Bókmenntavetur

Ég hef ekkert fylgst með nýjustu bókunum í ein tíu ár, aðeins lesið eina og eina bók. Áður fyrr fylgdist ég vel með. En siðustu árin hef ég aðallega lesið fræðibækur, sem sagt bækur sem eitthvert vit er í.

 En nú í vetur ætla ég að leyfa mér þá léttúð að lesa aftur svokallaðar fagurbókmenntir. Ég hef einfaldlega gert lista yfir höfunda sem  ég ætla að lesa og honum er raðað í aldursröð skáldanna. Fyrst klára ég það sem ég á eftir að lesa eftir þá gömlu. Ég hef þegar afgreitt ævisögur Thors, Guðbergs og Matthíasar Johannesens. Skáldævisaga Matthíasar heitir Hann nærist á góðum minningum. Og þegar ég las hana kviknaði á perunni með hvað ég ætla að láta ævisögu mína heita þegar ég skrifa hana loksins þegar ég verð afgamall og djúpvitur. Hún á auðvitað að heita: Hann nærist á vondum minningum.

 Þarf svo ekki einhver snillingurinn að fara að skrifa fyrstu bloggævisöguna. Sjálfsævisaga – skáldævisaga - bloggævisaga. Þetta heitir víst þróun bókmenntanna.

Nú, nú, svo klára ég Einar Má, Einar Kára, Vigdísi og Steinunni og hvað þær nú heita allar þessar miðaldra hverjar ég á eftir að lesa nýjustu bækurnar eftir.

 Og svo eru það ókannaðar lendur: Ungu stelpurnar og strákarnir sem ég hef aldrei lesið efttr einn staf. Ég ætla að lesa þau öll kerfisbundið í tætlur. Þá verður nú fjör. Eða verður kannski ekkert fjör? Ég man alltaf eftir gömlu blaðaviðtali við Bríeti Héðinsdóttur leikkonu þar sem hún sagði skýrt og greinilega: Allir mínir uppáhaldshöfundar eru löngu dauðir. Ég  segi það sama.

 Allir mínir uppáhaldshöfundar eru löngu dauðir og ég á ekki von á að þeir eigi eftir að rísa upp úr kölkuðum gröfum sínum. En þegar vonin ein er eftir gerast stundum kraftaverk. Kannski á eitthvert þessara ungu skálda sem ég ætla að lesa í vetur eftir að verða einn af mínum uppáhaldshöfundum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband