Saga hlýindanna

Spáð er nú hlýrra og sólríkara veðri fyrir norðan en fyrir sunnan um helgina. Það er kannski kominn tími til í þessum júlí. Hlýindunum á suður og vesturlandi er hér með lokið í bili. Þau voru bara þó nokkur á svæðinu frá V-Skaftafellsýslu til Borgarfjarðar og jafnvel til Breiðafjarðar. Hér er rakinn saga 20 stiga hita eða meira á mönnuðum veðurstöðvum frá 16. júlí þegar hlýindin hófust . 

16. júlí.   Eyrarbakki 20,5, Hæll í Hreppum og Keflavíkurflugvöllur 20,0.

17. júlí. Keflavíkurflugvöllur 23,0, Reykjavík 21,4, Kirkjubæjarklaustur og Hjarðarland í Biskupstungum 21,2, Eyrarbakki 21,0, Hæll 20,5.

18. júlí. Hæll 23,3, Hjarðarland 23,0, Eyrarbakki og Kirkjubæjarklaustur 22,0, Stafholtsey í Borgarfirði 21,6, Bláfeldur á sunnanverðu Snæfellsnesi 20,4.

19. júlí. Hjarðarland 23,2, Hæll 21,3, Stafholtsey 23,1, Bláfeldur 21,1, Ásgarður í Dölum 21,7, Lambavatn á Rauðsandi 20,1.

Þegar hér var komið voru mestu hlýindin dottin niður.  

20. júlí. Kirkjubæjarklaustur 21,8. Aðeins Kirkjubæjarklaustur hélt þennan dag uppi hitaheiðri landsins á mönnuðum stöðvum! Næsta dag hafði hitalandslagið breytt nokkuð um svip.

21. júlí. 21,0 Reykir í Hrútafirði (sko hana, einhverja hrútleiðinlegustu veðurstöð landsins!) og Staðarhóll í Aðaldal, Ásgarður 20,5, Hæll 20,4, Hjarðarland 20,2.  Litlu munaði að 20 stig næðust í Litlu-Ávík á Ströndum en þar mældust 19,7 stig.

Eins og sjá má hafa hlýindin verið mest og lengst á suðvesturlandi.   

Á sjálfvirkum veðurstöðvum hefur 20 stiga hiti eða meiri mælst á þessum stöðvum  (sleppt þeim þar sem líka eru mannaðar stöðvar): Reykjavíkurflugvöllur, Einarsnes í Skerjafirði, Geldinganes, Hólmsheiði, Korpa, Kjalarnes, Miðdalsheiði, Sandskeið, Skrauthólar á Kjalarnesi, Þyrill, Akrafjall, Fíflholt á Mýrum, Hafnarfjall, Hafnarmelar, Hafursfell á Snæfellsnesi, Húsafell, Hvanneyri, Litla-Skarð, Hraunsmúli í Staðarsveit, Vatnaleið á Snæfellsnesi, Brattabrekka, Svínadalur í Dölum, Gillastaðamelar, Reykhólar, Grundarfjörður, Skíðaskálinn í Seljalandsdal, Súðavík, Haugur í Miðfirði, Brúsastaðir í Vatnsdal, Sauðárkrókur, Nautabú, Möðruvellir í Hörgárdal, Reykir í Fnjóskadal, Stjórnarsandur, Lómagnúpur, Skaftafell, Hvammur undir Eyjafjöllum, Básar á Goðalandi, Þykkvibær, Sámsstaðir, Hella, Skálholt, Árnes, Búrfell, Mörk á Landi, Gullfoss, Þingvellir, Þjórsárbrú, Kálfhóll, Ingólfsfjall, Grindavík, Þrengsli.  

Eins og sjá má hafa hitarnir varla náð til norðurlands og alls ekki til austurlands.

Mesti hiti hvers dags á landinu (á mannaðri eða sjálfvirkri veðurstöð):

16. Eyrarbakki 20,5.

17. Þingvellir 24,1.

18. Hella 24,2.

19. Hafursfell 23,4.

20. Stjórnarsandur við Kirkjubæjarklaustur 22,9.

21. Brúsastaðir í Vatnsdal 21,7.

Glampandi sólskin var þar sem hlýindin náðu sér á strik.

Nú spyr ég: Hvað hefði verið rætt og ritað á bloggi og í blöðunum ef sól og yfir 20 stiga hiti hefði mælst á mörgum veðurstöðvum dag eftir dag í glaðasólskini á svæðinu t.d. frá Skagafirði til Fljótsdalshéraðs? Það hefði ekki linnt látum yfir blíðunni fyrir norðan og látið svona fylgja með að þar væri alltaf besta veðrið. Reyndar var nokkuð gert með þessi sunnlensku hlýindi en ég held að það hefði verið miklu meira ef þau hefðu bara verið fyrir norðan. Og mér sýnist á tali manna oft á bloggi og fasbók, sem auðvitað ristir ekki djúpt og ætlar sér það ekki, að fjöldi fólks standi raunverulega í þeirri meiningu að meiri veðurblíða sé svona yfirleitt fyrir norðan á sumrin en fyrir sunnan. Það er nú bara einfaldlega rangt.

Enga trú hef ég svo á því að hlýindin næstu daga verði eins stöðug og langvinn  fyrir norðan og austan og hlýindin voru þó á suður og vesturlandi.

Samt er bara að vona að hitar og sólskin verði sem mest og víðast á landinu það sem eftir lifir sumars.      

 

 


mbl.is Blíða fyrir norðan og austan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Gaman að skoða þessar tölur. Takk!

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.7.2010 kl. 05:30

2 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Spádómur ykkar Mala er að rætast. Mér finnst, legg áhestu á finnst, þetta sumar hafa verið með betri sumrum hér í borgini fram að þessu.

Tölfræði er ekki mín sterka hlið, en verðráttan hefur verið mér og mínum  ljúf og góð.

Hólmfríður Pétursdóttir, 23.7.2010 kl. 12:12

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Spádómar hins vitra Mala klikka aldrei!

Sigurður Þór Guðjónsson, 23.7.2010 kl. 12:13

4 Smámynd: Kama Sutra

Mjá!

Kama Sutra, 23.7.2010 kl. 23:19

5 identicon

Ég veit ekki hverjir fésbókarvinir þínir eru. En hinir hefðbundnu fjölmiðlar hér á landi hafa afskaplega þröngan fókus og ganga af göflunum á góðviðrisdögum í Reykjavík og fara með það eins og að heimsfréttir sé að ræða. Það er kannski ágætt að það sé eitthvað mótvægi við það í umræðunni. En þetta er sjálfsagt alveg rétt hjá þér um að í alvörunni ekki sé mikill munur á veðurblíðu norðan og sunnanlands.

Það sem allir Íslendingar eiga að vera sáttir með, óháð því hvar þeir búa, er að landið okkar er þannig gert að á flestum sumardögum er bærilega sumarblíðu að finna í allavega einum landshluta.

Bjarki (IP-tala skráð) 30.7.2010 kl. 18:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband