Mesti og minnsti hiti á Íslandi í febrúar

Mesti hiti á Íslandi í febrúar mældist á Dalatanga þ. 17. 1998, 18,1 stig. Lægð var á Grænlandshafi en ekkert sérstaklega hlýtt á landinu nema á Dalatanga. Þessi hiti var lesinn af mæli við athugun klukkan 15 í hávestan átt.

Árið 1960 mældust 16,9 stig á Dalatanga og Seyðisfirði aðfaranótt þ. 8. Lægð með óvenjulega hlýju lofti fór vestur fyrir land dagana 6.-8. Var hitinn 10 stigum ofan við meðallag á landinu þ. 7. og úrhellisrigning og hvassviðri sunnanlands og vestan. Veðrinu fylgdi mikil asahláka svo af  hlutust flóð á öllu svæðinu frá suðvesturlandi til norðurlands. Ölfusá flæddi t.d. yfir bakka sína svo flæddi vatn í kjallara á Selfossi og jakaburður í Blöndu sleit símalínur. Hiti þessi mældist einhvern tíma frá kl. 9 að morgni til hádegis. 

Þriðji mesti hitinn í febrúar er 16,0 stig árið 1984 á Seyðisfirði þ. 24. Þann dag var mikil lægð á hreyfingu við norðausturströnd Grænlands og fylgdi henni regnsvæði og asahláka úr suðvestri. Hitinn var þá fimm og hálft stig yfir meðallagi áranna 1971-1980.  

Frost hefur aðeins mælst 30 stig í tveimur febrúarmánuðum á Íslandi en hins vegar í 11 janúarmánuðum, 6 marsmánuðum, 5 desembermánuðum og einum aprílmánuði.

Mesta  frost á landniu í febrúar mældist í Möðrudal á Fjöllum aðfaranótt þ. 4. árið 1980, -30,7 stig. Víða annars staðar var þá einnig mjög kalt, t.d. -26,3 daginn áður í Reykjahlíð við Mývatn. Hæð var yfir Grænlandi og lægð við Lófót og hitinn var 8 1/2 stig undir meðallagi á landinu.

Árið 1905 mældust slétt 30 stig í Möðrudal, líklega þ. 11. Þann dag var frostið 23 stig á Möðruvöllum í Hörgárdal og 22 á Akureyri. Mikil hæð var yfir landinu í kjölfar norðanáttar. 

Þriðji mesti kuldi í febrúar er -29,5 stig þ. 10. í Möðrudal árið 1955. Þá var veður heiðskírt og miklir kuldar höfðu þá verið vikum saman á landinu.

Hér má sjá nokkur veðurkort frá hádegi þessa daga á Íslandi og nokkur kort frá 850 hPa fletinum þar sem sjá má  hitann í háloftunum í kringum 1400 m hæð.  

1998-02-17_12

Rrea00219980218

1960-02-07_12

Rrea00219600207

Rrea00219600208

1980-02-03_12

Rrea00219980218


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband