Júlí hálfnaður

Nú er júlímánuður rúmlega hálfnaður. Meðalhitinn í Reykjavík er þá 9,5 stig eða 0,8 stig undir meðaltali sömu daga 1961-1990 en 2,2 stig undir meðaltali þessara daga á 21. öld. En eins og ég og fleiri höfum margbent á er ekki raunhæft að miða við það mjög svo afbrigðilega tímabil þegar við metum hitafar mánaða. 

Eigi að síður hlýtur það sem af er mánaðarins að teljast kalt í Reykjavík og þó bara sé miðað við meðaltalið 1961-1990. Ekki hefur verið kaldara þegar júlí er rúmlega hálfnaður síðan 1993 og aftur 1992. Það var áður en uppsveiflan mikla hófst í sumarhita. En þetta gerðist líka 1989, 1983, 1979 og 1970 en hitinn var jafn og núna fyrri hluta júlí 1973 og 1949. 

Maður er farinn að búast við því að mánuðurinn allur endi jafnvel undir  tíu stigum í Reykjavík sem ekki hefur gerst síðan 1992, 1989, 1985, 1983, 1979, 1975 og 1970. En árið 1970 hafði það ekki gerst síðan í júlí 1922. Þá ríkti hlýindatímabilið hið fyrra á 20. öld. Hið síðara hófst nálægt aldarlokum og stendur enn - eða hvað? 

Á Akureyri er meðalhitinn 10,1 eða 0,2 stig undir meðallaginu 1961-1990. Á Fljótsdalshéraði og inni á fjörðunum á austurlandi og jafnvel líka við ströndina hefur þetta verið vel hlýr júlí. Og þar og annars staðar fyrir austan og norðan var júní í hlýjasta lagi. Gleymum því ekki í núveandi hamförum! 

Úrkoman í morgun í Reykjavík, 53 mm,  er hreinlega orðinn aðeins meiri heldur en meðallag alls júlímánaðar 1961-1990!  Eftir að Veðurstofan var stofnuð 1920 var hún meiri 1998, 1997, 1984, 1971 (já, þann góða mánuð), 1954, 1926, 1925 og 1926. 

Úrkoman samanlögð síðan i byrjun júní er svipuð og 2003 en var meiri 1984, 1977, 1969 og 1925 en ekki rigningarsumarið alræmda 1955. Aðalrigningarnar voru þá eftir og einnig í ýmsum öðrum frægum rigningarsumrum. Kannski eigum við það líka eftir!

Sólarstundirnar í Reykajvík eru nú 68 en voru færri fyrri hluta júlímánaðar 2005, 2003, 1999, 1997, 1992, 1984, 1983, 1980, 1979,1978, 1977, 1976, 1975 (já, 6 fyrri hluta júlímánuðir í röð), 1973, 1972, 1969, 1959, 1955, 1954, 1953, 1949, 1947, 1945, 1937, 1935, 1934, 1933, 1930, 1926, 1925 og 1923. 

Ísland er ekki beint sólskinsland!  

Ef við tökum júní og fyrri hluta júlí samans  var sólarminna 2003, 1988,1986, 1983, 1979, 1971,1969, 1962, 1934, 1926, 1925 og 1923.

Úrkoman það sem af er júlí er mikil víðast hvar um land en ekki bara í aðallega í einum landshluta og er þetta fremur fátítt. Ótrúlega víða, nema helst á norðaustur og austurlandi, er úrkoman þegar komin upp fyrir meðallag alls júlímánaðar og þar sem hún er það ekki er hún á mörgum stöðvum farin að nálgast meðallagið. Á fáeinum stöðvum, aðallega austanlands, hefur þó verið lítil úrkoma.

Ég var búinn að týna í sarpinn til birtingar nokkrar sannar hryllingssögur um fyrri tíma sólarleysi í fjölda samfelldra daga en verð að láta það bíða að sinni.

Á meðan: Sleikjum nú sólina þegar hún gefst!

Og svo er spáð hlýrra veðri. 

Viðbót 22.7. Meðalhitinn í Reykjavk er nú komin upp í tíu stig og mun líklega ekki fara aftur niður fyrir það til mánaðarloka. En þetta er samt ekki gott.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Hið síðara hófst nálægt aldarlokum og stendur enn - eða hvað?" . . . ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 17.7.2013 kl. 21:05

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Eða hvaðið? var einmitt ætlað þér Hilmar! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.7.2013 kl. 22:21

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Hlýindaskeiðið mun standa svo lengi sem ársmeðalhitinn þraukar yfir 5 stigunum í Reykjavík - svo miðum við það einstaka pláss.

En þetta er flott samantekt.

Emil Hannes Valgeirsson, 17.7.2013 kl. 23:25

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Flott samantekt Sigurður - takk fyrir.

Sveinn Atli Gunnarsson, 18.7.2013 kl. 01:52

5 identicon

Þakka hugulsemina SÞG :)

Þrátt fyrir eindregna áskorun okkar félaga hafa veðurvitarnir á Veðurstofu Íslands ekki séð ástæðu til að birta útreikninga yfir meðalhita mánaða/ára á Íslandi á vefsíðum sínum. Hagstofan bregst þó ekki landsmönnum og þar má finna athyglisverðar upplýsingar um tiltekið efni - reyndar einungis frá 1997 - 2011.

Engu að síður fær maður séð að meðalhiti júlímánaðar í Rek. 1961 - 1990 er 10,6°C

Til samanburðar, eins og þú getur réttilega, er meðalhiti 1.- 17. júlí 2013 í Rek. 9,5°C(!)

Þarna skakkar 1,1°C og munar um minna. "Ekki furða að mönnum bregði við - miðað við síðustur ár", svo að maður vitni beint í Trausta Jónsson sem loksins virðist vera farinn að átta sig á kólnuninni :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 18.7.2013 kl. 16:26

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

1.-16. júlí en meðalhitinn þá daga 1961-1990 er 0,8 stigum hærri.

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.7.2013 kl. 18:27

7 identicon

Ef við reiknum út meðaljúlíhitastig "óðahlýnunarára" Trausta Jónssonar (1997 - 2011) þá er niðurstaðan 11,8°C.

Ef fram heldur sem horfir (langtímaspár gefa ekki tilefni til annars) þá verður meðalhiti júlímánaðar 2013 2,3°C lægri.

Lægsti meðalhiti júlímánaðar á "óðahlýnunartímabili" Trausta var 10,6°C árið 2002, 1,1°C hærri en 2013!

Ég tel að það sé nokkuð sama hvernig Trausti Jónsson reynir að setja fram tölurnar sínar, kuldinn í júli 2013 er mjög óvenjulegur og úr takti við meinta "óðahlýnun".

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 19.7.2013 kl. 10:22

8 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Gaman að sjá hvernig Hilmar fer á flug í hvert skiptið sem staðbundið hitastig á Íslandi (stundum annars staðar staðbundið - ef það hentar málflutningnum) fer undir eitthvað sem hann skilgreinir sem "óðahlýnun"... Hitastig mun halda áfram að sveiflast staðbundið (og líka á heimsvísu) - hvað sem líður þeirri hnattrænu hlýnun sem nú á sér stað - það er staðareynd ;)

Svona til að halda fleiri staðreyndum til haga, þá var júní mánuður næst heitasti júní á heimsvísu samkvæmt NASA GISS - frá því mælingar hófust - sjá http://data.giss.nasa.gov/gistemp/tabledata_v3/GLB.Ts+dSST.txt

Sveinn Atli Gunnarsson, 19.7.2013 kl. 10:55

9 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ætli meðalhitinn í júlí í Rvík ná ekki 10,3°C, sem væri þá 1,5°C undir þessum 11,8°C stigum.

Emil Hannes Valgeirsson, 19.7.2013 kl. 11:01

10 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Gæti vel trúað að þessi júlí fari upp fyrir 10 stig eftir spánni. En jafnvel þó hann gerði það ekki væri hann ekki meira út úr takti en júni fyrir norðan 2011. En hvað með þetta? Hitastig mánaða sveiflast. Líka á eindregnum hlýindaskeiðum koma kaldir mánuðir sem virðast út úr takti við það sem annars er að gerast, t.d. ágúst 1943 á hlýindaskeiðinu fyrra sem var með kadari ágústmánuðum. Þessi júlí verður aldrei jafn kaldur tiltölulega og ágúst 1943, sums staðar er hann beinlínis hlýr, og þegar upp verður staðið trú ég að hann verði ekki langt frá lansameðalhita, ef ekki hlýrri. Svo finnst mér líka ástæðulaust að vera á þessari síðu að hnýta út í aðra bloggara sem ekki hafa einu sinni sett athugasemdir við viðkoamandi fræslu. Eina slíka athugasemd, sem var alveg út úr öllu samhengi en átti að gera lítið út eða hæðast að nafngreindum bloggara sem hvergi var nærri í bloggfærslunni eða með athugasemdir, tók ég út um daginn. Þessi athugasemdadálkur er ekki ætlæður sem tilefnislaus skotspónn á aðra bloggara sem ekki eru einu sinni  með athugasemdir þegar skotin koma.

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.7.2013 kl. 13:34

11 identicon

Mikil er kolefnistrú ykkar þremenninga :)

Andfætlingar okkar, Ástralar, virðast a.m.k. vera búnir að fá nóg af bullvísindum kolefniskirkjunnar samkv. frétt sem RÚV birti þriðjudaginn 16. júlí sl.:

"Kevin Rudd, forsætisráðherra Ástralíu, hefur ákveðið að afnema sérstakan kolefnaskatt á fyritæki og heimili. Á blaðamannafundi tilkynnti hann ásamt Chris Bowen, fjármálaráðherra Ástralíu, að skatturinn sem var 25 ástralskir dollarar á ári fyrir hvert heimili, yrði afnuminn að ári liðnu."

(http://ruv.is/frett/kolefnisskattur-afnuminn-i-astraliu)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 19.7.2013 kl. 14:59

12 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það eru engin trú heldur staðreynd að mjög hlýtt hefur verið á Íslandi síðan 1996 og er enn hvað sem síðar verður. Það nær engri átt að nota nokkrar vikur eða jafnvel féina mánuði með dálítilli kólnun sem sönnun þess eða bara röksemd fyrir því það sé að kólna á Íslandi miðað við síðustu ár, hvað þá alla jörðina. Annars er ekki gott að átta sig á hvað Hilmar er stundum að fara. Ég get t.d. ekki séð að þessi frétt sem hann vísar á komi þessari bloggfærslu nokkuð við.

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.7.2013 kl. 18:10

13 identicon

Heimsendatrúboðið "hnatthlýnun af mannavöldum" er byggt á kennisetningum trúarbragða en ekki vísinda SÞG.

Hornsteinn þessara bullvísinda er meint áhrif aukins magns CO2 í andrúmslofti á hnatthlýnun, sem þróunin undanfarin 15 ár hefur sýnt fram á að stenst ekki.

Náttúran sér sjálf um að hrekja þessi bullvísindi - hún er einfær um það.

Það liggja fyrir staðfestir útreikningar sem sýna fram á að engin hnattræn hlýnun hefur átt sér stað undanfarin 15 ár þrátt fyrir aukningu CO2 í andrúmslofti og erlendir vísindamenn skrifa nú lærðar greinar um möguleika á kólnandi veðurfari vegna minnkandi sólvirkni, en þú afgreiðir þá þróun sem "dálitla kólnun í fáeina mánuði".

Sú frétt sem ég vísa í hefur verið kyrfilega þögguð niður í íslenskum fjölmiðlum - og þú botnar auðvitað ekkert í því hvert ég er að fara þegar ég vísa í hana.

Fréttin sýnir einfaldlega að Ástralar eru búnir að fá nóg af aflátssölunni í kringum hið meinta spilliefni CO2. Þó eru þetta bara 25 ástralskir dollarar á hverja fjölskyldu á ári, skv. fréttinni.

Við Íslendingar höfum látið það yfir okkur ganga að vera skattlögð um tugi króna á hvern lítra eldsneytis á sömu bullforsendunum. Það er kominn tími til að fara áströlsku leiðina.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 19.7.2013 kl. 20:38

14 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ég biðst forláts á því að setja inn ótengt efni sem hefur ekkert með færsluna að gera Sigurður.

Þetta er bara svo Hilmar blessaður maðurinn fái eitthvað lesefni sem ekki tengist óstaðfestum staðhæfingum úr afneitunarheimi hans:

Mýtan um trúarbrögð í loftslagsvísindum - þar sem m.a. segir:

"Kenningin um að aukning gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu valdi hækkandi hitastigi er sú besta sem við höfum í augnablikinu til að útskýra þá hitastigshækkun sem orðið hefur í heiminum síðustu áratugi. Í raun hafa vísindamenn komið fram með að það séu mjög miklar líkur (yfir 90% líkur) á því að aukning gróðurhúsalofttegunda hafi valdið þeirri hækkun hitastigs sem orðið hefur síðustu áratugi. Þetta verða að teljast tiltölulega afgerandi ályktanir hjá vísindamönnum og okkur ber að taka þær alvarlega. Þetta snýst ekki um trúarbrögð heldur vísindalegar rannsóknir og niðurstöður."

og

What has global warming done since 1998? - þar sem eftirfarandi kemur m.a. fram:

"The planet has continued to accumulate heat since 1998 - global warming is still happening. Nevertheless, surface temperatures show much internal variability due to heat exchange between the ocean and atmosphere. 1998 was an unusually hot year due to a strong El Nino."

Sveinn Atli Gunnarsson, 19.7.2013 kl. 21:06

15 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hilmar: Ég var ekki að tala um hnatthlýnun eða kólnun eins og allir hljóta að sjá sem lesa þessa færslu. En ég nefndi í athugasemd að hlýtt hafi verið á Íslandi síðan 1996. Það er staðreynd en ekki bull eða kolvetnistrú og ég nefndi að ekki sé hægt að nota nokkra vikna eða mánaða kólnun frá þessum löngu hlýindum sem vitnisburð um sérstaka kólnunarþróun hvað sem síðar kann að verða. Skilurðu þetta ekki? Ert þú sá eini sem kemur inn á síðuna sem grípur ekki þetta einfalda atriði? Ég er að tala um hlýindin á Íslandi en ekki hantthlýnun sem hér hefur ekki verið til umræðu. Klifun þín á nokkrum bloggsíðum um kólnun, jafnvel þegar ekki er verið að fjalla um hana, blönduð háðsglósum og hnýtingum í einstaklinga og ekki svo litlu yfirlæti -''og þú botnar auðvitað ekkert í því hvert ég er að fara''-, án þess að þú leggir nokkurn tíma eitthvað fram efnislega gilt eða áhugavert til umræðunnar, er ekki bara orðinn þreytandi heldur beinlínis til lýta á þessum síðum. Það er undarlegt að ekki sé hægt að blogga um veður án þess að athugasemdadálkarnir fyllist af svona frumstæðu stagli.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.7.2013 kl. 22:19

16 identicon

Það er alveg til fyrirmyndar hvað þú temur þér mikla kurteisi og fágun í tilsvörum SÞG :)

"Svo finnst mér líka ástæðulaust að vera á þessari síðu að hnýta út í aðra bloggara..." skrifaðir þú einmitt í þessari umræðu(!)

Ég bið þig auðvitað auðmjúklega forláts á að vera að fylla kórréttu kolefnissíðurnar þínar af svona "frumstæðu stagli". . . ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 19.7.2013 kl. 22:26

17 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þú færð til baka það sem þú sendir frá þér.

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.7.2013 kl. 22:45

18 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Athugaverð frétt frá NASA, júnímánuður var annar hlýjasti á heimsvísu frá því mælingar hófust. Sá hlýjasti var 1998 þegar mjög sterkra El Nino áhrifa gætti. Núna er ENSO hlutlaust, samt virðist hnattrænn lofthiti stefna framúr 1998.

http://understandingclimatechange.com/nasa-globally-june-was-second-warmest-on-record.htm

Brynjólfur Þorvarðsson, 22.7.2013 kl. 07:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband