Skólabókardæmi um blíðviðri og ekki blíðviðri að vetri

Menn hafa verið að lofa kuldann sem var í gær og fyrradag, meira að segja veðurfræðingar í sjónvarpinu, og kallað það fallegt vetrarveður og jafnvel "veðurblíðu". En í dag er bjart og stillt veður í Reykjavík og kominn 4 stiga hiti. Það er bara veður í allt öðrum og betri gæðaflokki en kuldinn sem var en samt er auðvitað sami veturinn.

Enginn er þó að lofa sérstaklega þetta (alvöru) góðviðri að vetrarlagi en menn virðast alveg óskaplega veikir fyrir mjög köldum dögum. Þá er gjarnan talað um "veðurblíðu" fyrir nú utan alla fegurðina sem menn lofa þá hástöfum.

Með allri virðingu blæs ég á þennan veðursmekk! Þetta er einfaldlega vondur veðursmekkur!

Svona eins og að taka Justin Bieber fram yfir Bítlana.

Þessi veðurbreyting sem nú hefur orðið er reyndar alveg skólabókadæmi um þann mun sem getur verið á vetrarveðri sem út um glugga virðist þó vera svipað. En það er alveg furðulegt að alltaf hlaupa menn upp og tala um "veðurblíðu" þegar kuldinn ríkir en eins og þeir skynji bara ekki hvað veður eins og er í dag er honum mikla æðra og betra!

Ég hef áður vikið að þessu atriði hér á blogginu, hvað mönnum sé tamt að tíunda vetrarkulda sem veðurblíðu en láti sér fátt um finnast þegar svo alvöru blíða kemur að vetrarlagi.

En nú kom einstaklega gott tækifæri til að árétta hvað ég á við.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Ja, ég kalla það nú veðurblíðu ef það er ekki endalaus ofankoma, glórulaus blindbylur, kafald og svo bullandi ófærð í öllu amti míns heimabæjar svo ekki úr augum sjái...hvar ég svosem bý. - Ég þakka fyrir öll vetrarveður sem ekki líta svona út sem ofan er talið.  -"Skítt með að skafa, skítkulda hafa / Bara ef ekki þarf snjóskafla grafa..."

Már Elíson, 21.11.2015 kl. 22:11

2 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Ég kalla kyrrt veður að vetri til með frosti ,,styllur" en þá er oftast skíta ryk á höfuðborgarsvæðinu og það er ekki blíða í mínum huga.

Svoleiðis veður fram til dala á norðurlandi með norðurljósum og styllum að vetri til gat verið gaman að leika sér úti við og ímynda sér álfa og allskonar.

Þorsteinn H. Gunnarsson, 21.11.2015 kl. 23:00

3 Smámynd: Birnuson

Amen. Aftur á móti er skilgreining Íslendinga á veðurblíðu þannig: kyrrt veður og bjart, m.ö.o. sólskin og vindur helst ekki meiri en 5m/s. Staða hitamælis skiptir engu.

Birnuson, 23.11.2015 kl. 20:51

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Staða hitamælis skiptir öllu að mínu áliti. Kyrrviðri er ekki það sama og blíðviðri. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.11.2015 kl. 09:14

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Og ef bjart hægviðri með miklu frosti er kallað veðurblíða hvað ætla menn þá að kalla bjart hægviðri daginn eftir með nokkra stiga hita? Þegar mestu frostin voru 1918 var logn og bjart. Var það blíðviðri? Þessi notkun á orðunum blíðiviðri eða blíðskaparveður um bjart og hægt kuldaveður er mótsagnakennd. En kannski fyrst og fremst hugsunarlaus.

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.11.2015 kl. 09:29

6 Smámynd: Birnuson

Hér erum við auðvitað sammála. Veðurblíða er milt veður. Það sögðu líka Cleasby og Vigfússon í orðabókinni sinni sem kom út árið 1874 og skilgreindu blíðu sem balminess of the air. Sama ár er þetta prentað í „Tímanum“ (11. febrúar):

29. gekk í útsynning með jelagangi í 2 daga, og spillti högum, en aptur hreinsuðust nokkuð hagar f mara þeim er kom 31. s. m. Síðan hefur verið veðurblíða með frosthægðum. Í gær og í dag er mara hláka.

Birnuson, 24.11.2015 kl. 12:45

7 Smámynd: Birnuson

Og svo þetta dæmi um alvöruveðurblíðu að vetri (úr „Samvinnunni“, 1. desember 1976):

Til dæmis um veðurblíðuna má nefna það, að við fórum i berjamó á Felli á annan dag jóla 1925, og tíndum eina tvo lítra af krækiberjum.

Birnuson, 24.11.2015 kl. 22:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband