Fyrsta sólskin á árinu i höfuðborginni

Í gær mældist sólskin í rúmlega hálfa aðra klukkustund í Reykjavík. Og það er í fyrsta sinn sem sólskin þar mælist á þessu ári!

En það eru svo sem engin sérstök tíðindi. Meðaltal sólarstunda 11 fyrstu dagana í janúar frá 1924 eru fimm klukkustundir. Áður hefur ekki mælst sól þessa daga árin 1938, 1950, 1954, 1964, 1983, 1984, 1992, 1993 og 2002.

Öll þessi ár var mjög hlýtt þessa fyrstu 11 daga ársins nema 1983, 1984, 1992 og 1993. Þá var ansi kalt og miklu kaldara en í ár.   

Mest sólskin þessa daga var 1959 þegar sólskinsstundirnar voru 24,5. En í þeim mánuði voru fyrstu 11 dagar ársins þeir köldustu að meðaltali í Reykjavík frá 1918. Það vill oft verða að miklu vetrarsólskini fylgi miklir kuldar.

Nú er ekki hægt að tala um kulda. Hitinn er í meðallagi í Reykjavik en meira en hálft stig yfir því á Akureyri. Snjórinn hefur kannski þau huglægu áhrif að manni finnst meira vetrarríki en hitastigið eitt segir til um. Og svo er reyndar um einu stigi kaldara í Reykjavík en meðaltalið á þessari hlýju öld fyrstu 11 dagana í janúar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 13. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband