Mesti og minnsti hiti á Akureyri frá 1882, sólarstundir og úrkoma

Hér birtist mesti og minnsti hiti hvers mánaðar á Akureyri frá upphafi mælinga 1882, heildarúrkoma í hverjum mánuði og mesta sólarhringsúrkoma hvers mánaðar og auk þess fjöldi sólskinsstunda.  

Hámarks-og lágmarksmælingar féllu niður á Akureyri frá 1913 og allt til  1928 þó veðurstöð væri á staðnum. En árið 1907 var byrjað að senda veðurskeyti frá bænum og var það önnur veðurstöð á öðrum stað en sú sem fyrir var. Þar voru ekki hámarks-eða lágmarksmælingar en lesið á hitamæli nokkrum sinnum á dag frá morgni til kvölds. Stundum kom það fyrir að einhver álestur sýndi meiri eða minni hita í viðkomandi mánuði en aðalveðurstöðin og er það þá sýnt hér til hliðsjónar í flipum. Árin 1913 til febrúar 1916 (með gloppum) er hitinn sem hér er birtur aðeins það hæsta og lægsta sem lesið var á þennan mæli  í mánuði hverjum á athugunartímum. Frá mars 1916 til 1928 eru hins vegar engar hámarks-eða lágmarkstölur af neinu tagi að hafa frá Akureyri, fyrir utan þrjár sem hér eru teknar úr bókinni Veður á Íslandi í 100 ár eftir Trausta Jónsson. 

Í staðinn er hér fyrir þessi ár birtar tölur frá Möðruvöllum í Hörgárdal en þar voru fullkomnar hámarks-og lágmarksathuganir gerðar allan sólarhringinn. Þetta er auðvitað ekki sama stöð og Akureyri og kuldar verða þarna meiri en á Akureyri, en þetta er haft hér með til að menn hafi einhverja hugmynd um það sem var að gerast í hæsta og lægst hita í Eyjafirði þessi ár. Frá 1928 og áfram (með miklum eyðum fyrsta árið) eru svo hitatölurnar allar frá Akureyri til þessa dags. Allt er þetta engan vegin eins flókið og það sýnist vera við lesturinn þegar litið er á töflurnar sjálfar. Hvað menn endilega geri.       

Úrkomumælingar hófust ekki á Akureyri fyrr en 1928 en frá Möðruvöllum eru hér birtar úrkomutölur frá því í september 1913 og fram í febrúar 1926. Frá 1828 eru úrkomutölurnar allar frá Akureyri. Fjöldi úrkomudaga í sérhverjum mánuði er birtur með heildarúrkomunni. 

Allar skiptingar milli Akureyrar og Möðruvalla eiga að vera kristaltærar í töflunum. 

Loks er hér að finna fjölda sólskinsstunda í hverjum mánuði á Akureyri frá því í ágúst 1925. Leiðinlega miklar eyður eru þó í mælingunum fyrstu árin og aftur í kringum 1950.

Hitamælingarnar eru á blaði 1 í meðfylgjandi skrá, úrkoman á blaði 2 og sólin á blaði 3.     

Heimildir: Meteorologisk  Aarbog, 1882-1919, sem danska Veðurstofan gaf út, Íslenzk veðurfarsbók 1920-1923, sem Veðurfræðideild Löggildingarstofunnar í Reykjavík gaf út, Veðráttan, mánaðar-og ársyfirlit Veðurstofu Íslands frá 1924 og frá júlí 2003 Veðurfarsyfirlit  Veðurstofunnar. Tölurnar frá 1913-1916 fyrir Akureyri og tölurnar í flipunum eru úr dularfullu leyndarskjali frá Veðurstofunni.

 

Allar villur sem hér munu hugsanlega finnast eru á ábyrgð bloggarans. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband