Annars konar hitamet jafnað í Reykjavík

Eins og kunnugt er var júlí síðastliðinn sá hlýjasti að meðalhita í Reykjavík ásamt júlí 1991, 13,03 stig.

Í nótt mældist minnsti hiti í borginni 11,4 stig. Þar með hefur hitinn í Reykjavík ekki farið niður fyrir  tíu  stig í 17 sólarhringa. Það er jöfnun á meti sem einnig er frá 1991, en þá fór hitinn ekki niður fyrir  tíu stig frá 22. júlí til 7. ágúst eða í 17 sólarhringa.

Frá því Veðurstofan var stofnuð 1920 hefur hitinn ekki farið niður fyrir  tíu stig, fyrir utan 1991,  í  tólf daga 29. ágúst til 9. september 1939 og tólf daga 24. júlí til 4. ágúst 2007 og tíu daga í júlí 1926, júlí 1936, júlí 1939, september 1958  og í ágúst 2004.  Fyrir daga Veðurstofunnar, árið 1894 fór hitinn ekki undir  tíu stig í fimmtán daga, 25. júlí til 8. ágúst. 

Nú er bara að sjá hvort metið verður alveg slegið í nótt, sólarhringarnir verði þá 18 sem hitinn í Reykjavík hefur ekki farið niður fyrir tíu stig. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það er nóg að gera í veðurmetunum þessa dagana.

Sveinn Atli Gunnarsson, 8.8.2010 kl. 13:01

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Já, og menn gætu eflausts rökstutt það að hlýnun jarðar hafi eitthvað með það að gera. Tíðnin á afbrigðileikanum sé orðin afbrigðileg!

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.8.2010 kl. 13:25

3 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Væntanlega er hægt að rökstyðja það efnislega Sigurður. Ekki að ég ætli að fara út á þær brautir hér og nú.

Hvernig lítur annars út með þetta met næstu daga?

Sveinn Atli Gunnarsson, 8.8.2010 kl. 13:38

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er kannski merkilegast að í Stykkishólmi hefur hitinn heldur ekki farið niður fyrir 10 stig í 17 daga. Það hlýtur nú bara að vera algjört met. En ég vona að hitinn fari ekki undir 10 stig í nótt í Reykjavik.

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.8.2010 kl. 22:33

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það kólnar nokkuð hratt. Ætli verði ekki bara næturfrost!

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.8.2010 kl. 00:41

6 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Spennan eykst og væntanlega mun skýleysið geta gert gæfumuninn.

Sveinn Atli Gunnarsson, 9.8.2010 kl. 00:49

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er einmitt skýjaleysið sem kannski setur strik í reikninginn. Og svo blaktir varla hár á höfði. Framundan nokkuð langt myrkur. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.8.2010 kl. 00:56

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta er reyndar skýlaust brot á öllum veðursanngirnisreglum.

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.8.2010 kl. 00:59

9 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

10,3° kl. 05. Er metið þá ekki fallið?

Sigurbjörn Sveinsson, 9.8.2010 kl. 08:56

10 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Metið var ekki slegið. Í nótt fór hitinn í Reykjavík og líka Stykkishólmi í 9,6 stig. Í Reykjavík gerðist þetta milli kl. 4 og 5 í nótt en í Stykkishólmi var hitinn undir 10 stigum i eina þrjá klukkutíma. Það voru því bara 17 dagar sem voru samfellt yfir tíu stigum á báðum stöðum. Ég er nokkuð viss um að það er met í Stykkishólmi en hef enn ekki nennt að fletta því upp en í Reykjavík er þetta metjöfnun. Til viðbótar þessu sýndi kvikasilfurshámarkið í morgun í Reykjavík sömu 19,0 stigin og af var lesið kl. 18 í gær þó sjálfvirka stöðin hafi mælt 19,6 stig kl. 19.

Já, þetta er nú meira skítasumarið! Fyrst lítur út fyrir að júlí ætli að slá meðalhitametið en klikkar á síðasta deginum og nú er annað met jafnað en ekki slegið! Þetta er gersamlega óviðunandi árangur ef ekki bara óásættanlegur. Skömm þessa sumars verður lengi í minnum höfð. Ekkert getur bætt fyrir þetta endemis klúður nema 14 stiga júlí strax að ári. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.8.2010 kl. 11:28

11 identicon

Varstu ekki búinn að reka þjálfarann? Var búið að ráða annan í staðinn?

Trausti Jónsson (IP-tala skráð) 9.8.2010 kl. 11:45

12 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Nýi veðurþjálfarinn var bara til reynslu en nú hefur reynslan sýnt að hann er óhæfur. Og honum hefur verið sparkað. Verið er að ganga frá samningum við rússneskan þjálfara sem sett hefur upp einstaklega velheppnaðar hitabylgjur í sínu landi sem aldrei ætla að taka enda. 18 dagar eru bara smámunir fyrir honum. Væntum vér góðs af starfi þessa eldhressa þjálfara, 

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.8.2010 kl. 12:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband