Í tilefni dagsins

Þar sem bloggið er vettvangur sjálfhverfunnar þar sem menn segja skoðun sína á öllum hlutum  ætla ég að nota tækifærið og segja álit mitt á náttúruvernd skýrt og skorinort nú meðan Sigurrós og Björk eru að reyna að bjarga náttúrunni með tónleikum í norðangarranum í Laugardal.

Ég er algjörlega andvígur því virkjanaæði og þeim olíuhreinsunardraumum sem heltekið hefur suma. Ég vil á engan hátt hrófla við náttúrunni nema hvað ég vil endilega láta græða upp landið eins og hægt er. Mér svíður mjög hvað það er nakið og bert miðað við það sem það var í fornöld og gæti verið enn af náttúrufarslegum ástæðum. Ég geri mér samt engar grillur um það að Ísland sé "hreint og ósnortið". Það er einmitt afskaplega óhreint og snortið. Í þessu sambandi langar mig til að benda á grein í Lesbók Morgunblaðsins í dag "Ímyndin Ísland" eftir Önnu Björk Einarsdóttir sem færir m.a. rök að því að söguskoðun Bjarkar smellpassi við söguskoðun nýfrjálshyggjunnar og hina rómantísku söguskoðun sem kemur fram í skýrslu forsætisráðuneytisins sem sagnfræingar hafa mótmælt sem helberri firru.

Hvað hlýnun jarðar varðar finnst mér ég vera í einkennilegri stöðu. Ég hef haft brennandi áhuga fyrir veðurfari í yfir 40 ár og kynnt mér vel það sem vísindamenn segja um hlýnun hnattarins. En ég get ómögulega lesið út úr því allar þær ógnir sem fjölmiðlar, stjórnmálamenn og margir umhverfissinnar segja að séu yfirvofandi. En ég er alveg til í að viðurkenna að þrátt fyrir fjörtíu ára pælingar um loftslagsmál sé ég bara í afneitun og hvaða náttúrusinnaður listamaður, fjölmiðlamaður og umhverfissinni sem er viti miklu betur en ég í þessum efnum.  

Vildi bara koma þessu auðmjúklega á framfæri.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég vil líka  græða. Landið.

Þessvegna er ég stundum dáltítið snefsinn út í rollurnar og hryssingslegur út í hrossin. Þótt ég tali annars alltaf vel um dýr. En laðast að lúpínu, ösp og elri. Og auðvitað björk.

K.S. (IP-tala skráð) 28.6.2008 kl. 22:56

2 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Ég ætlaði á þessa Náttúru tónleika með vinkonum mínum, en hætti við af því það er svo andskoti kalt úti á kvöldin núna. Já, og á nóttunni líka, enda hafa t.d. blöðin á begóníunni sem ég forræktaði úti á sólsvölum og setti svo í pottinum út í garð, verið náhvít vegna næturkulda á morgnana.
Þau hafa sem sagt kalið. Þetta er nú allur helvítis hitinn á þessu guðsvolaða landi.

Erla Ósk, Garðar og Rafn fóru á tónleikana og skemmta sér eflaust vel. 

Ertu búinn að sjá nýjasta ömmubarnið mitt? 

Svava frá Strandbergi , 28.6.2008 kl. 23:01

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mjá!

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.6.2008 kl. 00:07

4 identicon

Í útlöndum eru skólar - góðir skólar.

Í útlöndum eru sjúkrahús - góð sjúkrahús.

Í útlöndum eru almenningssamgöngur - góðar almenningssamgöngur.

Í útlöndum er hægt að fara milli staða með járnbrautarlestum...

... bæði ofanjarðar og neðan.

Í útlöndum er mannvænt veður.

Í útlöndum er engin Samfylking og enginn er Sjálfstæðisflokkurinn.

Í útlöndum er engin íslensk króna.

Í útlöndum kostar Hunts-tómatsósa ekki helling .... bara vegna íslensks landbúnaðar...

Er ekki kominn tími til að gera það sem "þetta" fólk vill... leyfa náttúrunni að njóta sín..

Loka skerinu og flytja þetta fáa fólk sem hér býr á "náttúruvænni" stað .. stað þar sem "losun" og mengun er ekki með því mesta sem gerist í víðri veröld (það segir "umhverfisráðfrú") og leyfa svo náttúrinni að hafa sinn gang... 

Ef við værum farin burt .. í þágu náttúrunnar ...

... þá hefði ekki t.d. ekki þurft að deyða ísbirnina um daginn....

... ekki að hafa áhyggur af vatnsleysi á Suðurlandi, taprekstri Droplaugarstaða ... og lokun Reykjavíkurflugvallar...

Hvernig stendur á því árið 2008 að "fólk" skilur ekki hvað þarf til að halda landi eins og þessu í byggð ... með þægindum nútímans ... öryggi ... skólum ... og atvinnu (og þá er átt við annað en svona "leikaradútl") ...

Er kjánaskapurinn alltaf allsráðandi hér ... er aldrei neitt annað en ökklinn eða eyrað á Íslandi?

Hér má aldrei gera þetta og aldrei hitt ... bara eitthvað annað...

... það veit bara enginn hvað þetta "eitthvað annað" er.... en það er víst voða gott ... og "náttúrulega" umhverfisvænt... hvað svo sem það nú er... !

Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 29.6.2008 kl. 01:30

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hvaða Sigtryggur?

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.6.2008 kl. 09:59

6 Smámynd: halkatla

ég er sammála þér, en varðandi bráðnun og hlýnun og gróðurhúsaáhrif þá verð ég að kvarta einsog Guðný, því ég var að heyra það að norðurpóllinn verði íslaus í sumar því að þar bráðnar allt svo hratt, en samt bý ég nánast á norðupólnum og það hefur ekki komið einn einasti almennilegi hitadagur hérna í allt sumar! ok ég er ekki hrifin af of miklum hita og vil helst hafa vorveður allan ársins hring en fyrr má nú vera, ég er að hugsa um sólardýrkendurna hér fyrir austan sem treysta á að fá amk eina litla hitabylgju einsog þeir eru vanir... það er svívirðilegt að það sé verið að tala um hlýnun og bráðnun á norðurpólnum þegar íslendingum er kalt.

halkatla, 29.6.2008 kl. 11:20

7 identicon

Ég hef ekki fundið neitt fyrir þessari hnatthlýnun. Kannski teljumst við ekki með, svona sá og fá?

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 29.6.2008 kl. 11:36

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég dreg ekki hlýnun jarðar í efa, ef einhver skyldi halda það og ekki heldur að hún kunni að einhverju leyti að vera af mannavöldum. En ég get ekki séð af því sem vísindamenn segja að afleiðingarnar verði eins óskaplegar eins og sumir aðrir vilja meina en reyndar líka sumir vísindamenn. Mér finnst það reyndar nokkuð dæmigert um umræðuna um gróðurhúsaáhrifin að það að grein í útlendu blaði, sem styðst við einstaka útreikninga vísindamanna í Colorado, skuli á íslenskum bloggsíðum vera talin sem óefuð vísbending um það sem muni verða, að því er virðist án nokkurs minnsta snerts af vafa. Þetta er mjög dæmigert um umræðuna. Einhver spá eða hugsanleiki kemur fra og hann er umsvifalaust gerður að óumdeilanlegri staðreynd og gegnur þannig ljósum logum um bloggheima. Það er heldur ekki verið að tala um það að allt norðurskautssvæðið verði íslaust heldur bara hugsanlega norðurpólinnin sjálfur og hvergi kemur fram hvað það á að vera stórt svæði. Ég hef annars ekki séð þetta í smáatriðum en finnst eins gott að anda rólega.

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.6.2008 kl. 11:55

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Já og Anna Karen:  Haf langlundargerð! Það er hitabylgja á leiðinni en kannski nær hún sér ekki á strik fyrir austan. En bíddu samt bara. Þú býrð á einhverju hitabylgjuvænasta svæði á landinu og bráðum kemur betri tíð með blóm í haga. Það hefur svo hlýnað mikið á Íslandi síðustu sjö ár svo við teljumst sannarlega með.

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.6.2008 kl. 12:00

10 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Hvenær kemur hitabylgja? Þá ætla ég að skella mér í tjaldferðalag!

Lára Hanna Einarsdóttir, 29.6.2008 kl. 12:11

11 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er spáð hlýju veðri eftir miðja vikuna en kannski ekki beint "hitabylgju". En ef allt gengur eftir gæti komið 20 stiga hiti þar sem best verður. Það er samt ekki sama hvar þú ert. Farðu upp í góðsveitir en ekki útkjálka. Passaðu þig bara á að verða ekki úti ef spáin skyldi bregðast.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.6.2008 kl. 12:16

12 Smámynd: halkatla

ég veit ekki einu sinni hvað orðið langlundargeð þýðir - en ég verð nú að segja að veðurspáin sem ég horfði á eftir fréttir í gær er ekki að rætast, það átti að koma rigning og rok í dag en ég get setið úti léttklædd með bók og það er bara sæmileg gola, en það getur að vísu allt gerst ennþá, stormurinn hefur klukkutíma til stefnu (ef spáin á að rætast) og það eru eilítið dökk ský í austri...

Kassandra veinar og vælir og það gæti verið fyrir einhverju rosalegu, í báðar áttir.

halkatla, 29.6.2008 kl. 14:02

13 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Viltu endilega fá vont veður? Ertu ekki þakklát fyrir vondar spár en gott veður?  

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.6.2008 kl. 14:53

14 Smámynd: halkatla

ég var alls ekki að kvarta, en það er mikið rétt að þetta er skárra svona heldur en þegar öllu fögru er spáð og svo situr maður uppi með óveður.

halkatla, 29.6.2008 kl. 15:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband