Stefnir í einn af hlýjustu febrúarmánuðum

Meðalhitinn í Reykjavík þegar 20 dagar eru liðnir af mánuðinum er nú kominn upp i 2,6 stig eða 2,7 stig yfir meðallagi. Ef mánuðurinn héldi þeirri tölu yrði hann sjötti eða sjöundi hlýjasti febrúar.

En það eru ansi litlar líkur á því að hann haldi þessari tölu. 

Þvert á móti eru allar líkur á að hún muni hækka umtalsvert næstu daga! Ekki sjást nema mikil hlýindi í spám nema hvað eitthvað muni kólna tvo síðustu daga mánaðarins.

Þetta eru jú bara spár en það er mjög líklegt að meðalhiti mánaðarins eigi eftir að stíga upp í þrjú stig í Reykjavík og jafnvel hærra. 

Aðeins fimm febrúarmánuðir frá upphafi mælinga í höfuðstaðnum hafa náð að vera yfir þremur stigum, 1932, 1965, 1964, 2006 og 1929. 

Og þessi febrúar kemur á eftir janúar sem var vel inni á topp tíu listanum yfir hlýjustu janúarmánuði á landinu og líka í Reykjavík.

Á Akureyri eru meðalhitinn nú 1,0 stig eða 3,0 stig yfir meðallagi. En mánuðurinn nær ekki enn inn á lista þar yfir tíu hlýjustu febrúarmánuði.

Það verður spennandi hvað þessi mánuður ætlar að gera í hitanum! 

Viðbót 23.2.: Mánuðurinn er nú kominn í 3,0 stig í Reykjavík og verður gaman að vita hvort hann kemst upp í 3,5 stig sem er að mínu áliti alveg mögulegt. Og hver veit nema hann nái þá bronsinu af 1964 í febrúarhlýindakeppninni! En vonin um silfur eða gull er alveg vonlaus. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Spurning hvar þetta endar og hvort við lendum í miskunnarlausri gagnsárás heimskautaloftsins.

Emil Hannes Valgeirsson, 21.2.2013 kl. 17:39

2 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Vér fylgjumst spenntir með!

Hvernig er annars með fyrstu tvo mánuðina (ef maður tekur þá saman) - er mögulegt að sjá hvernig sú staða lítur út miðað við fyrri ár?

Sveinn Atli Gunnarsson, 21.2.2013 kl. 20:46

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það kólnar víst síðustu tvo dagana og mars mun heilsa með verulegu kuldakast hverju ekki mun linna fyrr en á Seljumannamessu! En ef við gerum ráð fyrir að meðalhiti þessa mánaðar verði kominn í 3 stig á morgun, sem blasir við, hefur í Reykajvík frá áramótum aldrei verið hlýrra nema 1964 en næst á eftir okkur núna kemur þá 1929. Báða þessa vetur var það mars sem setti glæsilegna lokahnykk á veturna sem eru þeir hlýjustu í heild. En ætli okkar mars glutri ekki öllu niður á lokasprettinum eins og strákarnir okkar

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.2.2013 kl. 13:11

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þriðji og fjórði mars gætu t.d. orðið ansi skæðir, svo varla verða þeir skæðari, og gætu komið með kuldamet. Ef það er þá nokkuð að marka þessar spár!

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.2.2013 kl. 13:21

5 identicon

Ekki má síðan gleyma febrúar 2006 í upptalningu á sérlega hlýjum febrúarmánuðum.

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 23.2.2013 kl. 14:27

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Nei auðvitað ekki Björn enda á þarna að standa 2006 en ekki 1926. Verður snarlega leiðrétt.

Sigurður Þór Guðjónsson, 23.2.2013 kl. 18:44

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

 "En ætli okkar mars glutri ekki öllu niður á lokasprettinum eins og strákarnir okkar".

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.2.2013 kl. 13:05

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Nú er ekki gert ráð fyrir að kuldakastið i byrjun mars verði eins svívirðilegt og fyrri spár voru með. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.2.2013 kl. 13:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband