Þjóðskjölin á netið!

Í Spegli Ríkisútvarpsins í gærkvöldi kom fram að Norðmenn geta skoðað þjóðskjölin sín á netinu. Þeir geta því m.a. grúskað í kirkjubókum og manntölum bara heima í stofu hjá sér.

Þessu er öðru vísi farið hér á landi. Menn verða að gjöra svo vel að arka á söfnin til að skoða manntölin en kirkjubækurnar sjálfar eru aðeins til á Þjóðskjalasafninu í Reykjavík. Ljósrit mormóna af þeim munu þó einnig vera til á einhverjum öðrum söfnum, en varla mörgum. Það er annars óþolandi að  eiga við þessar ljósmyndavélar. Helmingur tímans fer í vélavesen. Algjör martröð! Tvö íslensk manntöl er hægt að skoða á netinu á takmarkaðan hátt, árið 1703 og 1835. Menn verða að slá inn þröngum leitarorðum sem margir kunna áreiðanlega jafnvel engin skil á, svo sem mannanöfnum og nöfnum á hreppum árið 1703. Það er ekki hægt að fletta manntölunum síðu fyrir síðu eins og tímaritunum á Tímarit is. Þetta er þó nauðsynlegt því oft hafa mennn óljósar hugmyndir um það sem þeir eru að  leita að og verða að þreifa sig áfram, fletta fram og til baka í manntölunum. Það er með ólíkindum að safnið skuli ekki hafa áttað sig á þessu þegar það setti manntölin á netið. 

Ástæðan fyrir því að við getum ekki lesið þjóðskjölin okkar á netinu er sú að Þjóðskjalasafnið vantar mannafla sem kostar peninga til að vinna alla þá vinnu sem til þess þarf.

Hvernig væri þá að fjárveitingarvaldið bætti snarlega úr þessu? Það er sóað í annað eins.

Það er reyndar þjóðarskömm hvernig lengi hefur verið búið að Þjóðskjalasafninu. Oft hefur verið á það bent en enginn tekur við sér sem hefur vald til að bæta þar úr. Líklega þarf safnið að verða fyrir skemmdum, til dæmis að brenna til ösku, til að menn lyfti upp litla fingri til umbóta líkt og raunin varð með Náttúrugripasafnið.

Sú niðurníðsla sem Þjóðskjalasafnið er í lýsir auðvitað menningarástandi þjóðar sem á nóg af peningum og sukkar og svallar eins og henni væri borgað fyrir það, sem er víst tilfellið,  en skeytir lítið um undirstöður menningar sinnar.

Þetta nöldur minnir mig á það að Íslendingabók ætti að sjá sóma sinn í að opna aðganginn meira en raun er á. Hann er svo takmarkaður að það er óskiljanlegt, aðeins nánustu ættingja sína getur hver og einn skoðað. Það væri skárra að selja almennilegan aðgang í áskrift heldur en hafa þessa ómynd. Ekki þekki ég ástæðuna fyrir þessum hindrunum. Kannski Púkinn viti um þær!

Og þá kemur persónulega rúsínan í pylsuendanum.  Fyrir tíu árum rauk ég í það að rekja frændgarð minn, ættir frá öllum langalangöfum mínum og ömmum. (Dúkkuðu þar upp ýmsir furðulegir fuglar og kynjakvendi, sumir landsfrægir hálfvitar). Samtals átta ættbogum. Það var gaman en tók sinn tíma, nokkur ár og margar og þreytandi vinnustundir á þessu fáránlega Þjóðskjalasafni í  vélunum sem útheimta erfiðsvinnu til að snúa þeim með tilheyrandi vöðvabólgu. Einhver minni háttar atriði eru enn ófrágengin hjá mér, einkum með fólk sem fluttist til útlanda. Ég rakti líka framætt mína aftur til írskra konunga en þeygi þræla og ambátta.

Ég er sem sagt konungsborinn og hef blátt blóð í æðum. Framkoma fólks við mig, ekki síst hysterískra aðdáenda minna og kemmentara á blogginu, ætti að taka mið af því! 

Já, eitt nöldurefnið í viðbót: Þjóðskráin ætti endilega að setja íbúaskrár á netið. Ég skil ekki rökin fyrir því að hún hefur takmarkað aðgang að þeim á netinu frá því sem áður var en áfram er hægt að valsa um  þær allar í prentuðu útgáfunum. Rökin voru víst til að bægja frá auglýsendum eða eitthvað. En það væri hægt að opna með skilyrðum, t.d. fyrir þeim sem eru að rekja ættir manna. 

Þá hef ég loksins skrifað það sem mig hefur lengi langað til að koma á framfæri um Þjóðskjalasafnið, Íslendingabók og Þjóðskrána.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

þarna náðirðu þér í gott nöldur og eðal fjas. gott mál, því fjas er til framdráttar

ég er hjartanlega sammála. það er ekki nóg að hafa í frammi lofræður um menningararfinn. láta svo allt drabbast niður á sama tíma. þá er ég að tala um ráðamenn þjóðarinnar. auðvitað á þetta að vera aðgengilegt á netinu. kommon, 21. öldin er gengin í garð.

Brjánn Guðjónsson, 6.2.2008 kl. 12:28

2 Smámynd: Púkinn

Tja, hvað Íslendingabók varðar, þá erum við í raun þegar á ystu nöf með gagnabirtingu, þegar tekið er tillit til þess sem persónuverndarlögin leyfa.   Stóra vandamálið við íslensku lögin er að þau gera ekk ráð fyrir því að viðkvæmar persónuupplýsingar fyrnist.

Hvað manntölin varðar þá fékk Þjóðskjalasafnið nú pening til að láta tölvuskrá þau, þannig að það horfir til bóta.  Sjálfur hef ég manntölin 1703, 1729, 1801, (1816), 1835, 1845, 1860, 1870, 1880, 1890, 1901, 1920 og 1930 á tölvutæku formi, auk "endurunnins" glataða hluta manntalsins 1870 (unninn úr sóknarmanntölum 1869-1871), skattbændatalsins 1681 auk þess sem við erum núna að tölvuskrá bændatölin 1735, 1753 og 1762.

Púkinn, 6.2.2008 kl. 15:56

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Takk fyrir þetta Púkinn þinn! Mér finnst persónuverndarlögin of ströng þegar um upplýsingar af svona tagi er að ræða.

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.2.2008 kl. 16:16

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég hlustaði á þetta í Speglinum og tek undir hvert orð sem þú segir þarna. Við eigum að hlú miklu betur að þeim menningarverðmætum sem felast í Þjóðskjalasafninu - enda státum við okkur af því á tyllidögum að vera forn "menningarþjóð". Ef heldur sem horfir í sukkinu og rænuleysinu verða öll þessi verðmæti farin fjandans til innan skamms.

Ég er mikill aðdáandi Púkans og alls þess sem hann hefur gert (nota  bæði púkann og vírusvörnina hans), enda munum við eiga það sameiginlegt að hafa áhuga á tölvum og ættfræði. Hann er þó margfalt lengra kominn og klárari í hvoru tveggja en ég.

Espólínið Púkans eignaðist ég fyrir langalöngu og skráði í það alllengi, eða þar til það var orðið hálfneyðarlegt og illgeranlegt að vinna með DOSið í nútímatölvum. Skora hér með á hann að endurútgefa Espólínið í notendavænu viðmóti - þ.e. Windows eða álíka - og halda því við. Vonandi lítur hann aftur hingað inn og segir okkur hvort það sé mögulegt.

Ég man vel eftir umræðunni um persónuvernd í sambandi við Íslendingabók því ég beið svo spennt eftir útkomu hennar á vefnum og varð fyrir miklum vonbrigðum með þær skorður sem persónuvernd setti þeirri ágætu bók.

Ég hef líka grúskað í gömlum kirkjubókum til að finna upplýsingar og það er mikil og erfið vinna. Ef allt væri með felldu ættu allar þessar upplýsingar að vera vel aðgengilegar á Netinu.

Þetta er ekki nöldur, Siggi... bara sjálfsagðar ábendingar til yfirvalda.

Lára Hanna Einarsdóttir, 6.2.2008 kl. 16:17

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég nota Espólínið án mikilla vandræða á minni tölvu. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.2.2008 kl. 17:40

6 Smámynd: Púkinn

Espólíninn - já, það er hægt að búa til alvöru windows útgáfu af honum, og ef ég hefði lausa forritara og sæi fram á að ég myndi ekki tapa of miklu á þessu þá væri ég farinn af stað með það.

Púkinn, 6.2.2008 kl. 17:55

7 Smámynd: halkatla

ég er svo sammála þessu! ég vissi ekki hvaða pistil ég ætti að kommenta á hjá þér núna, er hugfangin að venju yfir öllu sem þú segir (og systir þinni) en sjúkdómasögur hræða mig, löggusögur hræða mig, spilltir dómarar og sýslumenn hræða mig, þetta var vandræðaástand og það var eins gott að það var einn svona skjalapistill, þetta er mér líka hjartans mál að það verði tekið til í þjóðskjalasafninu, ég skal vera með sem sjálfboðaliði ekki málið! eða get svosem alveg þegið smá pening líka fyrir  híhí

 til þín og Mala

halkatla, 6.2.2008 kl. 23:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband