Hlýjustu og köldustu júnímánuðir

Á veturna eru köldustu og hlýjustu mánuðirnir yfirleitt þeir sömu um allt land. Öðru máli gegnir um hásumarið. Þá eru hlýjustu og köldustu mánuðir á suðurlandi oft allt aðrir en fyrir norðan. Hér verður reynt að finna þessa mánuði og auk þess þá mánuði sem hlýjastir og  kaldastir virðast á landsvísu. Það er þó ekki alltaf auðvelt vegna þess hve mælingar voru stopular lengi framan af.

Mælingar hófust í Stykkishólmi í nóvember 1847 og hafa haldið áfram síðan. Mælingar voru gerðar í Reykjavík frá því mars 1823 fram í febrúar 1854 en hafa þótt ýmislegra leiðréttinga við. Aftur var byrjað að mæla þar 1871 og hefur verið mælt síðan. Danska veðurtofan tók svo við veðurathugunum á Íslandi 1873 og bættust þá aðrar stöðvar í hópinn.

Ef eingöngu er miðað við Reykjavík og Stykkishólm er ljóst að júní 1871 er sá hlýjasti, 2,3 stig yfir meðallaginu 1961-1990.  Hann var 11,3 stig í Reykajvík en 10,5 í Stykkishólmi. Næstur í röðinni fyrir þessa tvo staði er júní 2003 en sá júní nær þó ekki að vera með allra hlýjustu júnímánuðum eftir að hægt er að fylla út töflu með þeim 9 veðurathugunarstöðvum sem lengst hafa mælt frá því fyrir aldamótin 1900. Það er því ómögulegt að segja hver meðalhitinn á þeim öllum hefur verið í júní 1871. En ljóst er að sá mánuður var afar hlýr. Fyrir þennan tíma var aðeins einn júnímánuður sem var sérstakelga hlýr. Það var árið 1846 þegar hitinn í Stykkishólmi var 10,4 stig, en 10,3 í Reykjavík.       

Ég vil taka það fram að í öllum pistlum mínum um hlýjustu og köldustu mánuði eru ekki notaðar meðalhitatölur eins og þær standa í Meteorologiske Arbog og Veðráttunni heldur endurskoðaðar tölur frá Veðurstofunni.

Júní 1933 er talinn sá hlýjasti á landinu að meðaltali. Hann var sérlega hlýr fyrir norðan, 12,5 stig á Akureyri en nokkur vafi leikur þó reyndar á um hitann þar þennan mánuð. Hvergi á öðrum veðurstöðvum á norður og austurlandi var þetta hlýjasti júní en litlu munaði. Á suðurlandi var einnig mjög hlýtt. Veðráttan gerir undarlega lítið með þennan góða mánuð: "Tíðarfarið var yfirleitt hagstætt, einkum á NA-landi. Fyrri hluti mánaðarins var vætusamur. Grasspretta var ágæt um allt land." Úrkoma var fremur mikil um allt land, en þó einkum á austanverðu landinu og á suðausturlandi. Í Fagradal í Vopnafirði var úrkoman næstum því þreföld umfram meðallagið 1931-1960 og á Fagurhólsmýri tvöföld. Þar mældist sólarhringsúrkoman 81,5 mm að morgni þ. 5. Samt var þetta ekki einhver sérstakur rigningarmánuður á landinu í heild. Þrátt fyrir mikið úrkomumagn austanlands var SV- átt algengasta vindáttin og var fremur hægviðrasöm. Sólin var af fremur skornum skammti syðra, um 60 stundir frá meðallaginu 1931-1960  í Reykjavík en aðeins yfir því á Akureyri. Eitt stutt kuldakast kom í þessum blíða mánuði, dagana 16.-18. Þá var slydda á Vestfjörðum og gránaði jörð einn daginn á Hesteyri í Jökulfjörðum. Dagana 24.-26. var hins vegar afar hlýtt og fór hitinn í 26,6. á Kirkjubæjarklaustri þ. 26. í rífandi vestanátt. Á Klaustri var meðaltal hámarkshita í mánuðinum skráð 17,1 stig en meðalhitinn var 12,0 stig. Tuttugu stiga hiti á landinu var tiltölulega oft í þessum mánuði, bæði fyrstu dagana og síðustu vikuna.   

Næstur þessum mánuði gengur júní 1909. Hann er hlýjasti júní sem mælst hefur á Vestfjörðum,  í Grímsey og Vestmannaeyjum og sá næst hlýjasti á suðurlandsundirlendi. Mánuðurinn var mjög þurrviðrasamur en engar sólskinsmælingar voru þá gerðar. Talning á úrkomudögum var þá kannski sums staðar fremur ónákvæm en þeir voru víðast hvar aðeins fjórir til fimm. 

Júní 1941 kemur  næstur. "Veðráttan segir um hann: "Tíðarfarið var mjög gott og hagstætt. Spretta ágæt og gæftir til sjávar góðar. Óþurkasamt síðari hluta mánaðarins." Þessi júní naut sín sérstaklega vel á  vesturlandi hvað hitann snertir. Í Borgarfirði var þetta hlýjasti mældi júní og einnig á sunnanverðu Snæfellsnesi. Í Reykjavík var mánuðurinn sá þriðji hlýjasti, aðeins júní 2003 og 1871 voru hlýrri. Á Hólum í Hornafirði var þetta aftur á móti hlýjasti júní sem þar hefur mælst 11,3 stig og einnig á Kirkjublæjarklaustri, 12,0, ásamt júní 1933. Síðasta talan er reyndar hæsta júnítala meðalhita sem vitað er um á veðurstöð á sunnanverðu landinu. Úrkoman var  í kringum meðallag í mánuðinum og minni en 1933, einkum á suðausturlandi og norðurlandi. Sólarstundir voru lítið eitt færri í Reykjavík en 1933 en 30 klukkustundum færri á Akureyri. Þetta var því ekki neinn sólskinsrmánuður. Suðlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum enda var úrkoman á Höfn í Bakkafirði aðeins 12 mm en úrkomusamast var í Vík í Mýrdal en þó var hún minni en meðalagið 1931-1960.  Fyrstu dagana var mjög hlýtt, 25,7 stig þ. 3 á Teigarhorni og önnur hitabylgja kom þ. 23. þegar 24,8 stig mældust á Hallormsstað. Mikið þrumuveður kom þennan síðari dag fyrir norðan, alveg frá Skagafirði til Mývatnssveitar. Á Hallormsstað var meðaltal hámarkshita í mánuðinum 17,6 stig sem er það hæsta sem skráð hefur verið í júní á nokkurri stöð en líklega hafa mæliaðstæður gert það að verkum að þetta meðaltal er óeðlilega hátt miðað við meðalhitann sem var ekki meiri en 11.3 stig og var þetta ekki hlýjasti júní á staðnum. (Á Hallormsstað var meðalhitinn í júní 1953, 11,7 stig en þá var meðaltal hámarkshita 15,3 stig). Það er áberandi hve hámarkshitameðaltöl á sumrin eru oft skráð óeðlilega há í Veðráttunni á 3., 4. og 5. áratugnum. Valda því fyrst og fremst mæliaðstæður sem voru öðruvísi en nú eru teknar góðar og gildar.

Árið  1940 féllu veðurathuganir niður á Hallormsstað en á Úthéraði var þá veðurstöð og hafa þar verið stöðvar allt frá 1898.  Júní 1940 var sá hlýjasti á þessum slóðum þó hann hafi hvergi slegið met nema þar. Hann lá líka í suðvestanátt með rigningu og sólarleysi víðast hvar nema á norðausturlandi þar sem var þessi líka sólin og blíðan.  

Mjög hlýtt var í júní 1953. Á Húsavík var meðalhitinn 12,7 stig og er það mesti meðalhiti sem vitað er á veðurstöð á Íslandi í júní. Þetta var hlýjasti júní á Grímsstöðum á Fjöllum frá upphafi mælinga 1907, 10,8 stig. Grasspretta var með ágætum en sunnanlands og vestan voru óþurrkar svo slætti var allvíða frestað. Á suðurlandi var þetta úrkomusamasti júnímánuðurinn af þeim sem hér hefur verið sagt frá, en fyrir norðan var úrkoman svipuð og 1941. Í Vík í Mýrdal var úrkoman 286 mm en aðeins 0,8 á Húsavík. Mánuðurinn var sólríkari, bæði fyrir sunnan og norðan, en 1933 og 1941. Á Akureyri voru sólskinsstundir 212 en 146 í Reykjavík. Mikil hlýindi voru síðast í mánuðinum, þ. 23. fór hitinn í 26,2 stig á Sandi í Aðaldal og daginn eftir í 25,0  á Húsavík.                        

Júní 1954 var hlýr en sló þó hvergi met nema í Hreppunum þar sem athugað hefur verið síðan 1880. Meðalhitinn á Hæli var 11,4 stig. Meðaltal hámarkshita þar var óvenju hátt, 16,8 stig sem er með því allra hæsta sem gerist i júnímánuði á suðurlandsundirlendi.  

Hlýjasti júní sem mælst hefur í Reykjavík var 2003 þegar meðalhitinn var 11,3 stig. Á Lambavatni á Rauðasandi í Barðarstrandarsýslu, þar sem mælt hefur veríð í júní síðan 1923, var þetta einnig hlýjasti júní sem þar hefur komið, 11,1 stig. Yfir allt landið var þessi mánuður þó ekki með þeim allra hlýjustu.  Júní 2002 var meðalhitinn 10,8 stig í Reykajvík og sá mánuður var svipaður að hlýindum á suðurlandsundirlendi og 2003. Á Hellu var hitinn þá 11,1 stig og reyndar 11.7 á Írafossi sem er  hæsta júnímeðalhitatala á suðurlandsundirlendinu.

Í fyrra var mjög hlýr júní. Ekki veit ég um endanlegan meðalhita nema á fáum stöðvum en líklega hefur mánuðurinn verið svipaður júní 1953 að hita yfir allt landið. Í Stykkishólmi er þetta hlýjasti júní, síðan 1941 og sá næst hlýjasti á Vestfjörðum frá 1898. Á Hveravöllum var þetta hlýjasti júní sem þar hefur mælst frá upphafi mælinga 1965.  Á Kirkjubæjarklaustri var þetta þriðji hlýjasti júní, eftir 1933 og 1941, en sá næst hlýjasti í Bolungarvík. Mánuðurinn var afskaplega þurr á norðausturlandi og sá þurrasti nokkru sinni á Akureyri þar sem úrkoman var aðeins 0,4 mm.   

Hér fyrir neðan sést meðalhiti þessara hlýju mánaða í tölum fyrir lengst starfandi stöðvarnar. Forrit bloggsins gerir töflur reyndar ofurlítið skakkar en það kemur vonandi ekki að sök.

                           1909    1933    1941    1953    2003    2007    1961-90

Reykjavík        10,9     10,5     11,1     10,2     11,3     10,7     9,0

Stykkish.          10,0     9,8       10,3     9,7       10,2    10,2     8,1      

Bolungarv.       10,6     10,2     9,9       9,1       8,3      10,4     7,0      

Akureyri          11,8     12,5     10,8     11,7     10,9     10,7     9,2

Grímsey           8,6       8,2       8,3       8,6       7,8                   5,9

Teigarhorn       7,8       9,4       8,8       8,4       8,1                   7,2      

Fagurhólsm.     10,9     11,3     11,1     10,2     9,6                   8,8

Hæll                 11,3     11,3     10,8     10,2     10,9                 9,0

Stórhöfði         10,3     9,6       9,7       9,6       9,3       9,5       8,0      

Meðaltal           10,2     10,3     10,1     9,8       9,7                   8,0

Flestir  köldustu júnímánuðirnir voru á þeim árum þegar aðeins var mælt á öráum stöðum.

Í  Reykjavík var kaldasti júní árið 1851, 6,3 stig en var þá 5,9 í Stykkishólmi, sá næst kaldasti þar.  

Næst kaldasti júní í Reykjavík er sagður vera árið 1867 þegar meðalhitinn var talinn 6,4 stig en 7,6 í Stykkishólmi. Dálítið er samt erfitt er að trúa því að svona mikið  kaldara hafi verið í Reykjavík heldur en í Stykkishólmi en þetta ár voru mælingarnar í Reykjavík ekki góðar. Á þessum tíma var aðeins mælt í Reykjavík og Stykkishólmi.

Á áttunda tug nítjándu aldar komu þrír mjög kaldir júnímánuðir í röð frá 1875-1877 en samkvæmt mælingum á þeim veðurstöðvum sem þá og síðar voru í gangi, voru þeir samt ívið mildari en þeir þrír köldustu sem hér verða nú taldir.

Kaldasti júní á öllu landinu er 1882. Hann var aðallega kaldur fyrir norðan, en líka við Breiðafjörð og á Ströndum. Á þessu svæði var hann kaldasti júní sem þekkist, en á svæðinu frá sunnanveðrum austfjörðum til suðvesturlands var hann ekki alveg sá kaldasti. Á Kjörvogi á Ströndum var meðalhitinn 3,0 stig. Kuldinn fyrir norðan við ströndina var með hreinum ólíkindum eins og sést á töflunni hér fyrir neðan fyrir Grímsey og Akureyri. Frost og fannkomur héldust á vesturlandi fram í miðjan mánuð en þá skánaði nokkuð.  Um Jónsmessu var aftur á móti jörð öll alhvít á norðurlandi. Ekki bætti úr skák að kuldinn þar hélt áfram í júlí og ágúst sem einnig slógu öll kuldamet fyrir norðan og á þetta sumar enga hliðstæðu þar. Aftur á móti var mánuðurinn tiltölulega mildari inn til landsins og á Grímsstöðum á Fjöllum var þetta ekki kaldasti júní, meðalhitinn var  5,1 stig. (Þetta var reyndar eini júní sem mældur var á staðnum á 19. öldinni). Úrkoma var fremur lítil á suður og vesturlandi en úrkomusamt fyrir norðan og austan. Í þessum kalda mánuði komst hitinn mest í 20,9 stig á Grímsstöðum, en á sama stað mældist frostið -3,6 stig.  Það sýnir kuldann á vesturlandi að í Stykkishólmi voru fimm frostnætur. Þann 10. var þar eins stigs hiti kl. 14 og hámarkshiti 2,2 stig. Því miður vantar hámarks-og lágmarksmælingar þennan mánuð í Grímsey en af athugunum kl. 14 má sjá að þ. 6., 9. og 12. var frost á þeim tíma, svo mikið sem -1,8 stig þ. 12. og reyndar var líka frost þessa daga á öðrum athugunartímum,  kl. 9 og 21. Stundum snjóaði í Grímsey. Oftast nær var loftið alveg kafþykkt. Mikill hafís var við landið. Hann lá frá Straumnesi og svo austur um og allt að Breiðamerkursandi. Sérstaklega var ísinn mikill við Austfirði en lausari í sér fyrir norðan. Seint í mánuðinum losnaði hann frá Austur-Skaftafellssýslu og rak svo smátt og smátt vestur og suður. 

Júnímánuðir 1885 og 1892 voru áþekkir að kulda en 1892 þó sjónarmun kaldari. Þá mældist kaldasti júní á Teigarhorni en annar kaldasti í Grímsey og þriðji kaldasti á Akureyri.  Frost mældist í Reykjavík í þessum mánuði og reyndar um allt land. Svo ótrúlegt sem það hljómar voru frostdagar 22 í Grímsey og 19 á Raufarhöfn. Úrkoma var lítil nema á Austfjörðum. Áttin var oft norðaustlæg. Hafís hafðí verið um vorið um allt land en var horfinn af norðurlandi þegar komið var fram í júní en við austfirði fór hann ekki alveg fyrr en þ. 8. af Berufirði og þ. 24 af Seyðisfirði.   

Árið 1885 mældist mesta frost sem mælst hefur í Reykjavík í júní, -2,4 stig, en hugsanlega er eitthvað athugunarvert við mælinguna. Frost voru þó tíð um nær allt land, t.d. -3,3 stig í Hreppunum og mest -5,2 á Raufarhöfn. Sífelldir næðingar voru allan mánuðinn og næturfrost. Frostdagar voru t.d. 7 á Eyrarbakka og í Hreppunum. Á síðartalda staðnum og í Vestmannaeyjum var þetta kaldasti júní sem mælst hefur. Ekki var mælt á þessum stöðum árin 1851 og 1867 þegar kaldast varð í Reykjavík. Úrkoma var í kringum meðallag eins og það var 1931-1960, en  þó minni í Reykjavík, svo þetta var ekki þurrviðrasamur mánuður. Seint í mánuðinum komst hitinn í 22,9 stig á Teigarhorni. Þrátt fyrir kuldann var ekki teljandi hafís við landið og tálmaði ekki siglinum. Í hafinu fyrir norðaustan land var lítil ís.   

Kaldasti júní á 20. öld var árið 1907. Þá var austlægar áttir ríkjandi og mjög þurrviðrasamt nema við suðurströndina. Á Teigarhorni var þetta þriðji kaldasti júní. Aldrei hefur mælst kaldari júní á Úthéraði, þar sem mælt hefur verið frá 1898, 4,3 stig (meðallag 1961-1990 er 7,8).  Ekki heldur á Seyðisfirði frá 1907, 5,5, stig (meðalhiti 7,9).

Annar mjög kaldur júní var árið 1952. Hann var sá kaldasti á Grímsstöðum á Fjöllum frá upphafi mælinga 1907, 2,5 stig og kaldari en júní 1907. Á Raufarhöfn var þetta einnig kaldasti júni sem þar hefur mælst 1885-1898 og frá 1921, 3,2 stig. Gróðri fór lítið fram vegna kulda og þurrka. Sunnanlands var mikið sólskin. Í Reykjavík var þetta fjórði sólríkasti júní. Sums staðar á suðurlandsundurlendi komst hitinn í þessari miklu sól næstum því upp í meðallagið 1931-1960. Á norðausturlandi voru hagar hins vegar varla orðnir grænir í lok mánaðarins. Frostið á landinu fór niður í 5,9 stig í Möðrudal í byrjun mánaðar. Oft snjóaði á norðausturlandi og jafnvel líka á suðurlandi.  Það var í einmitt þessum mánuði sem snjódýpt á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist 2 cm að morgni þ. 2.

Kaldasti júní á síðari áratugum er 1975. Þá var norðlæg átt ríkjandi en í júní 1978 var vestlæg átt algengust og var sá mánuður enn kaldari í Reykajvík en 1975, meðalhiti 7,8 stig, sá kaldasti síðan 1922, en fyrir norðan og austan var júní 1978 talsvert mildari en 1975.  Svo mikill var kuldinn í upphafi júní 1975 að fyrstu þrjá dagana var sólarhringsmeðalhitinn á Hallormsstað, veðursælum stað, undir frostmarki! Líka á Akureyri þ. 2. og á hádegi var þar eins stigs frost.   

Fyrir upphaf veðurathugana í Reykjavík árið 1823 eru til nokkrar stopular athuganir frá ýmsum stöðum á landinu allt frá 1798 sem hafa verið áætlaðar yfir til Stykkishólms. Eftir þeim virðist sem júnímánuðir árin 1811 og 1817 hafi verið dálítið mildari en júní 1882 en aðrir júnímánuðir á þessu tímabili komast ekki í flokk þeirra köldustu.

Hér sést hitinn í þessum köldu mánuðum sem hér hafa verið nefndir.

                        1882    1885    1892    1907    1952    1975

Reykjavík        8,2       7,1       8,3       8,4       8,4       7,9

Stykkish.          5,6       6,1       6,3       7,8       6,5       6,4      

Akureyri          4,2       7,2       6,8       5,8       5,9       7,1

Grímsey           1,7       4,3       2,3       3,1       3,3       3,8

Teigarhorn       4,2       5,3       3,7       4,3       6,2       5,6      

Hæll                 8,2       5,6       7,7       7,9       8,9       7,9

Stórhöfði         7,8       6,6       7,7       7,5       8,1       6,8                  

Meðaltal           5,3       5,9       5,8       6,1       6,5       6,3

Í fylgiskjali gagnmerku geta hinir tíu veðurréttlátu hryllt við kuldanum í júní 1882 í Grímsey og  ornað sér við hlýindin í Reykajvík 1941 og 2003.                             

                       

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hva, hvar eru allir loftslagsáhugamennirnir?!

Sigurður Þór Guðjónsson, 16.6.2008 kl. 21:08

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband