Smá veðurspjall

Það er ekki hægt annað en að taka undir sumt af því sem þarna er sagt í fréttinni sem vísað er til.

Umfjöllun fjölmiðla um veður er mjög bundin suðvesturhorninu. Að nokkru leyti er það skiljanlegt því þar býr meirihluti landsmanna og þar eru flestir fjlömiðlarnir. 

Verst er þó hið sífellda rell fréttamanna ríkissjónvarpsins við veðurfræðingana um það hvort sólin fari ekki að sýna sig og þá vitanlega í Reykjavík. Hvers vegna þurfa þeir sífellt að beina spurningum að þeim? Af hverju ekki að segja bara einfaldlega að  nú sé komið að veðurfréttum án frekari bollalegginga með fussi og sveii.

Það er líka vont að matið á góðu veðri hjá æði mörgum virðist eingöngu lúta að sólskini. Samasemmerki er hiklaust sett milli góðs sumarveðurs og sólskins. Það sé bara sama fyrirbrigðið þó sumir sólardagar geti verið afskaplega kaldir í rokna norðanskotum en margir auðvitað sæmilega hlýir eða þaðan af betri.     

Ekki er einu sinni reynt að setja sig inn í annað ástand veðurfarsins en sólfarsins.

Júni er þar mjög gott dæmi. Hann er á landsvísu annar af tveimur hlýjustu júnímánuðum sem mældir hafa verið. Sums staðar var hann sá hlýjasti og alls ekki bara fyrir norðan og austan heldur líka fyrir sunnan og  vestan eins og ég hef drepið á í öðrum bloggpistli. Í Reykjavík var hann sá fjórði hlýjasti. Og hann var einhver hægviðrasamasti júni sem mældur hefur verið, sá hægviðrasamasti á sjálfvirku veðurstöðvunum, sem byrjuðu 1997 en á þeim mönnuðu frá 1963. Þá var nú ekki rokið og hryssingurinn! 

Oftast er þetta þó einskis metið í þeirri umfjöllun fjölmiðla sem ég hef séð og reyndar líka meðal fasbókara. Mánuðurinn hefur verið léttvægur fundinn þrátt fyrir afburða hlýindi og hægviðri af því að sólarstundir voru í færra lagi á suðvesturlandi og úrkoman þar var nokkuð mikil. Eigi að síðu komu nokkrir mjög góðir sólardagar í höfuðborginni snemma mánaðarins. Á Akureyri var þessi júní hins vegar í fínu lagi sólarlega (og væntanlega víðar fyrir norðan og austan), vel yfir hinu heðfbundna meðallagi 1961-1990 og nákvæmlega í meðallagi þessarar aldar sem er talsvert hærra.

Og þá komum við að einu merkilegu atriði. Sumrin á þessari öld þangað til í fyrra (og þá bara að nokkru leyti) hafa ekki aðeins verið óvenjulega hlý miðað við fyrri tíð heldur yfirleitt einnig afar sólrík, bæði fyrir sunnan og norðan. Sumarið 2012 er t.d. það sólríkasta á Akureyri og fjórða sólríkasta í Reykjavík. Mann langar til að telja það sólríkasta sumar á landinu sem við höfum lifað! Mörg önnur sumur aldarinanr hafa verið fyrsta flokks. Ekki síst á Reykjavíkursvæðinu. Lítil ástæða er til að vorkenna höfuðboegarbúum vegna sumranna mörg síðustu ár. Þau hefðu varla getað betri verið þangað til í fyrra. En sunnanáttin er rigningarsæl syðra þegar hún er þaulsetin ekki síður en norðaustanáttin, sem er miklu kaldari, er ekkert grín á austurlandi! 

Það er blátt áfram óraunsætt að ætla að álíka sumargæði haldi áfram endalaust og ekki komi bakslag á einhverjum sviðum og einhvers staðar. Og menn finna  auðvitað fyrir bakslaginu, ekki síst þar sem það er harkalegast. Bakslagið núna er líka ekkert smá harkalegt eftir að kom fram í júlí. En það ætti samt ekki að undra neinn að ráði.

Að mínu viti er samt ekki hægt að kalla júní annað en góðan mánuð, svona út af fyrir sig, jafnvel þar sem minnst var sólskinið og mest úrkoman. Hitinn og hægviðrið skiptir lika máli. Það er reyndar auðvitað hitinn sem gerir sumrin að sumrum. Án hans væri ekkert sumar. Og kuldaástand og raunverulegt sumarleysi hefur ríkt á landinu í heild og í einstökum landshlutum oftar en maður vill muna í andartakinu. .  

En svo kom júlí.

Mér finnst eiginlega ekki hægt að tala um júní og það sem af er júlí í sömu andrá. 

Júlí hefur ekki ekki aðeins verið fremur svalur víða nema á austurlandi en reyndar skánað mikið síðustu dagana heldur hefur hann verið alveg óvenjulega úrkomusamur, næstum því alls staðar. Og er ekki nema von að fólk finni fyrir því. Úrkoman er mjög víða orðinn meiri en í meðallagi alls júlímánaðar þó mánuðurinn sé ekki hálfnaður og eða þá og jafnframt meiri en nokkurn tíma áður fyrri helming mánaðarins. Það á líka við um Fljótsdalshérað. Þar hefur ekki rignt síðustu daga að ráði en fyrsta vikan var mjög úrkomusöm. Á Egilsstöðum hefur í heild þessa 15 daga sýnist mér fallið meiri úrkoma en í Reykjavík og dagar með mælanlegri úrkomu eru jafn margir á báðum stöðum. 

Það er því alveg ástæða til að taka túlkanir ferðaþjónustufólks á veðurlagi með nokkurri varúð ekki síður en fjölmiðla.

Þegar allt kemir til alls get ég annað en talið júní í heild góðan mánuð alls staðar en bestur fyrir norðan og á Fljótsdalshéraði og reyndar lika sums staðar á vesturlandi. Júlí hefur hins vegar verið mjög votviðrasamur nær alls staðar og fremur svalur nema á austurlandi en er allur að hlýna og koma til síðustu daga. Í uppsiglingu virðist vera gamaldags sunnanátt með rigningu syðra en miklum hlýindum fyrir norðan og austan í stað mikilla rigninga víðast hvar um landið. Gamla góða Ísland!

En vitaskuld er þetta sólarleysi að verða þreytandi á suðurlandi. 

Ekki er samt enn útséð með sumarið. Það er ekki búið. Hlýjasti tíminn að jafnaði er meira að segja eftir.


 


mbl.is Umfjöllun út frá einum landshluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 15. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband