Úr dagbókinni 23. janúar 1973

Klukkan hálf fjögur í nótt hringdi Yngvi bróðir hingað og sagði að Yngvi frændi hefði hringt og sagt að tekið væri að gjósa í Helgafelli í Vestmannaeyjum. Svo furðulegar fannst okkur þessar fréttir að við trúðum þeim ekki almennilega fyrr en við höfðum hringt í lögregluna og fengið þær staðfestar þar. Við kveiktum þá á útvarpinu. Það hófst um um kl. 4. Þar var útvarpað orðsendingu til allra Vestmannaeyinga að hraða sér til hafnarinnar. Síðan kom lýsing á þessum atburðum.

Gosið er sprungugos, 1500 m langt austan í Helgafelli Gýs á allri sprungunni þunnu flæðigosi. Frá Reykjavík voru þrjú flutningaskip send til Eyja en var brátt snúið við er í ljós kom að floti Eyjamanna, Þorlákshafnar og Grindvíkinga var þess megnugur að sinna öllum flutningum frá Eyjum. Um kl. 4 fóru fyrstu bátarnir og komu til Þorlákshafnar um klukkan hálf átta og um hádegið voru nær allir Vestmannaeyingar komnir til Reykjavíkur. Gekk allt björgunarstarfið að óskum og ótrúlega hratt og urðu engin slys á mönnum. Og í kvöld var búið að koma nær öllum fyrir á einkaheimilum í Reykjavík.

EldfellSjónvarpið hafði aukafréttir kl. 13 og kl. 23.30 auk þess sem rækilega var greint frá þessum atburðum kl. 20. Var sannarlega óhugnalegt og ægifagurt að sjá þessar villtu hamfarir við svo að segja bæjardyr Vestmannaeyinga. Gosið hefur færst í aukana og sprungan lengst í báða enda en gosið er nokkuð breytilegt. Þessir atburðir kunna að hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Engin leið er til að sjá fyrir um hvernig það mun þróast né heldur hve lengi það stendur. Ég vona að forsjónin hlífi minni fögru fæðingarbyggð við tjóni og landsspjöllum.  ... Ég svaf ekki dúr í nótt en tókst að blunda í þrjá tíma í dag. 

Svo segir dagbókin mín 23. janúar 1973 þegar gosið hófst á Heimaey. Á þessum tíma bjó ég á Akranesi.  Ljósmyndin er eftir Svein Eiríksson og er víða að finna á netinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Þetta er mjög fróðlegt.  Ég var í Eyjum vikuna fyrir gos og var nýkominn heim þegar gosið hófst. Ég vaknaði upp um nóttina við mikla flugumferð yfir Reykjavík og kveikti á útvarpinu...

Sjá blogg mitt í dag um skjálftavirkni fyrir gosið. 

Ágúst H Bjarnason, 24.1.2008 kl. 12:55

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Takk fyrir þetta Ágúst. Þetta er alveg stórmerkileg lýsing.

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.1.2008 kl. 13:44

3 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Það var svo undarlegt að þessa nótt glaðvaknaði ég klukkan að verða fjögur. Mér fannst að það væri mjög brýnt að kveikja á útvarpinu sem var á náttborðinu hjá mér og var ég þó ekki vön að hlusta á útvarpið um nætur.
Um leið og ég kveikti á útvarpinu byrjuðu fyrstu fréttir af gosinu í Vestmannaeyjum. Ég gleymi aldrei óhugnaðar tilfinningunni sem kom yfir mig.
Mig hafði dreymt nokkru áður en engum sagt frá því að ég væri að fljúga á töfrateppi yfir Heimaey, sem stóð í ljósum logum. Fólk stóð uppi á hólum og hæðum og reyndi að komast uppá teppið mitt sem flaug mjög lágt. Ég var mjög hrædd í draumnum því ég vissi að töfrateppið bæri ekki fleiri menn en mig.

Svava frá Strandbergi , 24.1.2008 kl. 23:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband