Veðurraus

Eins og fram hefur komið í fréttum var hlýtt og þurrt næstum því alls staðar á landinu í júlí . Hins vegar var víðast hvar kalt í júní, eins og  sannarlega frægt er orðið, en þó ekki svo mjög á höfuðborgarsvæðinu. Í júlí var sólríkt í hlýindunum bæði fyrir norðan og sunnan. Það sem af er ágúst er hitinn 1,7 stig yfir meðallagi í höfuðborginni en á Akureyri hefur hitinn sigið lítillega undir meðallagið síðustu daga eftir ágæta mánaðarbyrjun.  

Samt sem áður má furðu víða á netinu lesa um það að nú hausti snemma og það hafi ekki verið neitt sumar og þar frameftir götunum. Í dag slær svo Víkverji Morgunblaðsins einmit þennan tón. Reyndar eru skrif hans svo fjarstæðukennd og út í hött að kannski er hann einfaldlega að djóka eða um einhvers konar kaldhæðni er að ræða. 

Mér datt jafnvel í hug í sjálfhverfu minni að hann væri bara að að gera at  í mér til að hleypa mér upp! 

Sé svo hefur það tekist fullkomlega!

Ekki kemur fram hvar Víkverji býr en líklega er það þó í Reykjavík þar sem veðrið hefur verið einna best á landinu. Segist hann hafa verið að bíða eftir sumarveðri í allt sumar en bara fengið kulda, rigningu, rok, skýjaðan himinn og almenn leiðindi.

Sumarið hefur þó hingað til verið sérlega þurrviðrasamt og eins og áður segir fremur sólríkt og vel hlýtt eftir að júní sleppti og reyndar fyrir miðjan júní hvað Reykjavík varðar. Í gær kólnaði  þó nokkuð og geri ég ráð fyrir að Víkverji sé nú hreint alveg í öngum sínum! Ekki síst vegna þess að hann viðurkennir að síðustu daga hafi veðrið bara verið nokkuð gott - sem gluggaveður - þótt gert hafi frost, eins og hann segir. (Síðustu dagar hafa  vissulega  verið sólríkir  í  Reykjavík). Ansi mikið finnst mér annars hafa verið gert í fréttum úr þessum næturfrostum sem komu á einstaka stað, þessum gamalkunnu frostastöðum þar sem stundum frýs um hásumarið, í björtu hægviðri í langvinnri þurrkatíð. Það er út af fyrir sig ekki sterkt merki um haustlega tíð en einmitt þannig hefur þó oft verið lagt út frá þessu á netsíðum.

Víkverji spyr hvað sé eiginlega að frétta af hlýnun jarðar og hvað sé málið með þetta kalda sumar.

Svarið er auðvitað það að sumarið hefur alls ekki verið kalt eftir júní. 

Í lokin heldur Víkverj að sumrinu hafi kannski bara verið frestað þar til á næsta ári.

Ég efast um að þá verði endilega mikið hlýrra og betra.

Og þá komum við einmitt að aðalatriðinu í veðurrausi þessu sem líta má á sem eins konar andsvar  og virðingarvott við veðrurraus Víkverja!

Síðustu sumur, reyndar ótrúlega mörg, hafa verið svo óvenjulega hlý, bæði í heild og  margir einstakir mánuðir, að flestir nema flón ættu að gera sér  ljóst að þess sé ekki að vænta að þannig verði bara sumrin áfram von úr viti, að þetta sé hið venjulega íslenska sumar. Engan ætti því að undra þegar svo eitthvað slaknar á hlýindunumm og þau færist nær meðallagi en þó ekki nauðsynlega alveg að því.  Menn hljóta að búast við því. 

Gróðurhúsaáhrifin halda svo sínu striki um allan heim.  Þau  eru ef til vill einhver miðvirkandi áhrifavaldur um okkar hlýindi en fyrst og fremst virðist vera um einhverja náttúrulega - eða kannski öllu fremur mjög ónáttúrulega - sveiflu að ræða og er hún sannarlega umhugsunarefni.

Og hún þarf reyndar ekki neitt að vera búin. Þetta sumar æpir engan vegin með stórum stöfum: NÚ SÝNIR ''SUMARKULDINN'' AÐ HLÝINDASYRPAN ER Á ENDA! Þvert á móti eru hlýindin enn þá á heilmiklu blússi þó þau séu að vísu ekki alveg jafn geggjuð og undanfarin ár. En  það hafa samt verið hlýindi yfirleitt á landinu í sumar eftir júní en ekki kuldatíð.  Ef svalviðrin í júní væru meira og minna enn viðvarandi (reyndar virðast sumir telja sér trú um að svo sé) væri hægt að segja að kalt sumar hafi verið og breytt hefði stórlega um veðurtakt. En svo er bara ekki. Það hafa samt orðið vissar breytingar en þær réttlæta ekki harðindahjal. 

Hvað sem síðar verður. 

Fylgiskjalið vaktar veðrið áfram, á blaði eitt fyrir Reykjavík og landið, blaði tvö fyrir Akureyri. 

Það er eitthvað undarlegt að gerast rétt einu sinni með hámarksmælingar í Reykjavík á kvikasilfursmnælinum. Í gær var hámarkið frá kl. 9-18 talið 16,0 stig og í dag 15,7 þó sjálfvirku mælararnir og líka á flugvellinum hafi gefið upp miklu lægri tölur.  

Gott væri svo að athuganir frá Teigarhorni, næst elstu veðurstöð landsins, færu aftur að birrtast á vefsíðu Veðurstofunar en þaðan hefur ekkert komið frá sumarsólstöðum. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það væri fróðlegt að vita meira um þennan Víkverja...ekki virðist hann hafa góða ályktunarhæfni, hvorki um staðbundið veður né hlýnun jarðar. En það hafa sumir hafa beðið eftir meintri kólnun jarðar svo lengi að þeir virðast vera farnir að búa til röksemdir í huga sér sem styðja þær bábyljur...þótt slíkt sé fjarri öllu lagi.

Sveinn Atli Gunnarsson, 16.8.2011 kl. 12:15

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Eins og ég sagði þá held ég helst að Víkverja sé ekki alveg alvara. Mér skilst að Víkverji sé skrifaður af ýmsum blaðamönnum á Mogganum. Það sé ekki alltaf sami maður. Einhver sem hefur stundum skrifað sem Víkverji skrifar skynsamlega um veður og pælir greinilega í því.  Hitt er annað mál að ég er mjög á þeirri skoðun að leggja eigi niður alla nafnlausa dálka í dagblöðum. Allt eigi þar að vera undir nafni, að leiðurum meðtöldum. Sagt er að ristjórarnir beri hina formlegu ábyrgð en hver maður sem skrifar opinberlega að staðaldi í blöð ætti að bera ábyrgð á þeim undir nafni, ekki bara ristjórar.

Sigurður Þór Guðjónsson, 16.8.2011 kl. 13:13

3 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það er rétt hjá þér, hálf undarlegt að vera með nafnlausa dálka í dagblöðum.

Sveinn Atli Gunnarsson, 16.8.2011 kl. 13:29

4 identicon

Það er deginum ljósara að þessi gróðurhúsaáhrif eru raus eitt í einhverjum illa menntuðum útlenskum takkastjórum, sem vita ekkert um veðurfar, greyin. Kunna ekki annað en að rýna í einhver tölvumódel, sem enginn skilur, og allra síst þeir sjálfir.

Það var hnatthlýnun um miðja síðustu öld, og hvarf hún aftur af sjálfu sér. Bara sísona. Einnig fyrir árþúsundi, tveimur árþúsundum og þrem árþúsundum...   Þannig verður það líka núna, sannaðu til lagsi. Vísbendingar eru farnar að koma fram.

Þetta er meira bullið þessi loftslagstölvutækni, eða hvað það nú kallast, þegar menn kunna ekki lengur sín fræði og rýna bara í tölvuforrit.

Og hana nú. Vissulega er þetta réttmæt spurning hjá Víkverja. Vissulega.

Gamli (IP-tala skráð) 16.8.2011 kl. 16:30

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Alltaf jafn fróðlegt að hlýða á nafnlaust raus eins og sá Gamli býður upp á hér (kannski er hann Víkverjinn umtalaði). Ég mæli með að viðkomandi skoði t.d. Mælingar staðfesta kenninguna og Orsakir fyrri loftslagsbreytinga svo eitthvað sé nefnt og setja sig örlítið inn í hvað málið fjallar um áður en hann gasprar meira um málið. Svo getur hann kannski komið með annað komment og þá kannski undir eigin nafni, ef hann skyldi þora því...ekki að ég eigi von á því að það gerist.

Mbk.
Sveinn

Sveinn Atli Gunnarsson, 16.8.2011 kl. 17:21

6 identicon

Það er full þörf á því í þessum málum sem öðrum að benda á staðreyndir þegar fumbulfambað er á óvandaðan hátt eins og gjarnan er gert um veður - og reyndar hvaðeina ef út í það er farið. Sérstaklega finnst okkur Noðrlendingum það sýna umtalsvert vanþakklæti (jafnvel hroka) af íbúum suðvesturhornsins að skammast yfir veðrinu þar. Sjálf berum við harm okkar í hljóði og bíðum eftir hægum sunnan andvara með sólarbreyskju viku eftir viku eftir viku. Sjálfur fékk eg ekki að upplifa sumarið 1939 en myndi telja það almættingu til tekna ef það endurtæki það á næstunni, t.d. sumari 2012... 

Áskell Örn Kárason (IP-tala skráð) 16.8.2011 kl. 17:22

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er eitt í þessu. Eindregin sunnanáttasumur með tilheyrandi rigningum og rosa syðra en blíðu fyrir norðan hafa ekki lengi komið. En áreiðanlega koma þau einhvern tíma. Sumrin 1976 og 1984 voru í þessum stíl og ýmsir muna eflaust eftir þeim. En svo er tíl í dæminu að sumur séu góð um allt land, eins og t.d. 1939 og þá var september á við fínasta hásumarmánuð. Sumrin fyrir norðan hafa reyndar líka lengi verið hlý og góð en kannski blandaðri en syðra þó hluti sumarins 2001 hafi  ekki verið nógu góður fyrir norðan.

Sigurður Þór Guðjónsson, 16.8.2011 kl. 18:06

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

2011 á þarna að standa!

Sigurður Þór Guðjónsson, 16.8.2011 kl. 18:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband