Sumri lokið

Nú er sumri lokið en Veðurstofan hefur alla tíð talið sumarið vera frá júní til september.

Meðalhitinn í september í Reykjavík var 9,14 stig, 1,8 stig yfir meðallaginu 1961-1990,  en á Akureyri 9,55 eða 3,20 stig yfir meðallaginu. Í Reykjavík er hitinn 0,44 stig yfir meðallaginu það sem af er þessarar aldar en 1,49 stig á Akureyri. Þetta er þá eini sumarmánuðurinn sem er fyrir ofan það meðallag og jafnframt eini sumarmánuðurinn sem  er hlýrri á Akureyri en í Reykjavík. 

Meðalhiti sumarsins er þá 10,12 stig í Reykjavík eða 0,48 stig undir meðallagi þessarar aldar. Kaldara var 2013 (9,53) og 2005 (9,75). Meðalhitinn er sjónarmun hærri en hlýja langtímameðallagið 1931-1960 en 0,9 stigum hærra en á kalda meðallaginu 1961-1990.

Á Akureyri er meðalhiti sumarsins 9,18 stig sem er 0,9 stig undir meðallagi þessarar aldar en 0,1 stig YFIR meðallaginu 1961-1990 (munar mest um september) sem reyndar er enn í gildi sem viðmiðunartímabil en 0,4 stig undir hlýja meðaltalinu 1931-1960.

Úrkoman í Reykjavik var um 76% af meðalúrkomu sumranna á þessari öld og allir sumarmánuðrnir nema ágúst voru undir úrkomumeðallaginu. 

Á Akureyri má segja að sumarúrkoman hafi verið nákvæmlega í meðallagi aldararinnar. Úrkomunni var þó mjög misskipt milli mánaða, sú fjórða minnsta í júní en fjórða mesta í ágúst.

Júlí var sérstaklega hraklegur á Akureyri. Hann var sá þriðji sólarminnsti (frá 1926)  og sjöundi kaldasti (frá 1882, kaldasti frá 1993).

Ágúst var hlýjasti sumarmánuðurinn á landinu en september líklega næst hlýjastur, greinilega hlýrri en júní og virðist vera sjónarmun hlýrri en júlí. Þetta er óvenjulegt. Árin 1901, 1941, 1993 og 1996 var september líka næst hlýjasti mánuður ársins. En september 1958 gerði sér lítið fyrir og varð hlýjasti mánuður ársins á landinu!  

Sólskinsstundir í Reykjavík voru 699 eða 8 stundum færri en meðaltal þessarar aldar en fleiri en að meðaltali bæði árin 1931-1960 og 1961-1990.

Reykvíkingar mega sæmilega una við þetta sumar en það verður ekki sagt um flesta aðra landsmenn. Þó var september alls staðar góður og ágúst var líka alveg þokkalegur. 

En það var júlí sem brást illilega og fyrri hluti júnímánaðar.   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 1. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband