Hlýjustu febrúarmánuðir

Meðalhiti stöðvanna níu 1961-1900 var -0,2 stig. Í fylgiskjalinu má sjá tölur fyrir hverja stöð. 

1932 (4,4) Þetta er langhlýjasti febrúar sem mælst hefur á Íslandi, hálfu öðru stigi hlýrri en sá sem næstur kemur sem var eigi að síður afar hlýr. Mánuðurinn var eiginlega mikið undur. Hitinn var 5-6 stig yfir meðallaginu 1961-1990. Í Vík í Mýrdal og Suðureyri við Súgandafjörð var meðalhitinn 5,9 stig, sá mesti á veðurstöðvum í febrúar, en það er meðalhiti sem myndi sóma sér alveg skammlaust sem maíhiti víðast hvar á landinu. Veðráttan lýsir mánuðinum á þessa leið: "Einmuna veðurblíða um allt land, snjólaust að kalla í bygð, jörð víða farin að grænka í mánaðarlokin, fénaður gekk sjálfala eða honum var lítið gefið." Loftþrýstingur hafði aldrei mælst eins hár í febrúar síðan samfelldar mælingar á honum hófust á landinu upp úr 1820. Hann var hæstur að meðaltali í Vestmannaeyjum 1029,5 hPa en lægstur á Ísafirði 1023,3, hPa. Loftvægi fór mest í 1047,3 hPa kl. 21 þ. 10. á Teigarhorni og var það þá og er enn með hæri loftvogsmælingum hér á landi. Hægviðri með vægu frosti var hinn 19. Næstu nótt mældist mesta frost mánaðarins -9,5 stig á Grímsstöðum á Fjöllum en í Vestmannaeyjum varð aldrei kaldara en -1,2 stig. Eftir þetta var óslitið blíðviðri það sem eftir var mánaðarins, oftast hæg sunnan eða suðvestanátt og hlýindi eins og á vordegi. Hitinn fór í  15 stig á Fagradal í Vopnafirði þ. 22. og 23. og 13,0 stig á Hrauni í Fljótum þ. 24. Í Reykjavík var enginn sólarhringur undir frostmarki að meðaltali en frost mældist í þrjá daga. Hlýjast varð þar 9,9 stig þ. 26. Þann dag mældist sólin tæpar sex klukkustundir sem verður að teljast harla merkilegt og óvenjulegt í þvílíkum hita um hávetur í Reykjavík. Hámarkshiti var flesta daga 6-8 stig í bænum og aldrei lægri en 2,5 stig.     

1932-2-500-60-nh.gifSnjóalög líktust því sem gerist í maímánuði fremur en febrúar og er þetta snjóléttasti febrúarmánuður sem mælst hefur frá 1924 þegar snjólagsmælingar hófust. Snjólagsprósentan var 19% en meðallagið 1924-2007 er 67%. Í Reykjavík var jörð flekkótt þrjá daga en var annars alauð en þetta var hlaupársmánuður. Hins vegar var algjörlega snjólaust á Hvanneyri, Papey, Teigarhorni, Hólum í Hornafirði, Fagurhólsmýri, Stórhöfða og Eyrarbakka. Jafnvel á Grímsstöðum á Fjöllum var alauð jörð í 20 daga og þar var meðalhitinn 1,1 stig og er þetta eini febrúar sem þar hefur verið mældur ofan við frostmarkið frá því mælingar hófust árið 1907. Úrkoma var fremur lítil, sérstaklega á norðausturlandi, rúmlega helmingur af meðallagi yfir allt landið. Í Bakkafirði féll úrkoma í einn dag, 2,0 mm. Mest úrkoma var auðvitað á suður og vesturlandi, 176,9 mm í Vík í Mýrdal. Mánuðurinn var venju fremur hægviðrasamur, stormdagar fáir og logn var oft. Sól var lítil á suðurlandi og er þetta sjötti sólarminnsti febrúar í Reykjavík. Á Akureyri var þetta hins vegar fimmti sólríkasti febrúar frá 1927. Sunnan og suðvestanátt var ríkjandi  með miklum hlýindum en annað slagið kom skammvinn vestanátt þegar lægðir fóru um Grænlandshaf norður fyrir landið. Mikil háloftahæð, hlýr hóll, var viðloðandi þennan mánuð suðaustur af landinu og var loftþrýstignur hár á stóru svæði umhverfis landið. Engu var líkara en hlý kryppa sunnan að hrekti kalda loftið, sem venjulega ríkir á þessum árstíma, norður á heimsenda. Og fengum við einna hlýjasta loftið. Sést þetta ljóslega á litkortinu. Hitt kortið sýnir meðallhita á landinu.   

Fyrstu vetrarólympíuleikarnir fóru fram í Lake Placid. 

feb-1932_1062972.gif
  

1965-2-500-60.png1965 (2,9) Þessi næst hlýjasti febrúar var þó hálfu öðru stigi kaldari en 1932. Meðalloftvægi var svipað og 1932, mest 1029,3 hPa á Kirkjubæjarklaustri en minnst 1023,6 hPa á Hornbjargsvita. Hæst stóð loftvog 1046,8 hPa þ. 21. í Vopnafirði. Mikið háþrýstisvæði var í grennd við Bretlandseyjar alveg fram að þeim 20. og loftþrýstingur var einnig mikill á landinu. Þó veðrið væri milt gerði tvö stórviðri og urðu þá miklar skemmdir víða um land en þó mestar á austurlandi. Þann 8. var vestan stórviðri og snjókoma víða um land og ofsaveður og  stórhríð  var þ. 12. á norðurlandi og daginn eftir mældist mesta frost mánaðarins -19,5 stig á á Þingvöllum. Voru dagarnir 12.-13. þeir einu sem voru verulega kaldir um land allt. Mestu hlýindin voru dagana 15.-20. og fór hitinn í 14,7 stig á Seyðisfirði þ. 17. Eftir þann 20. voru væg frost á norður og austurlandi en áfram milt annars staðar. Snjólag á landinu var 29%. Alautt var í Vestmannaeyjum og nokkrum öðrum stöðum á suðurlandi. Allvíða á austfjörðum, suður og vesturlandi var aldrei alhvít jörð, þar með talið í Reykjavík. Mjög sólríkt var austan til á landinu í suðvestanáttinni. Þetta er sólríkasti febrúar á Hólum í Hornafirði frá 1958 117,1 klst og á Hallormsstað meðan mælt var 1953-1989, 63 klst. Það er þá ekki að undra að þetta er þurrasti febrúar sem mælst hefur á Fagurhólsmýri frá 1922 og þriðji þurrasti á Kvískerjum frá 1962 (þurrara var 1966 og 2010). Háloftahæð var oft beint suður af landinu.

Vegna hinna eindregnu suðvestanáttar var nokkur hafís fyrir norðurlandi og þ. 29. var ísbreiða á öllu hafinu frá Húnaflóa til Melrakkasléttu í 8-12 mílna fjarlægð frá Grímsey. Þessi mánuður má kalla síðasta hlýja mánuðinn sem tilheyrði hlýindatímabilinu sem hófst á árunum upp úr 1920, kannski nánar tiltekið í febrúar 1921, ef miðað er við vetrarmánuði. Í mars 1965 var mikill hafís og var það upphafið á hafísárunum svokölluðu sem stóðu til 1971 en áframhaldandi kuldar, en þó með minni hafís, má segja að hafi haldist fram á miðjan níunda áratuginn og kannski lengur, fer eftir því hvernig metið er.

Enginn annar en Louis Armstrong kom til landsins þ. 8. en söngvarinn Nat King Cole dó þ. 15. 

1929-2-850.gif1929 (2,6) Veturinn 1928-1929 í heild er sá næst hlýjasti  frá því mælingar hófust. Á Grímsstöðum var þessi febrúar hinn næst hlýjasti, -0,2 stig.  Mér telst svo til að þetta sé þriðji til fjórði úrkomusamasti febrúar á landinu. Sérstaklega var vott á suðausturlandi. Á Teigarhorni og Fagurhólsmýri hefur aldrei mælst meiri úrkoma í febrúar. Dagana 8.-10. var norðanátt og snjóaði fyrir norðan og komst frostið í -19,0 á Grænavatni, sunnan við Mývatn þ. 11. Annars var sunnan eða suðaustanátt ríkjandi og komst hitinn á Hraunum í Fljótum í 12,0 stig þ. 20. Síðustu dagana voru heiðríkjur á norðurlandi. Sól var þá líka talsverð í Reykjavík en frostlaust þrátt fyrir það og síðdegishiti um fimm stig.  Snjólag var 35% á landinu. Hvergi var alautt allan mánuðinn en alhvítir dagar aðeins einn til fimm sunnanlands og vestan og alls staðar færri en tíu nema á Ísafirði. Enda var talin einmuna tíð um allt land, jörð var víða klakalaus og vottaði sums staðar fyrir gróðri. Að þessu sinni var oft mikið háþrýstisvæði yfir Norðurlöndum en lægðir suðvestur af Grænlandi með sunnanátt og mikilli úrkomu. Kalt var í Evrópu. Kortið er meðaltalstaða í 850 hPa fletinum. 

Þann 11. varð Páfagarður sjálfstætt ríki. Þann 14. var dagur sem kallaður hefur verið St. Valentine´s Day Massacre.       

2006 (2,5) Það má teljast einkennilegt að  norðanáttir voru venju fremur tíðar í þessum fjórða hlýjasta febrúar en sunnanáttir voru einnig tíðar. Mánuðurinn er sá næst hlýjasti á Hæli og Fagurhólsmýri, hlýrri en bæði 1965 og 1929. Snjólag var aðeins um 23% og telst það næst minnsta í febrúar. Óvenjulega snjólétt var fyrir norðan og voru alhvítir dagar aðeins þrír á Akureyri en enginn á Raufarhöfn. Í Mýrdal og grennd og á Hala í Suðursveit var alautt allan mánuðinn. Hlýjast á mannaðri veðurstöð varð á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði 14,6 stig þ. 21 en 16,2 stig á sjálfvirku stöðinni á Seyðisfirði sama dag en mikil hlýindi voru líka næsta dag. Kaldast varð -23,7 stig í Möðrudal þ. 9. Daginn eftir gerði aftakaveður á Flateyri sem ollu miklu tjóni og skriður féllu úr Steinafjalli undir Eyjafjöllum. All hvöss suðaustanátt var þennan dag á landinu með rigningu sunnanlands og vestan. 

1964 (2,5) Þessi febrúar var hluti af hlýjasta vetri sem komið hefur á landinu. Tiltölulega hlýjast var á Vestfjörðum og á Reykjavíkursvæðinu. Fyrstu fimm dagana var norðanátt og mikill kuldi og fór frostið í -21,6 stig þ. 5. á Grímsstöðum. Yfir tuttugu stiga frost kom þá líka í Borgarfirði. Frá og með þeim 6. ríktu hlýjar sunnanáttir og þann 7. fór hitinn í 15,1 stig á Seyðisfirði. Þessi skyndilega hláka olli miklum vatnavöxtum vegna leysinga víða um land. Síðasta þriðjung mánaðarins var hægviðrasamt og fremur lítil úrkoma. Snjólag var 29% eins og 1965 og hefur aðeins tvisvar verið minna. Mestur var snjórinn fyrstu dagana en snjólítið var eftir það. Ekki fór mikið fyrir snjómokstri.  Úrkoma var sérlega lítil fyrir norðan, til dæmis aðeins 2,8 mm á Grímsstöðum. Suðvestanstrengur var yfir landinu.

Bítlarnir komu fyrst fram í sjónvarpi í Bandaríkjunum þ. 9. en Cassíus Clay varð heimsmestari í hnefaleikum þ. 24. og sama dag birtist fyrsta teikning Sigmunds í Morgunblaðinu. 

1956-2-thick-ev.png1956 (2,3) Þessi mánuður er alræmdur fyrir kulda á meginlandi Evrópu. Sums staðar er hann kaldasti mánuður sem mælst hefur, t.d. í Marseilles við Miðjarðarhafsströnd Frakklands en þar er hann eini mánuður  ársins sem hefur mælst undir frostmarki. Mikill ís var á Eystrasalti sem torveldaði siglingar. Mánuðurinn byrjaði hér með sunnan ofsaveðri fyrstu tvo dagana sem ollu margvíslegu tjóni víða; bryggjur skemmdust, brýr tók af, staurar brotnuðu, skriður féllu á vegi, þök fuku og fénaður fórst. Veðrið gekk niður þann þriðja en áfram voru hlýjar sunnanáttir og komst hitinn  13,2 stig þ. 8 á Hallormsstað. Eftir þ. 9 var einmuna veðurblíða  og vindur var yfirleitt fremur hægur. Upp úr miðjum mánuði kom þó stutt en ekki hart kuldakast og fór frostið þá í 18,9 stig þ. 17. í Möðrudal. Á Akureyri var mánuðurinn hlýrri en bæði 1964 og 1929, sem sé  þriðji hlýjasti febrúar. Snjólag var býsna mikið miðað við hlýindin, 51%.

Teiknimyndahetjan Denni dæmalausi birtist fyrst í dagblaðinu Tímanum þ. 15. en þ. 25. hélt Khrústsjov fræga ræðu þar sem hann afhjúpaði glæpi Stalíns.  

2003-2_1062349.jpg2003 (2,2) Ég tel þetta úrkomusamasta febrúar á landinu, úrkoma meira en 200% miðað við meðallagið 1931-2000. Hann er út af fyrir sig sá næst úrkomusamasti á Teigarhorni og þriðji í Vestmanaeyjum. Í rigningarbælinu í Vik í Mýrdal hefur aldrei mælst meiri úrkoma í febrúar, 322,2 mm (engar mælingar 1929). Mest mánaðarúrkoma var 553,2 mm á Kvískerjum, sú næst mesta þar í febrúar, en minnst 15,9 mm í Svartárkoti. Í Grímsey er þetta næst hlýjasti febrúar.  Kalt var fyrstu fjóra dagana, það gerði norðanbyl þ. 2. og aðfaranótt þ. 5. fór frostið í Möðrudal í 21,0 stig. Síðan voru hlýindi til mánaðarloka. Hlýjast varð á mannaðri stöð á Sauðanesvita 14,1 stig þ. 18. í sunnan ofsaveðri á  austfjörðum sem olli miklu tjóni á íbúðarhúsum á Seyðisfirði en þar komst hitinn þennan dag í 11,7 stig en vindhviða upp í 52,9 m/s. Daginn áður fór hitinn á sjálfvirku stöðinni á Siglufirði í 14,4 stig. Snjólag var 42%. Á Eyrarbakka vara alautt allan mánuðinn. Kortið sýnir úrkomu í prósentum frá meðallaginu 1961-1990 og er úr Veðráttunni.  

1926 (2,2) Talin einmuna veðurblíða um allt land, bæði til lands og sjávar en þó nokkuð óstöðugra síðari hlutann. Merkilegt nokk er þetta hlýjasti febrúar sem mælst hefur á  Teigarhorni, 0,1 stigi hlýrri en sjálfur 1932, og þar mældist mesti hiti mánaðarins, sem var reyndar aðeins 9,0 stig, þ. 27. Hiti var afar jafn alla daga, engin stórkostleg hlýindi en heldur ekki kuldar að heitið getið. Frost var bara fimm morgna í Stykkishólmi og aldrei meira en tvö stig en hiti líka aldrei meiri en fjögur stig. Lágmarkshiti á Stórhöfða var aðeins -0,7 stig, þ. 25. og er það hæsti lágmarkshiti veðurstöðvar í febrúar. Í Reykjavík mældist einnig hæsti lágmarkshiti sem þar hefur mælst í febrúar, -2,2 stig þ. 26. og var þá vestanátt. Frost mældist þar þó í tíu daga en voru afskaplega væg og sólarhringsmeðaltal mun hafa verið eitthvað í kringum frostmark þegar kaldast var. Glettilega sólríkt var í höfuðstaðnum miðað við það sem gerist í hlýjum febrúarmánuðum. Snjólag var 26%. Alautt var meiri hluta mánaðarins frá Papey suður og vestur um til Vestfjarða. Seinni hluta mánaðarins var oft alhvítt norðanlands og stundum víða annars staðar. Alautt var alla daga í Papey og alla daga nema tvo á Teigarhorni, Hólum í Hornafirði, Stórhöfða og Eyrarbakka. Í Reykjavík var hins vegar alhvítt í  7 daga. Talsverður snjór var fyrir norðan fyrst í mánuðinum, 75 cm  á Húsavík þ. 1. og 50 cm á Grímsstöðum.  Suðaustanátt var mjög algeng fyrri hluta mánaðar vegna lægða suður eða suðvestur í hafi en síðar komu þær stundum nær landinu og ollu útsynningi og jafnvel smávegis norðaustanátt af hlýjasta tagi upp úr miðjum mánuði þegar hvasst var en víðast frostlaust. Alvöru norðankast kom hins vegar aldrei. Átti það ekki síst þátt í því hve mildur mánuðurinn var og hitinn jafn.  

Skopblaðið Spegillinn hóf göngu sína í þessum mánuði.  

1948 (2,1) Þetta var þegar síldin var vaðandi í Hvalfirði. Tíðarfarið var fremur óstillt og umhleypingasamt. Fyrstu dagana var veður oft rysjótt, stormur þ. 1. og hlaust tjón af og úrkomusamt, milt fyrst, en síðan kalt og þ. 8. fór frostið í 16,6 stig i Reykjahlíð við Mývatn. Frost voru þó aldrei mikil í þessum mánuði. Eftir miðjan mánuð var hæð fyrir austan land og mikil hlýindi, mest í Fagradal 12,0 stig þ. 29. Um það leyti voru miklir vatnavextir í Varmá í Ölfusi. Snjólag var það mesta í þessum tíu hlýjustu mánuðum, 58%. Á Grímsstöðum var alhvítt allan mánuðinn en á suður og vesturlandi voru um það bil helmingur daga alauður. Úrkoma var mikil á suður og vesturlandi, mest 230,5 mm í Kvígindisdal en lítil fyrir norðan og austan. Eftir þennan febrúar kom merkilegur mars, einn af þeim úrkomumestu en þá mældist líka mesti marshiti víða um land og mikil flóð voru í Ölfusá.  

Árni Þórarinsson prófastur, sem Þórbergur Þórðarson skrifaði um margrómaða ævisögu, lést þann fjórða. Kvikmyndagerðamaðurinn frægi Sergei Eisenstein dó þann 11. en þann 13. varð Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri í Reykjavík og átti eftir að vera það lengi. Kommúnistar tóku völdin í Tékkóslóvakíu þ. 24. 

feb18-1959.jpg1959 (2,1) Eftir næst kaldasta janúar frá 1918 kom þessi úrkomusami og afar illviðrasami en hlýi febrúar. Í Stykkishólmi var úrkoma 219,5 mm, sú næst mesta, en mest var 227,4 mm árið 1930. Á Teigarhorni er þetta þriðji úrkomusamasti febrúar. Ég tel þetta næst úrkomusamasta febrúar yfir landið en úrkomusamastur er þá árið 2003. Bæði úrkomumagn og úrkomutíðni var mikil. Sums staðar á  suður og suðvesturlandi var úrkoma alla daga. Sólinni var þá ekki fyrir að fara og er þetta t.d. sólarminnsti febrúar á Akureyri. Þrumuveður voru óvenjulega tíð. Sérlega mikið þrumuveður var að morgni  þess 15. um vestan og sunnanvert landið og var þá vestan stórviðri og snjókoma um allt land. Þennan dag og daginn áður varð rafmagnslaust í Reykjavík og var talið að eldingu hafi slegið í línuna frá Sogsvirkjun og valdið skammhlaupi. Minnisstæðastur er þessi mánuður fyrir þá miklu mannskaða á sjó er þá urðu. Togarinn Júlí frá Hafnarfirði fórst með allri áhöfn, 30 mönnum, á Nýfundnalandsmiðum þ. 8. eða 9. í stórviðri og mikilli ísingu en nokkrir aðrir togarar náðu til hafnar við illan leik. Aðfaranótt þ. 18. (sjá kortið), daginn eftir að Júlí var opinberlega talinn af, fórst vitaskipið Hermóður með allri áhöfn, 12 manns, undan Höfnum á Suðurnesjum í stormi og stórsjó og urðu ýmsar skemmdir á mannvirkjum í því veðri. Um daginn (þ. 17.) hafði hitinn á Seyðisfirði komist í 13,7 stig. Flesta daga í mánuðinum var hlýtt en stutt kuldakast kom í kringum þann 20. og daginn eftir mældist frostið -22,0 stig á Grímsstöðum. Snjólag var 54%. Það var mun minna en venjulega á norðausturlandi en í meira lagi á suðvesturlandi. Bæði alauðir og alhvítir dagar voru víða fremur fáir. Flekkótt jörð var einkenni  mánaðarins ásamt ilviðrunum. Kortið er úr Veðrinu 1959. 

Þann annan var fyrsti togarinn í landhelgisstríðinu við Breta tekinn og færður til hafnar. Daginn eftir fórust Buddy Holly, Richie Valens og The Bib Bopper í flugslysi og segja sumir að þá hafi lokið fyrstu rokkbylgjunni.      

1921 (2,1) Þetta er ellefti hlýjasti febrúar. Hann er hér nefndur vegna þess að hann er úrkomusamasti febrúar sem mælst hefur í Reykjavík, 242,3 mm. Mælanleg úrkoma féll alla daga nema einn og níu daga yfir 10 mm. Þessi mánuður er jafnframt næst sólarminnsti febrúar í bænum. Í Vestmannaeyjum var þetta líka einhver hinn úrkomusamasti febrúar. Mikill suðvestanstrengur var í lofti. Þegar þessi mánuður kom var hann áberandi hlýjasti vetrarmánuður síðan 1875. Á fyrra hlýindatímabilinu á tuttugustu öld var veturinn skjótari til að hlýna en aðrar árstíðir. Kannski má líta á þennan mánuð sem upphaf hlýindatímabilsins mikla sem hélst fram á hafísárin í mars 1965. 

Páll Bergþórsson: Tvenns konar veðurlag, Veðrið, 1, 1959. 

Skýringar.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Afar fróðlegt og skemmtileg. Væri þó betra að þetta kæmi í smærri skömtum. Takk!

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.2.2011 kl. 18:11

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég skrifa um tíu ár, bæði í hlýjasta og kaldasta. Það þarf sitt pláss. Ekki betra að skipta hverjum flokki upp í margar færslur. Enginn þarf að lesa þetta allt í einni lotu. Breytingar samt ekki útilokaðar í framhaldinu. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.2.2011 kl. 18:43

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég á alveg eins von á að ekki nokkur maður nenni að lesa þetta. Ef þetta væri um icesave mundi gegna öðru máli. Þá kæmu hér komment í löngum bunum.

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.2.2011 kl. 13:17

4 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sigurður Þór.  Ég las þetta allt, þó ég færi hratt yfir...   Mjög fróðlegt.  

Ágúst H Bjarnason, 23.2.2011 kl. 10:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband