Gamlar og nýjar náttúrufarsbreytingar

Horfði á veðurvitringana ræða hlýindin í Kastljósi.

Það hljóta að hafa orðið miklar umhverfisbreytingar á landinu upp úr miðjum þriðja áratugnum þegar hlýnaði afar skarpt og náðu hlýindi tuttugustu aldar hámarki á mjög skömmum tíma þó áfram yrði hlýtt nokkra áratugi lengur. Svo hljóta líka að hafa orðið miklar breytingar þegar fór að kólna á hafísárunum og sá kuldi hélst líka býsna lengi. 

Aldrei er þó talað um þessar breytingar, fremur en þær hafi engar verið, en því meira er talað um  um þær breytingar sem nú hafa orðið vegna hlýinda sem staðið hafa í 15 til 20 ár þó út yfir hafi tekið síðustu tíu árin.

Náttúrufarsbreytingar á Íslandi vegna veðurfarsbreytinga - maður gæti helst haldið að menn hafi aldrei upplifað slíkt áður. Eins og menn komi af fjöllum.  Skil bara ekki hvers vegna.

Þetta með fuglana. Afhverju hrundu sjófuglarnir ekki niður á árunum kringum 1940 ef það eiga fyrst og fremst að vera hlýindi sem valda hruni þeirra núna? 

Með þessu er ég alls ekki að gera lítið úr núverandi hlýnun eða afleiðingum hennar - hlýnunin er ótrúleg - aðeins að hugsa upphátt. 

Og nú er þessi janúar kominn upp fyrir meðallag að hita bæði í Reykjavík og Akureyri. 

Þetta má sjá á hinu óforbetranlega fylgiskjali, blaði eitt fyrir Reykjavík og blaði tvö fyrir Akureyri.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það hafa orðið breytingar á loftslagi áður, það er staðreynd. En það breytir þó ekki því að hitastig hækkar ansi hratt núna, bæði á Íslandi svo og hnattrænt og eru flestir vísindamenn sem við það starfa, sammála um orsakir núverandi hlýnunnar. En það má víst ekki nefna það upphátt án þess að vera úthrópaður fyrir...en hérna er allavega tengill fyrir þá sem hafa áhuga:

Mælingar staðfesta kenninguna

Sveinn Atli Gunnarsson, 24.1.2011 kl. 22:10

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.1.2011 kl. 22:17

3 identicon

Hvert er samspil úrkomu og hlýnunar? Jöklar minnka ef til vill einkum vegna minnkandi úrkomu. Mér var kennt í barnaskóla á sjöunda áratugnum að jöklar væru að stækka.

marat (IP-tala skráð) 25.1.2011 kl. 11:39

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Mig langar að vísa á fróðlegan pistil eftir Tómas Jóhannesson, sem er jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands um Jöklabreytingar og hækkun sjávarborðs heimshafanna. Það kemur ýmislegt fróðlegt fram í þessum pistil.

Hitastig hefur áhrif á jökla og einnig úrkomubreytingar, en úrkomubreytingar geta nú ekki, að mínu mati, útskýrt hop jökla um allan heim á undanförnum áratugum, en skýringa má vafalítið leita í hærra hitastigi á heimsvísu, sem kemur heim og saman við mælingar.

Sveinn Atli Gunnarsson, 25.1.2011 kl. 12:28

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Í Kastljósi veðurvitringanna var minnst á okkar merkilega hitaferil frá Stykkishólmi. 

Veist þú Sigurður Þór hvor vel hafi verið gætt að aðstæðum þar í tímans rás. Þar sem verið er að eltast við lítið brot úr gráðu er mikilvægt að mælingar séu hafnar yfir alla hugsanlega gagnrýni. Til dæmis:

1) Hefur veðurstöðin alltaf verið á sama stað?

2) Hafi hún verið flutt, hefur þess þá verið gætt að reka hana um tíma samtímis á gamla og nýja staðnum til að tryggja að hitaferlarnir séu sambærilegir?

3) Hefur þess verið gætt að stöðin sé ekki innan þéttbýlis, þ.e að hún sé vel utan við Stykkishólm? Hefur þess verið sérstaklega gætt að ekki hafi í tímans rás risið mannvirki eða gróður nærri mælistað?

4) Hvað er vitað um mælinákvæmni þeirra tækja sem voru notuð á fyrstu áratugunum? Eru þau tæki til ennþá?

5) Hefur nokkuð verið átt við eldri mæligögn, þau "lagfærð og leiðrétt" eins og virðist tíðkast hjá sumum stofnunum erlendis?

6) Er eitthvað annað sem þér kemur í hug að geti hafa mengað þennan merkilega hitaferil?

Ágúst H Bjarnason, 26.1.2011 kl. 05:44

6 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Æji Ágúst, stoppar þetta aldrei. Alltaf að "efast" eitthvað... Það er ekki eins og þetta sé eina stöðin í landinu (heiminum) sem sýnir þessa þróun. Annars kom það líka fram hjá "veðurvitringunum" að plöntulíf væri að breytast, sem er í samræmi við mælingar. Hitt er svo annað mál að við erum ekki að tala um "lítið brot af gráðu".

Sveinn Atli Gunnarsson, 26.1.2011 kl. 06:55

7 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Svatli minn.

Ég er að beina áhugaverðri spurningu til Sigurðar Þórs. Hann er nefnilega manna fróðastur um þessi mál.  Ekki til þín minn kæri.  Við Sigurður Þór hljótum að mega ræða hér saman í friði .

Ágúst H Bjarnason, 26.1.2011 kl. 07:02

8 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Kæri Ágúst

Ég vildi bara koma mínum heilbrigðu efasemdum um þessa "áhugaverðu spurningu" þína á framfæri. Enda þykir mér þú gera lítið úr hitastigshækkun og mikið úr hugsanlegum annmörkum hitastigsmælinga, þó svo náttúrulegar breytingar sýni fram á hið sama. S.s. ég tek mér það bessaleyfi að taka þátt í þessari umræðu :)

Sveinn Atli Gunnarsson, 26.1.2011 kl. 08:07

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mikið er gaman að sjá hvers kyns veðurvitringa etja kappi saman á minni síðu og veri þeir ávallt velkomnir! Biðst þó eiginlega afsökunar á því að geta sjaldan staðið í miklum deilum. Það er eins og það gen vanti að mestu í mig. En alltaf finnst mér áhugavert og skemmtilegt að lesa vangaveltur og skiptar skoðanir annarra þó ég eigi það til að koma með smástríni þar um. Mér finnst ég, vesæll leikmaður,  annars ekki vera rétti maðurinn að svara spurningum Ágústs í smáatriðum lið fyrir lið þrátt fyrir óviðráðanlegan (og kannski ónáttúrulegan) áhuga á málefninu sem eykst með ári hverju! En þó vil ég geta þess að til er önnur hitaröð en Stykkishólmur sem líka er hægt að miðað við varðandi hitaþróun á Íslandi og það er Reykjavík sem nær með sæmilegri nákvæmi allt til 1830 með smágati. Þessum stöðvum  ber vel saman. Og ýmsar stöðvar koma svo til sögunnar upp úr 1870 og svo áfram fleiri og fleiri. Ég veit ekki betur en þeim beri öllum vel saman um hitabreytingarnar. Hitabreytingar af þessu tagi ganga yfir allt landið. Hvað varðar ýmis tæknileg vandamál langtíma hitaraða þá er ég ekki rétti maðurinn, eins og áður segir, til að  fara langt út í það. En hitt veit ég að menn hafa ýmis gild ráð til að díla við (''lagfæra og leiðrétta'') misfellur og hnik í þessum röðum sem stafa af ýmsum orsökum án þess að menn þurfi að hafa í gangi tvær veðurstöðvar á hverjum stað og menn eru mjög meðvitaðir um breytingar á mæliaðstæðum hvers konar. Og ég treysti því alveg, að því litla viti sem ég get lagt dóm á það, að staðið hafi verið sómasamlega að þeim málum, a.m.k. í meginatriðum, hvað íslenskar hitaraðir varðar þó slík vinna haldi alltaf áfram. Sem sagt: Það megi treysta íslenskum hitaröðum almennt um þau meginatriði sem þær sýna, kulda 19. aldar, hlýnun og kólnun 20. aldar og hlýnunina síðustu ár, bæði hvað varðar línulegan tíma og stærð sveiflanna. Og þetta held ég að gildi reyndar víða um heim. Hverjar sem orsakir hitasveiflanna eru þá eru þær sjálfar raunverulegar og stafa ekki af skekkjum í mælingum eða einhverri vanhæfni manna til að meta og  fara með gamlar og nýjar mæliraðir. Ég get ekki svarað spurningum Ágústs öðru vísi en svona. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 26.1.2011 kl. 11:46

10 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir svarið Sigurður Þór.

Ég var að velta fyrir mér hver væri mælióvissan í  svona löngum mæliröðum.  Það er góð regla þegar svona mæligögn eru birt að geta þess hver óvissan er.  Sjá til dæmis nokkra ferla á þessari síðu sem dæmi um framsetningu: http://climateaudit.org/2007/12/30/ipcc-figure-spm1/

Það sem sérstaklega vakti fyrir mér er sú staðreynd að þegar um margar veðurstöðvar er að ræða hefur mæliskekkja sem er tilviljanakennd (random error) tilhneigingu til að eyðast út þannig að skekkjumörkin verða mun þrengri en þegar aðeins er um eina mælistöð að ræða. 

Ef vitað er hver skekkjumörkin eru, þá fara menn varlegar í sakirnar þegar meðalhiti tveggja tímabila er borinn saman, því oft er munurinn það lítill að hann er ekki ekki tölfræðilega marktækur, þó það líti vel út á pappírnum.

Ég tók hitaferilinn frá Stykkishólmi aðeins sem dæmi.  Annað dæmi er Central England Temperature sem nær aftur til ársins 1659. Með hve mikilli vissu vita menn hvert hitastigið var á þessum tíma? Hver eru skekkjumörkin. Í fljótu bragði gæti maður ályktað að óvissan sé töluverð.

Á svona löngum tíma, hvort sem um er að ræða hitaferilinn frá Stykkishólmi eða mið-Englandi, getur margt orsakað skekkjur. Það þarf að vega og meta og síðan meðhöndla og birta eftir kúnstarinnar reglum. Þannig vinnubrögð eru til fyrirmyndar.

 Hér er reyndar grein sem fjallar um óvissu í CET aftur til 1659:
http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1002/joc.1967/full

Kannski fróðleg, en er ekki ókeypis.

Ágúst H Bjarnason, 26.1.2011 kl. 16:48

11 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Í sambandi við hitaritið sem birtist í Kstljósþættinum þá var það bara  framsetning fyrir almenning í sjónvarpsþætti þar sem ekki er við því að búast farið sé út í bakgrunn mælinganna. Ég geri þó ráð fyrir menn hafi hann, með óvissu og öllu, sæmilega á hreinu þó ekki sé hirt um að koma því endilega á framfæri við svona tilefni. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 26.1.2011 kl. 17:27

12 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ágúst:

Það má svo sem velta óvissunni fyrir sér fram og til baka, þó ekki sé nema til þess að reyna að sá óvissu í hjörtu lesenda, en það breytir í sjálfu sér ekki heildarniðurstöðunni, heimurinn hefur farið hlýnandi og það eru svo sem engin merki um að hlýnunin sé á undanhaldi.

Hitt er svo annað mál, eins og Sigurður bendir réttilega á, að vísindamenn eru meðvitaðir um óvissu í mælingum, enda má kannski segja að náttúruvísindi séu uppfull af þekkingu á óvissu, ef svo má að orði komast. Mig langar að vísa á bloggfærslu á bloggsíðu verðandi náttúruvísindamanns, hennar Kate, þar sem hún fjallar um bók sem fjallar um óvissu í vísindum, Uncertain Science….Uncertain World - mér finnst hún stundum orða hlutina á fróðlegan hátt, þrátt fyrir ungan aldur.

Sveinn Atli Gunnarsson, 26.1.2011 kl. 23:11

13 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Sælir piltar - endilega takið þátt í umræðu um hina hnattrænu hlýnun á loftslag.is - verið að spá í hvert hitastigið verður á þessu ári. Allt í gamni að sjálfsögðu sjá: Náttúrulegur breytileiki og horfur fyrir árið 2011

Höskuldur Búi Jónsson, 26.1.2011 kl. 23:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband