Ferð um Snæfellsnes

Var að koma úr ferð kringum Snæfellsnes. Varla sást ský á himni allan tímann. Útsýnið var takmarkalaust í allar áttir. Kom í Stykkishólm og skoðaði hús Árna Thorlaciusar sem fyrstur hóf að gera verðurathuganir á Íslandi sem enn er framhaldið og það vita náttúrlega allir. Skoðaði líka Eldjallasafnið. Varð fyrir vonbrigðum. Það er myrkt og illa lýst og vond lykt í því. 

Fyrir framan kirkjuna var opinn sendiferðabíll og út út honum barst hávær poppmúsik. Einhver kvenrödd var að syngja ömurlegt popplag gegnum hátalara með glamrundsirspili. Auðvitað á  ensku. Og á kirkjutröppunum stóð svo stelpa í stuttbuxum og bærði varirnar eins og hún væri að syngja. Svo voru einhverjir að taka þetta upp á videó og við vorum beðin að ganga ekki fyrir vélina rétt á meðan takan fór fram. Mig langaði nú til að vera með múður og uppsteyt og skemma allt þetta helvítis poppgaul því ég er svo snobbaður að það myndi rigna upp í nefið á mér ef það myndi bara rigna! En ferðafélagi minn lempaði mig niður svo lítið bar á. Það var reyndar tekið upp hvað eftir annað og spillti þessi gauragangur ánægjunni af að vera í hjarta Stykkishólms. En nú veit maður þá  hvernig svona upptökur fara fram. Fyrst er músikin tekinn upp og hún svo spiluð fyrir músikantana  sem þykjast þá syngja eða spila til að þeir verði sem eðilegastir þegar videómyndin er  tekin upp.

Algjört blöff!

Segiði svo að ekki sé lærdómsríkt að koma til Stykkishólms.

Mikill snjór var norðanmeginn í Ljósufjöllum og enn meiri í Helgrindum. Það er eins og skaflarnir séu alveg ofan í bænum í Grundarfirði. Skefling fannst mér það kuldalegt svona um hásumarið. Ekki vildi ég búa við það. Og Grundafjörður er eitthvað svo aðþrengur og leiðinlegur. Ég á reyndar ættir að rekja að hluta til frá þessum slóðum og því ekki að furða hvaða maður getur stundum verið skrambi leiðinlegur. 

Arnarstapi hefur breyst í sumarbústaðaland og mér finnst það hafa spillt staðnum. Man vel eftir honum þegar þar var lítið meiri byggð en fallega hvíta húsið sem var svo skemmtilegt með hitamælaskýlinu og úrkomumælium á túninu. Allt er það nú horfið. 

En kríurnar eru samar við sig, argandi og gargandi og mjög ögrandi og ógnandi eins og vítisenglar  og drulluðu bara yfir okkur.  

Ég sá mörg merk veðurathugunamöstur í ferðinni: þrjú á Kjalarnesi, tvö undir Hafnarfjalli með nokkra metra millibili (hagræðing og sparnaður í fyrirúmi),  við Hafursfell, á Vatnaleið, Stórholti, Stykkishólmi, Kolagrafarfjarðarbrú, (sakna gamla vegarins inn í Kolgafafjörð og um Hraunsfjörð en þar fæddist afi minn), Grundarfirði, Búlandshöfða, Fróðárheiði, alvöru hitamælaskýlið á Bláfeldi og líka mastrið og loks  mastrið á Hraunsmúla en missti hins vegar af Fíflholti á Mýrum og er ekki mönnum sinnandi yfir þeim fíflalega klaufaskap. 

Þetta var annars mikil sómaferð með mörgum Rauðakúlum! 

Og fylgikskjalið er aftur komið á kreik.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sumir eru bara góðir pennar!

Jón bóndi (IP-tala skráð) 23.7.2012 kl. 18:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband