Tuttugu stiga hiti eða meira í apríl

Hiti hefur nokkrum sinnum komist í tuttugu stig eða meira í apríl á landinu. Það gerðist fyrst svo örruggt sé 25. apríl 1984. Þá fór hitinn í 20,4  stig í Vopnafjarðarkauptúni, 20,1 á Neskaupstað og 20,0 stig á Seyðisfirði. Glaðasólskin var á norður og austurlandi. Daginn eftir gerði Seyðisfjörður enn betur og mældist þar þá hitinn 21,0 stig. Var það mesti hiti sem mælst hefur á landinu í apríl fram til ársins 2003.Meðalhiti þess dags á Akureyri var 14.7 stig sem þætti mjög gott um hásumarið og er það mesti meðalhiti nokkurs apríldags þar. Hlý hæð var austan og suðaustan við landið og hlýtt í háloftunum eins og sjá má á kortinu fyrir kl 24 þennan dag sem sýnir hitann ú 850 hPa fletinum í um 1400 metra hæð.Það stækkar við laufléttan smell!

rrea00219840426_1280622.gif 

Árið 2003 mældist tuttugu stiga hiti eða meira dagana 18. og 19 apríl. Fyrri daginn, sem var föstudagurinn langi, sólríkur vel, var aprílmetið slegið á landinu þegar hitinn fór í 21,1 stig á Sauðanesi. Sama dag fór hitinn í 20,8 stig á Miðfjarðarnesi, 20,6 á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði, 20,4 á Raufarhöfn og 20,0 stig á Mánárbakka. Hvað sólarhringsmeðaltal snertir er þetta reyndar hlýjasti apríldagur á landinu, 11,1 stig, frá 1949 að telja en frá því ári liggja dagsmeðaltöl á lausu. Þetta er um það bil 9 stig yfir langtímameðallagi dagsins. Og dagurinn er líka með hæsta meðaltal lágmarkshita á apríldegi, 7,5 stig og er hinn mikli  meðalhiti ekki síst því að þakka. Meðalhitinn á Akureyri var aðeins 0,1 stig undir metdaginum 1984. Næsta dag sló Hallormsstaður dags gamalt aprílmetið fyrir hámarkshita með hita upp á 21,4 stig en á Neskaupstað fór hitinn í 20,9 stig en, 20,8 í Vestdal í Seyðisfirði,  20,7 á Húsavik, 20,2  stig á Svínafelli á Úthéraði og 20,0 stig í Ásbyrgi og á Dalvík. Þessi dagur var svalari en sá er á undan kom með meðalhita upp á 7,5 stig.Þessa daga var hæð yfir Norðurlöndum og  hlýr hóll yfir Norðusjó og hlý tunga langt norður í höf og var Ísland í vesturjaðri hennar. Á korinu má sjá veður á landinu á hádegi föstudaginn langa 2003. Bjart var á norður og austurlandi og hiti 18 stig á Raufarhöfn! 

2003-04-18_12_1280624.gif
  

Í apríl 2007 komu tvær tuttugustigasyrpur með um þriggja vikna millibili og verður það að teljast einsdæmi. Sú fyrri var strax 3. apríl en þá mældust 21,2 stig á Neskaupstað og 20,9 á Kollaleiru í Reyðarfirði. Vestanátt var með hlýrri hæð fyrir sunnan land.

Tvo síðustu dagana, sem voru bjartir á norður og austurlandi, kom svo mesta hitabylgja í apríl á landinu sem mælingar ná yfir. Fór þá hitinn til dæmis í 23,0 stig í Ásbyrgi, sem er aprílmet á landinu, 22,0 á Möðruvöllum í Hörgárdal, 21,9  á Staðarhóli, sem er mesti aprílhiti á mannaðri veðurstöð, 21,7 stig á Végeirsstöðum og 21,5 stig á Akureyri og í Lerkihlíð í Vaglaskógi. Alls mældist tuttugu stiga hiti eða meira á 17 veðurstöðvum, þar af fjórum mönnuðum eða tæp 9% stöðva. Þar með er þetta hitavænasti apríldagur sem mælst hefur fyrir hámarkshita og skartar íslandsmetinu, 23,0 stig í Ásbyrgi eins og áður segir. Daginn eftir mældist tuttugu stiga hiti eða meira á fjórum stöðvum og þar af þremur mönnuðum. Hlýjast varð þá 21,6 stig á Végeirsstöðum. Fjöldi aprílhitameta voru slegin þessa daga  þó hitinn hafi ekki náð 20 stigum á flestum stöðvum. Enn var hæð fyrir suðaustan land og hlý tunga lá beint yfir landið úr suðaustri Hvað meðalhita snertir skákuðu þessir dagar ekki 18. april 2003. Meðalhiti þeirra á landinu voru 10,4 og 10,8 stig. Hins vegar er sá 29. með hæsta meðaltal hámarkshita nokkurs dags í apríl, 15,0 stig en dagurinn á undan með 14,7 stig og dagurinn á eftir 14,6 stig. Þessir þrír dagar 28.-30. apríl flagga því mesta hámarkshita apríldaga frá a.m.k. 1949. Sá fjórði er svo 18. apríl 2003, dagurinn með mesta meðalhitann, með 14,0 stig að meðaltali hámarkshita. Á kortinu sést ástandið í 850 hPa fletinum á miðnætti 30. apríl 2007. Það stækkar ef smellt á það og verður larger than life!

rrea00220070430.gif

Þann 9. Apríl árið 2011 mældist hitinn á Skjaldingsstöðum 20,2 stig. Síðan hefur ekki mælst 20 stiga hiti á landnu í apríl.

Tuttugu stiga hiti eða meira í apríl hefur aðeins mælst á stöðvum á norðausturlandi til austfjarða, nánar til tekið frá Dalvik austur um að Reyðarfirði, að einni veðurstöð undanskilinni. Á Brúsastöðum í Vatnsdal mældust 20,3 stig hitadaginn mikla 29. April 2007. Veðurstöðvar eru nú miklu fleiri á okkar öld en á nokkru sinni fyrr og eflaust hefði einhvers staðar mælst tuttugustiga aprílhiti á hlýindaskeiðinu á fyrri hluta 20. aldar ef veðurstöðvar hefðu þá verið jafn margar og nú og jafnvel á öðrum tímabilum. Reyndar er til á skrá mæling á Seyðisfirði upp á 21,4 stig 16. apríl 1908. En einhvern veginn finnst manni það ekki sérlega sannfærandi þó fremur hlýtt hafi verið. Þetta var lesið á mælið  á athugunartíma en hámarksmælir var ekki á staðnum.   

Í þessu sambandi má muna að einu sinni hefur í mars  mælst 20,5 stiga hiti. Það var á Kvískerjum hinn 29. árið 2012.    

Mesti aprílhiti sem mælst hefur á Vestfjörðum er 17,7 stig á Hólum í Dýrafirði þ. 29. árið 2007. Á vesturlandi hefur mest mælst daginn eftir, 19, 2  stig í Ásgarði í Dölum. Á suðvesturlandi, frá Mýrdal til Reykjavíkur  hefur mælst mest 16,7 stig þ. 29. árið 2007 á Sámsstöðum í Fljótshlíð. Árið 1975 mældust  svo snemma sem 3. apríl 16,0 stig á Vatnsskarðshólum og 15,8 stig í Vík í  Mýrdal og var það sannarlega óvenjulegt veðuratvik. Suðausturland er eini landshlutinn sem ekki á aprílmetið frá hitabylgjunni 2007. Þar hefur mesti aprílhiti orðið 18,4 stig þ. 27. á Fagurhólsmýri goðsagna veðurárið 1939. Mesti aprílhiti í Reykjavík er aðeins 15,2 stig frá þeim 29. árið 1942.              

Á sumardeginum fyrsta hefur aldrei mælst tuttugustiga hiti á landinu. Litlu munaði þó á þeim degi 1976 þegar hitinn á Akureyri fór í 19,8 stig hinn 22.


Bloggfærslur 21. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband