Elsta veðurminningin

Þennan dag árið 1960 mældist mesti hiti sem mælst hefur í nútímahitamælaskýli í Reykjavík, 20,6 stig. Um það má lesa í þessari bloggfærslu.

En frá þessum degi er líka elsta veðurminningin sem ég á  hvað varðar veðurfarslegt atriði sem ég get dagsett upp á dag. Hef alltaf munað að um kvöldið var sagt við mig að í dag hafi mælst 21 stigs hiti í bænum.

Ég var tólf ára og hafði engan sérstakan áhuga fyrir veðri.

Sá áhugi kviknaði ekki fyrr en sumarið 1967, kannski eftir á að hyggja vegna veðurkortanna í sjónvarpinu sem þá voru nýlega farin að birtast.  Um vorið las ég Veðurfræði Jóns Eyþórssonar og eitthvað var ég byrjaður að fylgjast með veðrinu um það leyti.

Það var hins vegar nákvæmlega 11. júlí 1967 sem ég byrjaði að fylgjast kerfisbundið með daglegu veðri og hef gert það síðan. 

Mér er þessi mikla veðurdella mín hálfgerð ráðgáta. Ég var að verða tvítugur þegar hún kom yfir mig og hún er síðasta stóra áhugamálið sem ég hef tileinkað mér en ég hef mörg áhugamál. Og nú má segja að þetta sé það sterkasta.

Netið hefur auðvitað eflt þennan áhuga á seinni tímum en netið er það besta sem fyrir veðurdellumenn gat komið.

Mér finnst róandi að pæla í veðrinu. Það gengur bara sinn gang óháð vitleysisganginum í mannlífinu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já þessi veðurdella ágerist bara með aldrinum. En ætli það séu ekki skráningarnar sem viðhalda þessu. Því lengur sem veðrið er skráð því nauðsynlegra er að halda áfram.

Emil Hannes Valgeirsson, 15.5.2014 kl. 00:26

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Metið frá 1960 er líka eina landsdægurmetið sem Reykjavík á (ósköp einmana).

Trausti Jónsson, 15.5.2014 kl. 14:40

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Betra eitt en ekkert!

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.5.2014 kl. 17:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband