Einhver allra hlýjasti september í Reykjavík

Nýliðinn septembermánuður er einn af þeim fimm hlýjustu sem mælst hafa í höfuðborginni síðan sæmilega áreiðanlegar mælingar hófust kringum árið 1830. Mðalhitinn er 10,5 stig. Hlýrri voru september 1939, 11,43 stig, 1958, 11,37, 1941, 11,1 stig. Næstir koma september 1996, 10,4 stig, 1850, 10.2 og 1901, 9,8. Meðalalhiti september í Reykjavík árin 1961-1990 var aðeins 7,3 stig en 8,6 árin 1931-1960 og líka síðustu tíu árin (með þessum).

September 1996 var sá hlýjasti fyrir norðan og austan síðan 1939 og 1941, meðalhitinn á Akureyri var 11,4 stig. Mánuðurinn var reyndar sá þriðji hlýjasti frá 1882. En slíkum yfirbuðrum er ekki að heilsa núna enda voru austanáttir mjög algengar að þessu sinni en sunnanáttir voru ríkjandi 1996. Mánuðurinn var að vísu hlýr núna fyrir norðan en ekki einn af þeim hlýjustu. Árið 1996 var hlýji septemberinn í Reykjavík sá næst sólarminnsti sem þar hefur komið frá því farið var mæla. Núna var hins vegar stundum sól og blíða og voru  sólskinsstundirnar 85. 

Vegna þessa fyrirmyndar septembers varð sumarið, júní til september, líka eitt af þeim hlýjustu í Reykjavík, að minnsta kosti frá stríðslokum. Hlýrra varð þó 2004 og 2003, 1958 og svipað 1960. 

Og við skulum svo bara kætast yfir góðærinu meðan kostur er. Það fer víst að styttast í að Golfstraumurinn gefi sig og hér verði álíka kalt og á Baffinslandi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband