Byrjenda blogg

Sá sem hér hefur síðustu daga verið að brölta sín fyrstu bloggspor lét skrá  sig inn með síðuna 20. júlí í glaðasólskini og blíðu í ofur bjartsýniskasti. En þegar hann sá eitthvert óskiljanlegt stjórnborð  og aðrar hremmingar sem hann botnaði ekki nokkurn skapaðan hlut í missti hann gersamlega móðinn, hrökklaðist öfugur út af síðunni og örvænti mjög um sinn blogghag. Hann beið svo hnugginn og hnípinn næstu vikur eftir vini sínum sem hafði lofað að leiða hann um alla leyndardóma bloggsins. En sá góði mann gleymdi sínu loforði og fór á fyllerí í útlöndum. Og bloggbusinn snérist bara ráðalaus um sjálfan sig. 

En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Einn morgun fyrir viku var því eins og hvíslað að bloggaranum að kíkja nú aftur smávegis á bloggsíðuna sína. Og viti menn! Allt í einu lá honum í augum uppi að það væri ekki minnsti vandi að blogga. Það geti nú bara hvaða fæðingarhálfviti sem er. 

Og nú bullar upp úr honum óstöðvandi bloggbunan frá morgni til kvölds. Flest af þvi er engan vegin birtingarhæft og er því vandlega dulkóðað hér á síðunni. Afganginn getið þið lesið.  

Þetta eru þó bara einfaldar byrjendaæfingar. Ekki svo að skilja að bloggarinn stefni að því að verða einhver þungavigtarmaður í bloggelíblogg. Öðru nær. Hann ætlar sér þvert á móti að verða bara vesæll léttfjaðurvigtarmaður  í blogginu sínu og mun einskis svífast til að ná því göfuga takmarki!       


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég finn mig knúna til þess að vara þig við. Samkvæmt ellefta bloggboðorði Pönkarans, þá hendir margan góðan drenginn að "blogga yfir sig". Þar á ég við að Siggi "........." uppveðrist svo ofsalega yfir tæknikunnáttu sinni (é ræt) að hann bloggi eins og andskotinn sjálfur með skoteld í óæðri endanum hundrað færslur á dag þar til allt í einu að bloggandinn hverfur bara úr brjóstinu á honum og hann getur ekki meir.

Það viljum vér pönkarar og bókstafstrúarmenn alls ekki hafa.

Annars

Bloggið er stórskemmtilegt, einsog raunar bloggarinn sjálfur. Merkilegt nokk - þetta fylgist stundum að.

Tóta pönk (IP-tala skráð) 13.9.2006 kl. 21:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband