Septembersnjór á suðurlandi

Það er ekki oft sem jörð er alhvít á suðurlandi í september. Það gerðist þó í morgun eins og lesa má á Veðurvaktinni. 

Við það sem þarna er skrifað má bæta því að snjódýpt var mæld 2 cm á Hæl í Hreppum í morgun þó jörð væri ekki talin alhvít heldur flekkótt. Þarna  voru snjómælingar árin 1931-1946 og aftur frá 1983 en aldrei verið annað en alauð jörð í september á þessum tíma - nema 1969.

Og í dag gerði ég óþægilega uppgötvun, sem ég undrast að hafa ekki veitt fyllilega gaum áður, hvað varðar snjómetin sem Veðurvaktin vísar til hér á minni bloggsíðu. 

í Veðráttunni, en þaðan hef ég safnað efninu í snjómetatöflurnar, er fjöldi alhvítra daga hvers mánaðar talinn í hverju mánaðaryfirliti, þannig koma þessir dagar fram í yfirliti hverrar veðurstöðvar   í septembermánuði hafi snjór verið talinn á jörðu í þeim mánuði. Nánari upplýsingar koma ekki fram í mánaðaryfirlitum Veðráttunnar eftir 1956 en þangað til gerðu þær það. Í Ársyfirliti er hins vegar greint meira frá snjónum frá og með 1957, meðaltali snjódýptar, hversu djúp var mesta snjódýptin og hvaða dag það var.  

En - og hér koma vandræðin inn - oftast byrjar þessi snjódálkur í Ársyfirliti í október en ekki september og þess vegna gerist það að ekki er þar getið um snjóinn sem fallið hefur í september þegar það gerist. Engar upplýsingar eru þá um þann snjó nema þær sem áður voru komnar í septemberyfirliti en það eru aðeins fjöldi alhvítra daga og snjólagsprósentan, ekki hvað mest var mælt og hve nær.

Nú sést í septemberblaði Veðráttunnar 1969 að mjög víða var snjór á jörðu á suðurlandi í þeim mánuði en ekki er orð um það nánar í ársyfirlitinu. Afleiðingin er sú að þó víst sé að dagur eða jafnvel dagar voru alhvítir þennan mánuð á veðurstöðvum á suðurlandi t.d. á Kirkjubæjarklaustri, Stórhöfa í Vestmannaeyjum, Vík í Mýrdal og Hæli í Hreppum er ekki hæg að sjá snjódýptina í prentuðum gögnum Veðurstofunnar.

(Mesta snjódýptin í Reykjvík í september, auðvitað frá 1969,  í almennametabálkinum hjá mér er ekki komin úr Veðráttunni (eina talan) heldur úr riti Trausta Jónssonar "Veðurfar í Reykjavík"  sem Skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins gaf út árið 1986).   

Þetta veldur því að septembersnjódýptin í metatöflunni minni var ófullkomin. Þar vantaði hreinlega snjómet í september á nokkrum stöðvum þó snjór hafi örugglega verið á jörðu, aðallega árið 1969. Ég hef nú sett ártalið inn fyrir viðkomandi stöðvar í töflunum þar sem sést í Veðráttunni í september 1969 að alhvítt hafi orðið og þá eini septembersnjórinn sem vitað er um á viðkomandi stöð, en dýptardálkurinn og dagsetningardálkurinn eru áfram auðir.

Til þess að bæta svolítið fyrir þessa ófullkomnun -sem reyndar var ekki á mínu valdi að gera fullkomnari  að svo komnu máli - birti ég hér töflu sem tilgreinir öll þau skipti sem sem jörð hefur verið alhvít einhvers staðar á suðurlandi frá Hornafirði til Akraness frá árinu 1924. (Hafa verður í huga að snjómælingar voru gerðar á mjög fáum stöðu á þessu svæði alveg fram yfir 1960) Áfram eru dýptar- og dagsetningardálkarnir sums staðar þó auðir af því að upplýsingarnar sem þar ættu að standa hafa ekki birst í Veðráttunni.

Einnig hef ég dregið út sjómetin úr almenna veðurmetabálkinum og er þá hægt að sjá hér út af fyrir sig snjómet allra mánaða á ýmsum veðurstöðvum en ekki öllum vel að merkja.

Þetta er svo alls ekki jafn flókið og það virðist vera - fyrir hina innmúruðu og innvígðu!   

 

       


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband