Þórbergur á Hala veraldar

Hvernig dettur mönnum í hug að halda tveggja daga málþing um Þórberg sem byrjar klukkan tvö á föstudegi og lýkur á laugardagskvöldi? Og hafa hana auk þess í október þegar allra veðra er von og ofan á allt annað á Hala veraldar, eina 500 kílómetra frá höfuðstaðnum þar sem næstum því öll bókmenntafræðiséníin eiga heima og líka þessir fáu sem enn nenna að lesa bækur?

Jú, ég veit að Þórbergur var fæddur á Hala í Suðursveit og á ráðstefnunni verður stílað upp á útivist í roki og rigningu. Haustrigningarnar í Suðursveit eru á allt annarri stærðargráðu en þær sem við eigum að venjast í Reykjavik. Menn drukkna bara í þeim. Hefði ekki verið hægt að halda þessa ráðstefnu í snemma í september eða jafnvel bara um hásumar? Og hvers vegna í ósköpunum er þingið ekki haldið á laugardegi og sunnudegi? Er beinlínis verið að fæla frá þá sem þurfa að sinna störfum sínum á virkum dögum? Ég komst ekki af því ég átti ekki kost á ferð af þessum sökum.

Já, ég verð í fýlu þessa helgi. Það veit sá sem allt veit. Ég hefði gjarna viljað vera þarna og rifja upp gamlar minningar um Þórberg sem var næst mesta átrúnaðargoð mitt í gamla daga (það mesta var Elvis). Mér er málið jafnvel nokkuð skylt hvað minningar varðar. Þegar Þórbergur var hundrað og eins árs talaði ég sjálfur á svona málþingi um hann og sumir sögðu að ég hefði farið með níð um hann. Það var líka sagt að Þorsteinn Gylfason hefði farið með níð um hann. En við sögðum nú bara sannleikann um Þórberg í okkar erindum. En hver vill heyra sannleikann um sannleiksleitandann mikla?

Ráðstefnan er annars mjög lokkandi. Þar talar t.d. maður sem er að skrifa bók um Þórberg. Húrra fyrir honum! Þar talar líka sú vinkona mín sem ég botna minnst í (og hún lítur nú bara niður á mig enda hávaxin og spengileg) og ég  stend í undarlegustu kynnum við sem ég hef nokkru sinni haft í lífinu en þau eru líka ein af þeim allra skemmtilegustu. Eiginlega alveg geggjuð!  Þessari frauku kynntist ég þegar ég var undir henni meðan ég skrifaði menningargreinar  í eitt dagblað þar sem hún var bossinn  í öllu sínu veldi, sællar minningar!   

Já, ég hefði svo mikið viljað vera þarna og hlusta á alla snillingana og góna á allar stórskvísurnar sem halda sprenglærð erindi um  meistarann og taka með þeim nokkrar léttar Müllersæfingar. En ég verð í fýlu heima af þvi að menn kunna ekki að skipuleggja ráðstefnur skynsamlega.

Og þá er svo sem bara að slá þessu öllu upp í kæruleysi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband