Vandræðagemsar á heimsmælikvarða

Kettir eru víst vinsælustu húsdýr mannanna.

Hér á landi hefur ekki verið kvartað vegna katta fyrr en á allra síðustu árum. 

Ég held að ekki séu meiri vandræði vegna þeirra en áður. En einhver vandræði geta stafað af öllu. Ekki síst vondu fólki. Og sumir kattaeigendur standa sig ekki.  

En umburðarlyndi gegn köttum hefur minnkað og andstyggilegur fjandskapur risið upp í þeirra garð sem minnir stundum í ofsa sínum og einstrengishætti á illvilja gegn innflytjendum eða útlendingum eða jafnvel moskum og múslimum.  Óþægindi vegna katta eru blásin út yfir allt velsæmi og farið er að draga upp mynd af þeim sem algjörum skaðræðisskepnum. Og þá er alveg strikað yfir það hvílíkt yndi þeir eru fyrir marga.  

Þetta ber vitni um minnkandi þolinmæði þjóðfélagsins. Gegn flestu sem lífsanda dregur! Nema eigin skinni. Eigin makindalegu sjálfhverfu innan um öll sín manngerðu leikföng. Það sýnir mnnkandi mannúð. Minna blíðlyndi. Meiri harðneskju. 

Bæjarstjóri Dalvíkur segir að  íbúarnir séu orðnir þreyttir á kattafári eins og hún kemst að orði. Hvaða íbúar? Varla  þeir sem eiga ketti og líta á þá sem bestu vini sína, hátt hafna yfir mannlegan fjandskap og óumburðarlyndi.

Fyrir utan einsýnina, takið þá eftir orðalaginu, kattaFÁRI sem bæjarstjórinn notar um tilvist katta á Dalvík. Ekki lýsir það miklu næmi á þessi fallegu og góðu dýr. Og ekki ber það vitni um sómasamlega yfirvegun eða lágmarks víðsýni. Við skulum gæta að því að þessum aðgerðum og orðum bæjarstjórans er beint gegn heimilisköttum og eigendum þeirra en ekki villiköttum. Það er ekkert fár af heimilsköttum neins staðar þó hugsanlega mætti nota það orðalag um villiketti. Að nota þetta orð án minnsta fyrirvara eða skýringa um heimilisketti er ótamið ofstæki.  

Mali minn lætur sér fátt um þennan málflutning finnast og segir fullum fetum að svona manneskjur eins og bæjarstjórinn á Dalvík og reyndar líka bæjarstjórinn í Kópavogi séu eitthvert mesta fár sem um getur í mannlegu og dýrslegu samfélagi. Vandræðagemsar á heimsmælikvarða!

Hann bætir því svo við að reglur um hvað eina verði að vera byggðar á einhverju skynsamlegu viti og raunsærri sýn á aðstæður. 

Kettir eru næturdýr að nokkru leyti. Og sumir kattaeigendur eru með kattalúgur. Fyrir nú utan það að kettir eru stundum lengi úti og ekki hægt að kalla á þá til að koma heim eins og krakka. Ótrúlegt að heil bæjarstjórn geri sér ekki grein fyrir því. Að ætla að stjórna næturferðum katta er ekki framkvæmanlegt. Nema þá með grjóthörðu ofbeldi. Og það er einmitt það sem verið er að boða með þessari fáránlegu kattasamþykkt, hvæsir hann Mali um leið og hann skýtur upp kryppu af fyrirlitningu á heimsku mannanna.

Og hvað á þá að gera í þeim tilvikum þar sem eigendur eiga nú þegar fleiri en tvo fullorðna ketti?

Drepa, drepa...

Það er eins gott að Guðrún Á. Símonar, kattavinurinn mesti, sé ekki enn á lífi og búi á Dalvík. Sú hefði aldeilis fengið að kenna á helförinni.

Ekki vildum við Mali búa á Dalvík. Ekki vildum við búa í bæ þar sem settar eru svona fánýtar en jafnframt grimmdarlegar reglur af yfirvöldum og íbúarnir láta það viðgangast eins og ekkert sé.

Eða gera þeir það kannski ekki!

 


mbl.is Kvótinn tveir kettir á heimili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband