Hamingja og óhamingja

Mikil grein er um hamingjuna í Morgunblaðinu í dag. Þar kemur fram að kannanir segja að eftir að komið er yfir fátæktarmörk eykst hamingja manna ekki með betri efnum. Önnur könnun leiddi í ljós að Íslendingar séu með hamingjusömustu þjóðum. Í Moggagreininni kemur fram að hér sé efnishyggjan ríkjandi, eftirsókn eftir efnislegum gæðum í lífsgæðakapphlaupinu sé allsráðandi. Einnig er sagt frá könnunum sem sýna að mikil eftirsókn eftir slíkum gæðum "bæli hamingjuna", komi sem sagt í veg fyrir hana. 

Þá stöndum við frammi fyrir mótsögn: Mikil eftirsókn eftir efnalegum gæðum kemur í veg fyrir  hamingjuna. Íslendingar eru algerlega á valdi þess að sækjast eftir efnislegum gæðum. Íslendingar geta því ekki verið hamingjusamir.

Samt segir þessi gamla könnun að þeir séu einna hamingjusamastir þjóða.

Það hlýtur reyndar að vera erfitt að mæla hamingju heilla þjóða. Hamingjan er svo huglæg og einstaklingsbundin að hún er algjörlega ómælanleg. Í raun og veru er það ruglandi að tala um hamingju þjóða. Fremur ætti að tala um lífsgæði. Þau eru mælanleg samkvæmt stöðluðum kvörðum.  

Ekki ætla ég að reyna að svara þeirri spurningu í hverju hamingjan sé fólgin. Ég held þó að hún sé ekki endilega það að finna einhvern "tilgang í lífinu". Í greininni í Morgunblaðinu er mikið lagt upp út bók Viktors Frankl um tilgang lífsins sem mér hefur alltaf fundist ósannfærandi og slöpp bók.

Mér finnst bækurnar hans Eckhart Tolle meira áhugaverðar hvað hamingjuna varðar þó ég skilji ekki allt sem hann er að segja og efist um annað. Hann leggur áherslu á það að lifa í núinu og vera ekki að keppa að einhverju. Spurningin um tilgang vaknar þá ekki sem eitthvað afgerandi. Ég held líka að trúarjátningar auki ekki hamingju manna. En trúarleg upplifun gæti hugsanlega gert það. Samt hef ég grun um að margt það sem menn telja andlega eða trúarlega reynslu sé byggt á sandi, einhverju tilfinningaróti, og bresti þegar verulega reynir á. En ekki í öllum tilvikum.   

Annars finnst mér óhamingjan miklu merkilegri en hamingjan. Fyrst og fremst vegna þess að hún virðist svo algeng og áberandi hvar sem maður lítur í kringum sig. Samt er það svo einkennilegt að hún er hálfgert feimnismál. Enginn kemur fram og segir: Ég er óhamingjusamur og hef verið það mest alla ævina. Og er það þó hlutskipti æði margra. En menn veigra sér við að segja það beinum orðum en segjast kannski vera þunglyndir eða eitthvað vegna þess að ef þeir töluðu um óhamingju  yrði litið á þá með hálfgerðri óvirðingu. Jafnvel líkt og þeir væru að játa fíkniefnaneyslu eða eitthvað annað ámælisvert. Þess vegna þykir það sjálfsagt að blekkja í þessum efnum og segja: Ég er sáttur og hamingjusamur í lífinu. Oftast virkar það á mig eins og þegar menn segja: Ég ber ekki kala til nokkurs manns. Þegar menn segja það er nokkurn veginn víst að þeir eru að ljúga, oftast alveg meðvitað en stundum kannski ómeðvitað. Við höfum mjög sterka tilhneigingu  til að afneita hreinlega erfiðum tilfinningum, allri óhamingjunni. 

Ég efast stórlega um meinta hamingju minnar vesalings þjóðar.

Þjóð sem notar meira af geðlyfjum en flestar aðrar þjóðir er varla mjög hamingjusöm. Ekki heldur þjóð sem alltaf er blindfull um hverja helgi og er að springa af stressi. Þjóð sem hefur ekki tíma til að sinna börnum sínum almennilega eða njóta samvista við aðra og því um síður að kynnast sjálfri sér. Þjóð sem ærist upp í popprugli og laugardagslögum.

Jæja, það er best að setja sig ekki á hærri hest en þetta!

Allt sem hér er sagt er með fyrirvara og án ábyrgðar. Þetta er viðfangsefni sem krefst yfirlegu og umhugsunar.

Og ég er nú svo stressaður að ég nenni ekki að standa í því. 

En ég ætla þrátt fyrri allt að klykkja út með myndrænu spakmæli um hamingjuna.

Hamingjan felst í því að hver maður finni sinn Mala í sjálfum sér.

smile%20cat 

 

 

orpðum

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband