Hlýtt og blautt

Meðalhitinn það sem af er mánaðarins í Reykjavík er nú 4,9 stig eða 2,6 yfir meðallaginu 1961-1990 en 1,5  stig yfir meðallagi þessarar aldar. Á Akureyri er meðalhitinn 3,1 og er það 2,5 stigum yfir meðallaginu 1961-1990. Landsmeðalhita má lauslega áætla 2,2 stig yfir meðallagi þessarar aldar. 

Enn er mikið eftir af mánuðinum og kólnandi veður framundan. Þetta segir þvi ekki neitt um meðalhitann í mánaðarlok þó forskotið sé nokkuð.

Úrkoman í Reykjavík þessa fyrstu tólf daga er þegar kominn tæpa 3 mm yfir meðalúrkomu alls nóvembermánaðar árin 1961-1990. Hlutfallslega hefur mest úrkoma verið á suðvesturlandi. Mestu munar um úrkomuna í Reykjavík þann sjötta sem var 23 mm og þann ellefta en þá var hún 11,5 mm. Rignt hefur eitthvað alla daga mánaðarins. Reyndar hefur úrkoman verið mest síðla kvölds og að næturlagi. Aldrei hefur rignt meira en 5,7 mm frá klukkan 9-18 og var það þann 5. en aðra daga á þeim tíma hefur úrkoman aldrei náð tveimur millimetrum. 

Á Akureyri er úrkoma innan við 5 mm og svipað á sjálfvirku úrkomustöðinni á Möðruvöllum í Hörgárdal.

Að kvöldi hins fimmta fór hitinn í Reykjavík í 11,0 stig en eftir reglum Veðurstofunnar verður sá hiti bókfærður til þess sjötta og er þá jafn mesta hiti sem mælst hefur þann dag í borginni frá a.m.k. 1948, ásamt 6. nóvember 2007, en ef miðað er við þann fimmta er hann mesti hiti sem mælst hefur þann dag sömu ár. Þrettán stiga hiti hefur reyndar mælst seint í nóvember í Reykjavík og tólf stig tvo daga í desember, sá síðari svo seint sem 14. desember 1997.

Snjólaust má heita í byggð. Hvergi er alhvít jörð en lítillega flekkótt í Svarfaðardal, Svartárkoti, Vopnafirði og Borgarfirði eystra. Ekki er hægt að segja að veturinn hafi enn komið yfir landið. En auðvitað kemur að því.

Og í þessum skrifuðu orðum byrjaði að snjóa í Reykajvik og er jörð að verða hvít! 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband