Loksins tíu stiga hiti á landinu

Í dag mældist hitinn mestur á landinu 10,9 stig á Árnesi, 10,5 á Þingvöllum, 10,1 á Húsafelli og Kálfhóli og 10,0 stig í Stafholtsey. Síðasttalda mælingin er á kvikasilfursmæli á mannaðri stöð en allar hinar eru frá sjálfvirkum veðurstöðvum. Þetta er í fyrsta sinn í mánuðinum sem hiti fer einhvers staðar í tíu stig eða meira.

Og var kominn tími til. 

Þrátt fyrir sólina var ekki hægt að hrópa húrra fyrir hitanum í Reykjavík sem þar varð mestur í dag aðeins 5,8  stig. Meðalhitinn í borginni eftir gærdaginn er einungis 1,8 stig og frá stofnun Veðurstofunnar 1920 hefur ekki verið kaldara fyrstu ellefu dagana í maí nema 1982 (1,6°), 1979 (-0,7°!) og 1943 (um 0,4 stig). Eftir fyrstu 11 dagana í maí 1924 var hitinn líklega svipaður og núna en dagameðaltöl liggja ekki á lausu. 

Sólin hefur skinið í 144,2 stundir í höfuðborginni og aldrei meira fyrstu ellefu maídagana frá því mælingar hófust. Í 19 maímánuðum hefur mælst minna sólskin allan mánuðinn í Reykjavík en það sem af er þessum, síðast í maí 2008!

Á Akureyri er meðalhitinn enn undir frostmarki,-0,3 stig, og sömu sögu er að segja af flestum stöðvum á norður og austurlandi. Þar er hitinn einfaldlega enn undir frostmarki. 

Reyndar er meðalhitinn í uppsveitum suðurlands og vesturlands, þrátt fyrir sólskinið litlu skárri, aðeins um frostmark. 

Þar er þó enginn snjór en það er samt ekki hægt að segja að nokkuð vor sé þar í lofti, hingað til, eins og fjölmiðlar tala þó um dag eftir dag, samkvæmt því furðulega veðurskyni að sólskin sé eini mælikvarðinn á veður. Það sé bara sumar og sól ef sólin skín glatt um hádaginn þrátt fyrir mikilð næturfrost og sólahringsmeðaltöl sem rétt merja að vera yfir frotmarki. 

Það sem af er maí er sem sagt með kaldasta móti alls staðar. Það er ekki hægt að segja að vor sé syðra en vetur fyrir norðan og austan.

Það hefur bara alls staðar verið vetur, marslegt  hitafar, en í norðanátt snjóar ekki á suðurlandi.

En nú fer þetta víst að lagast.        

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 12. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband