Veturinn er búinn

Þá er vetri lokið samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu Veðurstofunnar. Hann er talinn frá desember til mars.

Ekki er hægt að segja annað en veturinn hafi kvatt fremur hlýlega í höfuðborginni. Þar komst hitinn í 10,6 stig í gær og er það enn sem komið er mesti hiti ársins þar á bæ. Meðalhitinn var 2,1 stig eða 1,6 stig yfir meðallaginu 1961-1990 en 0,3 stig yfir meðallaginu það sem af er þessarar aldar. Á Akureyri var meðalhitinn 0,9 stig sem er 2,1 stig yfir meðallaginu 1961-1990 en 0,5 yfir meðallagi  aldarinnar. Á landinu er hitinn alls staðar hátt yfir meðallaginu 1961-1990 og vel yfir meðallagi okkar aldar. 

Hið sama er að segja um veturinn í heild. Allir vetrarmánuðirnir voru hlýrri  en meðaltal þessarar aldar nema desember sem var ansi kaldur. Janúar var hins vegar sá tíundi hlýjasti sem mælst hefur en janúar í fyrra var reyndar sá 8. hlýjasti. 

Veturinn í ár var talsvert kaldari en í fyrra en mun samt vera sá fjórði hlýjasti á þessari óvenjulega hlýju öld. Hlýrra var 2003, 2006 og 2013. Þó fullkomið uppgjör fyrir þennan vetur sé ekki komið fram er hægt að átta sig á þessu. 

Þetta var því engan veginn kaldur vetur.  En þegar að úrkomunni kemur birtist nokkuð óvenjulegt. 

Viðast hvar var mikil úrkoma í mars á landinu. Í Reykjavík var hún 115 mm (meðallagið er 82 mm) en til samanburðar náði hún ekki 13 mm í febrúar. Öfgar?? Úrkoman var undir meðallaginu 1961-1990 yfir allan veturinn í Reykjavík og munar þar mest um febrúar. Á Akureyri var úrkoman 104 mm í mars sem er vel yfir tvöfaldri meðalúrkomu en í febrúar var úrkoman þar einnig tvöföld. Í janúar var úrkoman þar enn fremur vel fyir meðallagi og næstum því tvöföld úrkoma var þar í desember. Á Akureyri er veturinn í heild sá næst úrkomumesti síðan mælingar hófust 1928. Aðeins veturinn 1989 var lítillega meiri úrkoma.

Það eru þó smámunir miðað við úrkomuna á austurlandi.  Á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði, þar sem mælingar hófust 1994, er þetta lang úrkomusamasti veturinn með heildarúrkomu upp á tæpa 1030 mm! Á Dalatanga, þar sem mælt hefur verið frá 1938 er þetta þriðji úrkomusamasti veturinn, á eftir 1974 og 1990. Ekki var mikill snjór á þessum stöðum því vegna hlýindanna féll mikið af úrkomunni sem regn.

Sjór var talsverður víða á landinu i desember en snjólítið miðað við venju var víðast hvar í byggðum eftir áramót þar til seint í mars. Jafnvel í sjóasveitum eins og á Ólafsfirði var svo til snjólaust lengi vel. En frá þessu voru undantekningar. Vegna hinnar miklu úrkomu austanlands og sums staðar annars staðar var mikill snjór á fjallvegum og einstaka veðurathugunarstöð í byggð. Þeirra á meðal er Akureyri. Þar var fyrst alhvítt 31. október og í nóvember voru alhvítir dagar þar 23 og aftur í desember, alhvítt alla daga í janúar og febrúar og í mars sýnist mér alhvítir dagar hafa verið 29. Ekki veit ég í fljótu bragði hvernig þetta kemur út með tilliti til annarra vetra en örugglega er þetta með mestu snjóavetrum á Akureyri. 

Ekki var snjó fyrir að fara í höfuðborginni,  22 alhvítir dagar voru í desember, 4 í janúar, enginn í febrúar og  7 virðist mér í mars.

Furðu sólarlítið var í Reykjavík í mars, aðeins um 73 klukkustundir og meir en 20 stundum færri en í febrúar en sólarstundir í mars eru að meðalatali  111.

Þær tölur sem hér hafa verið nefndar geta breyst lítillega þegar öll kurl koma til grafar. 

Fróðlegt verður að sjá uppgjör Veðurstofunnar um þennan hlýja vetur sem óneitanlega var þó nokkuð einkennilegur í hátt og sums staðar æði vetrarlegur . Og gaman verður að sjá hvernig Emil okkar H. Valgeirsson metur þennan mars.

Fylgiskjlalið fyrir april er í gangi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 1. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband