Óþægilegur sannleikur

Nú er ég búinn að sjá bíómyndina Óþægilegur sannleikur eftir hann Al Gore. Hún er ágætt. Boðskapurinn kemst skýrt til skila og sögumaðurinn er skemmtilegur, þægilegur og ótrúlega bjartsýnn. Að vísu er hann dálítið gormæltur í framsetningu sinni á stundum, eins og t.d. þegar hann fjallar um færibandið svokallað í heimshöfunum og bráðnun Grænlandsjökuls sem maður hafði á tilfinningunni, þegar horft var á myndina, að mundi bara gerast á næstu dögum svo allt færi í kolgrænan sjó fyrir jól. 

Sama dag og ég sá myndina  keypti ég líka bókina með sama nafni eftir þennan Gore. Ég er sem sagt engan veginn eins þröngsýnn og forfómafullur og af er látið og vl alls ekki láta bendla mig neitt við þessa “svokölluðu efasemdarmenn”  - niður með þá -  því ég efast alls eigi um það að jörðin okkar hafi hitnað upp úr öllu valdi síðustu árin og sú umbreyting sé svo stórkostleg að hún hljóti að stafa af einhverri mikilli ónáttúru. Hins vegar efast ég stórlega um það að sumir þeirra sem eru í fjölmiðlum að fjalla um hin og þessi veðursins uppátæki og eru ósparir á hiklausar útskýringar um orsakakirnar séu nú alltaf á réttustu nótunum.

Og tölvan mín er alla vega ekki með á nótunum síðan hún hentist á gólfið um daginn. Á morgun mun hún annað hvort verða lögð inn á hæli eða sérþjálfaðir tölvulæknar og sjúkraliðar munu koma hingað heim og hjúkra henni til heilsu merð lipurð sinni flínkri og óskiljanlegri lempni. Ætli verði ekki að taka úr henni bæði svilin og vilin og setja ný í staðinn. 

Í kvöld fór ég svo á fyrstu tónleika Kammermúsikklúbsins í vetur. Og ég var þar í boði klúbbsins og fann óskaplega mikið til mín. Ekki spillti það að ég var núna ekki neinn bannsettur gagnrýnandi útblásinn af hroka og besservissershætti, heldur þvert á móti ljúfur og litillátur, slappaði algjörlega af meðan spilverkið stóð yfir og vissi hvorki í þennan heim né  annan.  

Og þetta voru alveg magnaðir tónleikar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband