri lagasetningu.  

Á fyrsta hernámsárinu, 1940, mældust sólskinsstundirnar 60,5 stundir á Akureyri og er hann þar með sá ellefti sólartæpasti. Hitinn á landinu  var rúmlega eitt stig undir meðallagi en úrkoman var aðeins ríflega helmingur af meðalúrkomu og tel ég mánuðinn sjöunda þurrasta september. Það var í þessum mánuði, svo seint sem þann 24., sem dularfullur atburður gerðist á Teigarhorni við Berufjörð. Í Veðráttunni stendur: "Þ. 24. Milli kl. 15 og 16 kom hitabylgja á Berufirði og fannst hún einnig af sjómönnum á miðum úti af firðinum. Hámarksmælir á Tgh. Sýndi 36° þenna dag." Þessi tala hefur þó síðar verið strikuð út  á Veðurstofunni. Klukkan 14 var hitinn 13.1 stig á stöðinni. En hvað fundu sjómennirnir?! Ætla menn að hetjur hafsins fari með rugl?! Mjög þurrt var þennan mánuð á Teigarhorni, 13,9 mm, og hefur aðeins tvisvar verið þar þurrviðrasamara í september (frá 1873). Mikið kuldakast gerði snemma í mánuðinum og setti niður snjó fyrir norðan kringum þann 10. en þann 7. var hámarkshitinn i Reykjavík aðeins 4,9 stig sem er algjört met þann dag. Meðalhitinn hefur þá ekki verið þar mikið meiri en þrjú og hálft stig sem er líka einsdæmi svo snemma i september í Reykjavík, a.m.k. síðan Veðurstofan var stofnuð 1920.       

September 1945 er sá tíundi sólarminnsti á Akureyri en þá skein þar sólin í 58 stundir en 87 í Reykjavík. Það var svo úrkomusamt að úrkoman var um 80% umfram meðallagið og er þetta sjötti úrkomusamasti september á landinu að mínu tali. Mjög úrkomusamt var á suðausturlandi og hefur ekki mælst votari september á Fagurhólsmýri, 372 mm, (frá 1922) né á Kirkjubæjarklaustri, 444 mm (frá 1931).  Tónsnillinganrir hrundu niður þennan mánuð. Anton von Webern var skotinn til bana af slysni þ.15. en Béla Bartók dór úr hvítblæði þ. 26. 

Árið 1949 var september sá fjórði sólarsnauðasti í Reykjavík með 59 sólarstundir en 71 á Akureyri. Hitinn var hálft annað stig yfir meðalagi og úrkoman í rösku meðallagi. Það er annars merkilegast við þennan mánuð að þá mældist mesti hiti á landinu sem mælst hefur í september, 26,0 stig þann 12. á Dalatanga á austfjörðum. Um morguninn var sólarhringsúrkoman í Kvíginindisdal við Patreksfjörð 105 mm. Þann 8. dó enn einn tónsnillingurinn, Richard Strauss, síðasti dínósár 19. aldarinnar í tónlist.

Á því góða ári 1953  sem skartaði 8. hlýjasta september á landinu var hann þó sá sjötti sólarrýrasti í Reykjavík með 68 sólskinsstundir. Hitinn var um tvö og hálft stig yfir meðallagi en úrkoman var mikil, 45% umfram meðallag. Hún var mjög mikil á suðausturlandi og ekki hefur mælst meiri úrkoma í september á Hólum í Hornafirði, 376 mm (frá 1931).

September 1954 er sá sjöundi sólarminnsti á Akureyri með 53 stundir en  í Reykjavík er hann sá tíundi sólríkasti. Þetta var kaldur norðanáttamánuður og tel ég hann sjöunda kaldasta september á landinu. Þetta er jafnframt snjóþyngsti september sem mælst hefur frá 1924. Snjólag á landinu var 11%, en var  til jafnaðar 2% árin 1961-1990. Mesta frost sem mælst hefur á landinu í september mældist þann 27. í Möðrudal, -19,6 stig. Allvíða annars staðar þar sem lengi hefur verið athugað komu kuldamet í september. Úrkoman var mikil á norðausturlandi en lítil á suðvesturlandi en á landinu var úrkoman aðeins rúmlega hálf meðalúrkoma og að minni ætlan rétt skríður mánuðurinn inn á lista yfir tíu þurrustu septembermánuði. Í Vestmannaeyjum hefur ekki mælst þurrari september frá 1881, 37,1 mm, og ekki heldur á Eyrarbakka, 19,2 mm 

Ekki var sólinni fyrir að fara í september 1958, þriðja  hlýjasta september, bæði á landinu og í Reykjavík. Sólskinið í höfuðborginni var 71 stund og er þetta þar níundi sólarminnsti september. Meðalhitinn í Reykjavík var 11,4 stig sem væri ágæt tala í júlí, og landshitinn var meira en þrjú stig yfir meðallagi en úrkoman náði ekki alveg meðallaginu. Á Akureyri vantaði sólskinsmælingar í fjóra daga (sem líklega voru sæmilegir eða góðir sólardagar) en það sem mælt var voru aðeins 40 klukkustundir. Fyrsta  dag mánaðarins var landhelgin færð út í 12 mílur.

Sá ískaldi september, 1979, næst kaldastí mælingasögunni frá 1866, er  fimmti september í sólarleysi  á Akureyri með 49 sólskinsstundir en þær voru 126 í Reykjavík. Hitinn var nær því þrjú stig undir meðallagi á landinu og úrkoman var mikil, hátt upp í að vera 50% meiri en meðallagið. Aðeins tveir septembermánuðir hafa verið úrkomusamari á Stórhöfða í Vestmannaeyjum en enginn á Hlaðhamri við Hrútafjörð, 123 mm (frá 1941). Mikið hret gerði um miðjan mánuð og við Mývatn voru 15 dagar taldir alhvítir. Þessi ósköp komu ofan í mjög kalt sumar.      

September 1981 er sá næst sólarminnsti á Akureyri með 32 sólskinsstundir. Þetta er hins vegar  sólarminnsti september á Hallormsstað, 28 klst  og Hólum í Hornafirði, 49,5 klst. En hann aftur á móti sá   níundi sólríkasti í höfuðborginni. Norðaustanátt var ríkjandi og úrkoman á landinu var í rétt aðeins rúmu meðallagi.  

Sjötti sólarsnauðasti september á Akureyri er 1987 en sólarstundirnar voru þá 50 í Reykjavík. Bæði hiti og úrkoma voru í rösku meðallagi á landinu. Mikil úrkoma var á Seyðisfirði þann 22. Og mældist sólarhringsúrkoman þar næsta morgun 108 mm. Montrealsamningurinn um verndun andrúmsloftsins var undirritðaur í Montreal þ. 16.

September 1992 er sá fjórði sólarslakasti á Akureyri með 39 stunda sólskin en ekki hafa mælst færri sólskinsstundir í september á Hveravöllum, 45 klukkustundir. Ekki hefur heldur mælst minna sólskin í september við Mýatn frá 1990. Hitinn var aðeins undir meðallagi á landinu en þó gerðist það að næst síðasta daginn fór hitinn í Reykjavík í 16,8 stig og hefur aðeins einu sinni mælst þar hærri hiti svo síðla sumars, 16,9 stig, síðasta dag septembermánaðar 1958. 

Sá hlýi september 1996, sá fjórði hlýjasti á landinu, var þriðji sólarminnsti í Reykjavík með 55 sólskinsstundir. Hitinn var næstum því þrjú og hálft stig yfir meðallagi landsins en úrkoman nálgaðist að vera 50% yfir meðallagi. Síðasta daginn hófst eldgos í Gjálp í Vatnajökli.

Númer tíu á listanum í Reykjavík er september 1966  með 71,9 sólarstundir og september 2009  var  með  nákvæmlega jafn fáar sólskinsstundir. Ekki hefur mælst minna sólskin en 1966 á Sámsstöðum, 46 klst. Hitinn á landinu var tæplega hálft  stig yfir meðallaginu í 1966 mánuðinum en úrkoman aðeins liðlega helmingur af meðallaginu og kemst mánuðurinn inn á topp tíu þurrustu septembermánuði á landinu. Í september 2009 var hitinn hins vegar heilt stig yfir meðallaginu en úrkoman var um 40 % yfir meðallagi.

Meðalhiti ellefu septembermánaðanna með minnst sólskin í Reykjavík er 8,8, stig eða 2,1 stigi hlýrri en meðalhiti tíu sólríkustu septembermánaða en meðalhiti tíu sólarminnstu septembermánaða á Akureyri er 6,3 stig eða 1,4 stigum lægri en meðalhiti hinna tíu hlýjustu. Varla er hægt að fara í sólskinsskap yfir þessari staðreynd hvað Reykjavík varðar.


Bloggfærslur 26. september 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband