Mestur snjór á landinu í Reykjavík

Í morgun var jörð alhvít í fyrsta sinn á þessu hausti í Reykjavík. Og það munar aldeilis um það. Snjódýptin var mæld 21 cm sem er sú mesta á landinu ásamt Ólafsfirði. En Ólafsfjörður er snjóasveit en Reykjavik er snjóléttur staður og þar er sárasjaldan mestur snjór á öllu landinu einhvern dag.

Síðast var alhvítt í höfuðborginni í vor 11. apríl og hefur því verið snjólaust í 228 daga. Það er 24 dögum lengur en meðaltal þessarar aldar og 28 dögum lengur en meðaltalið frá og með 1949. Flestir hafa þessir dagar verið 248 árið 2000 en þá varð jörð alhvít 12. desember og hefur aldrei orðið alhvítt svo seint á hausti í Reykjavik. Fæstir hafa snjólausu dagarnir frá vori til hausts verið 144 árið 1990. Snjólausir dagar í Reykjavík milli vors og hausts hafa reyndar ekki verið fleiri en nú síðan dagafjöldametið var sett árið 2000.

Þetta er mesta snjódýpt í nóvember í Reykjavík síðan 7. nóvember 1993 þegar snjóýptin var jafnmikil, en meiri 1979 (29 cm), 1978 (38 cm) og 1930 (26 cm). Snjódýptin núna er því sú fjórða til fimmta mesta í Reykjavík frá því Veðurstofan var stofnuð árið 1920.   

Meðalhitinn á landinu er enn meira en eitt stig yfir meðallagi. En nú fer að halla undan fæti með kuldakasti til mánaðarloka.   

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 27. nóvember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband