Merkilegur júnímánuður liðinn

Sá júní sem var að liða var sannarlega óvenjulegur. Hann er líklega einn af tveimur hlýjustu júnímánuðum yfir landið í heild og á suðvesturlandi var hann með þeim allra úrkomusömustu en mjög hægviðrasamur.

Meðalhitinn á landinu í byggð var í kringum 10 og hálft stig sem er mjög svipað og 1933 sem hingað til hefur verið talinn hlýjasti júní síðan mælingar hófust. Kannski er einhver smávægilegur hitamunur á þessum mánuðum sem kemur þá í ljós síðar. Meðalhitinn er þá meira en tvö og hálft stig yfir meðallaginu 1961-1990, um tvö stig yfir hlýja meðallaginu 1931-1960 og um það bil hálft annað stig yfir meðallagi þessarar aldar. Aðeins fjórir eða fimm aðrir júnímánuðir hafa náð tíu stiga landsmeðalhita í þessari röð frá þeim hlýjustu, 1933, hugsanlega 1871, 1909, 1941, 1953 og 1941.

Í Reykjavík var meðalhitinn 11,2 og mun vera sá fjórði hlýjasti en hlýrri voru 2010, 1871 og 2003. Það er athyglisvert að 11 stiga júnímánuðir hafa þrír komið í Reykjavík síðustu tólf ár en þar á undan komu aðeins tveir á um 135 árum.

Meðalhitinn á Akureyri er 12,2 stig. En árið 1933 var hann 12,3 stig og hefur sá júní verið talinn sá hlýjasti þar. Hins vegar er það óþægilegt að einhver óvissa mun vera um þá tölu. 

Hlýjasti júnímánuður á veðurstöð hefur hingað til verið talinn 12,7 stig á Húsavík árið 1953. Sú tala er þó álitin grunsamleg. En á Torfum í Eyjafjarðardal mældist meðalhitinn í okkar júní líka 12,7 stig og má þá kannski hefja þá tölu upp í þann virðingarsess að vera talinn hlýjasti júní á íslenskri veðurstöð. 

Meðalhitinn fór yfir tólf stig á tveimur öðrum veðurstöðvum, 12,2 í Ásbyrgi og 12,0 á Möðruvöllum í Hörgárdal. Tólf stig júnímánuðir á veðurstöðvum eru auðvitað nauðasjaldgæfir, aðeins á Akureyri 1933, Húsavík 1953, sem áður segir, og svo 12,0 á Kirkjubæjarklaustri 1941.  

Okkar mánuður setti met að meðalhita júní víða um land. Líka á suður og vesturlandi þrátt fyrir úrkomuna. Þess verður þó að gæta að mannaðar stöðvar hafa víða lagst af og sjálfvirkar komið í staðinn og sumar þeirra eru ekki alveg á nákvæmlega sama blettinum og gömlu hitamælaskýlin voru. Samanburður er því ekki alltaf alveg einfaldur. En við spáum hér ekkert í þetta. Í staðinn verða nefnd nokkur spektakúlar met á veðurstöðvum er nokkuð lengi hafa athugað sem komið hafa í þessum mánuði. Innan sviga er gamla metið og hvenær athuganir hófust fyrir júnímánuð á viðkomandi stöð. 

Fyrstan ber að telja Stykkishólm þar sem júní hefur verið athugaður síðan 1846, 10,9 stig (10,8 2010). Þetta er mannaða stöðin.

Grímsey, sem hefur athugað frá 1874, 9,7 stig ( 8,6, 1953 og 1909). Ekkert smáræðis hlýindastökk á íshafseyjunni!

Hæll/Árnes 11,6 (11,5 2010; 1880).

Hvanneyri 11,8 (11,4 2010; 1924). Þetta er mesti meðalhiti sem mælst hefur í júní á veðurstöð á öllu suður-og vesturlandi vestan við Mýrdalsjökul og reyndar alveg norður og austur um til Möðruvalla.

Grímsstaðir 11,1 (10,8 1953; 1907).  Mestu hlýindin núna að tiltölu eru í héruðunum þarna í grennd.

Nautabú í Skagafirði 11,4 (10,7 2003; 1937).

Sámsstaðir í Fljótshlíð 11,5 (11,1 1933; 1928),

Hveravellir 8,8 (8,5 2010; 1963).    

Á mörgum stöðvum, þar sem ekki voru sett mánaðarmet, er mánuðurinn samt mjög nærri metinu. 

Úrkoman í Reykjavík var 116,9 mm. Það er er næst mesta úrkoma sem þar hefur mælst í júní og sú mesta frá því Veðurstofan var stofnuð 1920. Úrkoman var 129,0 mm árið 1887. Aðeins þessa tvo júnímánuði hefur hefur úrkoman mælst meiri en 100 mm. 

Úrkoman sem ég hef frétt af var tiltölulega einna mest einmitt í Reykjavík. Kemur þar vel á vonda! Vinir mínir á fasbók hafa sumir farið hamförum úrkomunnar vegna! Úrkoman var þó tiltölulega meiri á Grímsstöðum en í Reykjavík (en miklu minni í raunverulegu magni), merkilegt nokk, og í Borgarfirði og Dölunum. Hvergi nema í Reykjavík hefur úrkoman, svo ég viti, þó verið með því allra mesta sem mælst hefur á stöðvum sem lengi hafa mælt. Og það var fremur lítil úrkoma víða fyrir norðan og austan og á Vestfjörðum. Og í Vestmannaeyjum!

Ekki var sólinni fyrir að fara í höfuðstaðnum. Hún skein aðeins í 115,4 stundir sem er um 50 stundum minna en meðallagið og lítið eitt minna en í júní í fyrra. Minni sól var 1995, 1988, 1986,1969, 1925 og síðast en ekki síst 1914 þegar sólinni þóknaðist að láta sjá sig í 61 stund. Fáeinir góðir sólardagar komu þó fyrstu vikuna í júní núna.

Hvergi mældist frost í byggð í þessum mánuði.  

Hér hefur verið drepið á fáeinar veðurfarslegar staðreyndir um þennan merkilega mánuð. Þeim verður ekki haggað hvernig sem menn meta þennan mánuð huglægt að öðru leyti. Frekara uppgjör er að finna á vef Veðurstofunnar. Og þar sést að þessi illræmdi júní að sumra mati var alveg einstaklega hægvirðasamur! Þó sums staðar hafi verið rigning var þó fráleitt "rok og rigning"!

Það eru alltaf merkileg tíðindi veðurfarslega þegar einhver mánuður mælist sá hlýjasti eða næst hlýjasti á landinu í heild og allvíða sá hlýjasti sem mælst hefur á einstökum stöðvum og annars staðar nærri því.

Og það skyldi þó ekki vera að norðlendingar fái sitt besta sumar eins og gerðist í kjölfar júní 1933!

Þá mega sunnlendingar víst biðja fyrir sér!

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 1. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband