Leyndarhyggja Landlæknis

Rannsókn hefur leitt í ljós að á einum þriðja hjúkrunarheimila  fyrir aldraða - ekki einum tíunda - sé ástandið óviðunandi. Nýlega komu fram fréttir um hræðilega vonda umönnun á heilabiluðum gömlum manni á hjúkrunarheimili.

Landlæknir vill ekki opinbera hvaða heimili koma verst út. Hann segist óttast að það muni leiða til þess að ekki fáist þá mannskapur til að vinna á þeim.

Og hvað með það? Ætti bara ekki að loka þeim ''hjúkrunarheimilum'' sem búa þannig að heilabiluðu fólki eins og lýst hefur verið með gamla manninn sem lá í eigin saur og óhreinindum dögum saman?

Og hvað með aðstandendur þeirra sem horfa fram til þess að neyðast til að setja ættingja sína á hjúkrunarheimili? Eiga þeir ekki rétt á að vita hvaða heimili eru  viðunandi áður en þeir vista ættingja sína á þeim?

Leyndarhyggja Landlæknis er óboðleg á okkar tímum. Það er augljóst að Landlæknir tekur hagsmuni heimilanna fram yfir hagsmuni almennings. Hann er bara að hlífa heimilunum. Þetta er ekkert flóknara en það.

Velferðarráðherra hefur sagt að ábyrgðin á þessu ófremdarástandi hvíli á hjúkrunarheimilunum og eftirliti Landlæknis. Féskortur sé svo engin afsökun. Og þetta liggur hreinlega í augum  uppi.

Það sem nú er að gerast með leyndina er hins vegar skólabókardæmi um það hvernig menn ætla að leysa þá sem ábyrgð bera undan ábyrgð. Allt bendir til að enginn mun þurfi  að bera minnstu ábyrgð á þessu ástandi og ekki verði blakað á neinn hátt við þeim hjúkrunarheimilum sem frekar ætti að kalla pyntingastofnanir en hjúkrunarheimili svo við hættum allri yfirborðskurteisi og orðum hlutina eins og þeir eru.

Þessi gamli maður er ekki einn. Fjöldi annarra býr við svipað ástand ef marka má rannsóknina. Það er einnig sláandi að aðstandendur gamla mannsins þora ekki að nefna hjúkrunarheimilið af ótta við að það muni bitna á gamla manninum.

Svona lagað er að gerast beint fyrir framan nefnið á okkur og Landlæknir  sýnir þjóðinni bara fingurinn!  

Í dag mun heilbrigðisnefnd Alþingis funda með Landlækni. Við skulum vona að þingmennirnir þori að mæta embættinu af fullum þunga. Hugsi sjálfstætt gagnvart kennivaldinu.

Það er líka hægt að ætlast til að fjölmiðlar taki fram fyrir hendurnar á Landlækni  og komist yfir listann yfir vondu heimilin og birti hann svo fólk geti forðast þau ef Landlæknisembættið ætlar ekki að gera það.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég þekki vel til á einu hjúkrunarheimili í Reykjavík og þar þarf að skera niður launakostnað um 15% frá í fyrra.
Heimilismenn fá mjög takmarkað af ávöxtum og matarskammtar hafa verið minnkaðir. Aðstandendur eru farnir að kaupa inn á hjúkrunarheimilin fagmenntað fólk til að hugsa um ættingja sína.

Eru aldraðir, sjúklingar, atvinnulausir, öryrkjar afgangsstærðir sem ríkið kærir sig ekkert um ? Væri þá ekki nær að skjóta alla sem eru baggi á ríkinu og spara fúlgur.

Rabbi (IP-tala skráð) 27.5.2011 kl. 20:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband