Páskahelgin

Nú ætla ég að koma hysterískum aðdáendum mínum ræklega á óvart. Í fyrsta lagi ætla ég að blogga um eitthvað annað en bölvuð móðuharðindi alla tíð. Í öðru lagi að lýsa því yfir að föstudagurinn langi finnst mér næstbestur allra daga. 

En bestur er páskadagurinn.

Ég skil ekki þetta tuð í mönnum hvað föstudagurinn langi hafi alltaf verið leiðinlegur alveg þangað til nú á dögum að bjórbúllur og súludansstaðir hafa opnað dyr sínar upp á gátt þennan dag. Hver bloggræfillinn á fætur öðrum hefur verið að vitna um það á sínum síðum hvað þeir hafi átt bágt í bernsku vegna þess að samfélagsumgjörðin var of  heillög og þeim ekki að skapi.

En ég spyr: Hefur þetta fólk ekkert við að vera inni í sjálfu sér? Engar bækur að lesa? Enga tónlist að heyra? Engar innri lendur að kanna?

Nú ætla ég að ganga fram af hysterískum aðdáendum mínum með því að fullyrða að helgi mikil og máttug leynist að baki tilverunnar. Hún er þar alltaf. En það er oft erfitt að finna hana í argaþrasi daglega lífsins. Menn þurfa líka að gera dáltið til þess að skynja hana. Í fyrsta lagi að þagna í huganum. Vera ekki að þessu eilífa þvaðri við sjálfan sig. Þá fylgir kyrrðin og friðurinn í kjölfarið. 

Aldrei liggur þó þessi helgi nær yfirborðinu en einmitt á föstudaginn langa og á páskadag. Þá er hægt að rétta bara út hendina til að grípa hana.

Það er mín óbifanlega reynsla. Og hún er samofin hlustun á háleitustu músik heimsins, passíur Bach og vitringsins Heinrichs Schütz, en á þær hlusta ég með andakt á föstudaginn langa. Og þegar ég segi andakt þá meina ég andakt.

Á páskadag vakna ég fyrir allar aldir, kveiki á kertum mínum við páskaliljurnar og læt geroríanskan munkasöng hljóma um sálina: Resurrexi. Þá finn ég samkennd við alla menn og allt sem lifir.

En það var nú ekki meiningin að verða svona væminn á þessum stað. Samt er þetta dagsatt.

Að þessu sinni barst mér líka falleg páskakveðja í morgunsárið frá einni árrisuli sál sem mundi eftir mér og það gerði páskana enn sætari en ella hefði verið.

Góðar hugsanir falla aldrei úr gildi.

Nú er allt hreint og tært. Nú er allt fagurt og fínt.   

Nú eru páskar um veröld alla. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

ég er svo mikið sammála þér! þeir sem borða páskaegg vita heldur ekki um betri dag

gleðilega páska

halkatla, 9.4.2007 kl. 17:53

2 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Er svo innilega sammála þér Sigurður minn.  Mætti ætla að værum skyldari en við erum. Hitt er svo annað mál og er mín skoðun, að hvorki þurfi að vera föstdagurinn langi eða páskadagur til að öðlast þögn í huganum og hamingjuna sem ávallt kemur að innan.

Þorkell Sigurjónsson, 9.4.2007 kl. 18:13

3 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Ég er á sama máli og þú Nimbus og Þorkell líka,  með það að það þarf hvorki föstudaginn langa nér né páskadag till þess að öðlast hamingjuna sem ávallt kemur að innan.
En þó verð ég a að bæta því við að fyrir 'innan' tel ég okkar guðlega eðli búa hvort sem það er aðeins hluti af okkur sjálfum eða sameiginlegt  með öllu því sem lifir og svo alheimssálinni sem við sameinumst við dauða okkar. að ég held.

Svava frá Strandbergi , 9.4.2007 kl. 18:32

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég var að tala um innantómleika - þið skiljið! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.4.2007 kl. 18:35

5 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Sigurður, þessi pistill var góður hjá þér og til eftirbreytni svo sannarlega.
Með kveðju frá Siglufirði, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 10.4.2007 kl. 05:41

6 identicon

Það er einmitt málið. Föstudagurinn langi.

Djúpur og dýrlegur dagur.

Leyfi mér að benda á pistil minn um daginn þann.

http://www.oliagustar.is/2007/04/06/22.46.48

Kveðja

Óli  Ágústar 

Óli Ágústar (IP-tala skráð) 13.4.2007 kl. 07:34

7 Smámynd: Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir

Það er gott að hlusta á tónlist og skynja það sem er æðra og fallegra.

Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 14.4.2007 kl. 08:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband