Mesti hiti á landinu í mars

Hiti hefur einu sinni komist í tuttugu stig eða meira í mars á Íslandi. Það var hinn 29. árið 2012. Þá fór hitinn á sjálfvirkri stöð Veðurstofunnar á Kvískerjum í 20,5 stig. Trausti Jónsson veðurfræðingur fjallaði um þennan atburð á bloggi sínu. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur spáði líka í þessa hitabylgju sem stóð í nokkra daga. Litlu munaði á hitinn á mannaðri stöð næði eldra slíku meti en á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði komst hitinn í 18,2 stig þann 26.  Nimbus karlinn var hins vegar illa úti að aka  meðan mest gekk á sem líklega hefur  stafað af spennu og taugaæsingi! Hann fylgdist þó vel með almennt þessa dagana meðan hitabylgjan stóð yfir. 

Elsta hitamet að vetri sem enn stendur á mannaðri veðurstöð var aftur á móti sett 27. mars árið 1948 á Sandi í Aðaldal, 18,3 stig. Það var mælt í gamaldags hitamælaskýli sem fest var á húsvegg.

Mörg hitamet sem komu þennan dag á landinu standa enn. Þar skal fyrst nefna marsmetið í Reykjavík, 14,2 stig. Í Reykjavík var á þessum tíma komið sérstætt mælaskýli líkt og nú tíðkast. Þennan dag, sem var laugardagurinn fyrir páska, var sléttur fjórtán stiga hiti kl. 14 að íslenskum miðtíma þegar veðurathugun var gerð, minna en hálfskýjað og áttin var austsuðaustan sex vindstig. Það hefur verið alveg þokkalegt skjól í görðum og mönnum hefur þótt þetta vera ótrúlega góður dagur.     

Á nokkrum veðurstöðvum sem lengi hafa athugað hefur síðan ekki komið eins hár hiti í mars: Stykkishólmi 15,5, Gjögri 13,4, Akureyri 16,0, Reykjahlíð við Mývatn 13,1, Grímsstöðum 14,1 og Hallormsstað 16,5 stig. Allt mælt þ. 27. Þann dag var hæð yfir NV-Evrópu en lægð suður af Grænlandi og landið laugað í hlýjum loftsstraumi eins og sést á korti hér að neðan. 

Næst mestu hitarnir í mars komu síðasta dag mánaðarins hafísaárið 1965. Það sérstaka var að hans gætti eingöngu á suður-og vesturlandi og mældist þá langmesti hiti sem mælst hefur á suðurlandsundirlendi í mars: Sámsstaðir, 17,9 (17,5 kl. 15), Hella 16,8, Akurhóll, 16,5, Hæll 13,5, Þingvelir 13,5. Einnig var  mjög hlýtt í Borgarfirði: 15,8 stig á Hvanneyri og  15,2 í Síðumúla. en í Reykjavík hélt metið frá 1948. Þennan dag var austan eða suðaustanstrekkingur við suðvesturströndina en annars staðar lyngt og víða léttskýjað. Kannski olli hafísinn því að hitinn fyrir norðan náði sér ekki á strik. Mistur var í lofti þennan dag. Það þótti vorlegt á þeim árum en mistrið var í rauninni efnamengun frá Bretlandseyjum. Í Reykjavík skein sól fram á hádegi en síðan byrgði mistrið hana en hitinn fór í 13 stig. 

Árið 1956 fór hitinn á Dalatanga upp í 17,4 stig þ. 27. Þá var veðri öðru vísi farið en í þeim hitabylgjum sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni, allhvöss sunnan og suðvestanátt með mestu hlýindunum á Austfjörðum.

Þann 28. mars árið 2000 kom álitleg hitabylgja. Þá mældist hitinn 16,6 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði á kvikasilfursmæli en á sjálfvirku stöðinni á Eskifirði fór hitinn í 18,8 stig. Það var þá hæsta hitatala sem skráð hafði verið á íslenskri veðurstöð i mars.

Hér fyrir neðan má sjá veðurkort frá hádegi frá nokkrum þeirra daga sem hér er frá sagt og auk þess kort sem sýna ástand mála í 850 og 500 hPa flötunum, í kringum 1400 og 5000 m hæð. Þar sést hitinn í þessum hæðum en einnig má átta sig á veðurkerfunum við jörð. Biðst forláts á því að fyrir handvömm vantar kvarðann á efstu kortin en hann sést neðar. 

Smápistil um mesta kulda í mars má sjá hér.  

rrea00120120329.gif

Rrea00119480328

Rrea00219480328

hæð. Þar sést hitinn í þessum hæðum en einnig má átta sig á veðurkerfunum við jörð.

Rrea00119480328

Rrea00219480328

  Rrea00119650331

Rrea00219650331

  






 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband