Að láta sér fátt um finnast

Ég neita því ekki að ég hreifst af frammistöðu íslenska landsliðsins á ólympíuleikunum í hita leiksins. Ég er ekki andsportisti og hef alltaf haft gaman af ólympíuleikunum. En æðið rennur af manni og nú er mér um og ó hvernig menn láta. 

Margir Kínverjar eiga um sárt að binda beinlínis vegna ólympíuleikanna ofan á þá kúgun sem þeir eru almennt beittir af stjórnarfarinu. Af því tilefni spurði ég þeirrar spurningar hér á blogginu fyrir leikana hvort Íslendingar gætu notið þess ef þeir fengju verðlaun á leikunum grunlaus um það að þeir myndu hljóta verðlaun.

Það fer ekki framhjá mér að menn vilja sem minnst um slíkt tala öðruvísi en að vera með sigurvímu og hrifningu. Ég býst ekki við að á þetta verði minnst einu orði þegar tekið verður á móti handboltaliðinu í dag.  

En þetta er ekki helsta ástæða þess að ég læt mér fátt um finnast þau læti sem nú eru kringum handboltaliðið. Það er fremur þetta ofurvægi sem lagt er á frammistöðu í íþróttakappleikjum. Þjóðin er að vinna ýmis konar afrek á mörgum sviðum menningar og annars konar starfsemi, eins og allar aðrar þjóðir, án þess að menn tryllist beinlínis. En þegar kemur að íþróttum er hreinlega eins og afrek á þeim sviðum séu það sem mestu skiptir í gæfu þjóðanna. Eins og þetta er nú hverfult fyrirbæri. Man einhver hvaða þjóð hlaut silfurverðlaun í einhverri hópíþrótt á ólympíuleikunum í Barcelona?

Fyrst og fremst fælir það mig frá þegar sú stemning ríkir að allir, heil þjóð, eigi að vera sammála og hugsa eins, vera beinlínis frá sér numin. Það eitt nægir nú til að ég láti mér fátt um finnast. Hópsál er hryllileg. 

Einhuga þjóð er hálf óhugnanlegt fyrirbæri í sjálfu sér. Ekki þarf það  alltaf að vera jákvætt. Hugsið ykkur þann hatursþunga frá heilli þjóð sem hvílir á einstaklingum á átakatímum sem skerast úr leik við að hugsa eins og múgsálin. Fátt er grimmara og blindara.

Þetta finnst mér nú en það er öðru nær að ég sé eitthvað heitur í því. Og ég áfellist engan þó hann hugsi öðruvísi en ég í þessum efnum.

Allra síst íþróttamennina sjálfa.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Ég er þér ósammála um að við séum einhvers konar hópsálir. En væri sammála þér ef stemmningin ætti að verða til af þeim sökum. Ég kem úr röðum einstaklingsíþrótta og met afrek einstaklinga jafnvel meiri en hóp, en gleðst þó innilega yfir árangri handboltaliðsins í Peking.    

Þetta snýst fyrst og fremst um hrifninguna yfir glæsilegri frammistöðu á mestu íþróttahátið heims. Íþróttirnar hressa nefnilega upp á sálartetrið, bæði með því að iðka þær og eins þegar íþróttamennirnir ná góðum árangri. Ætli veiti af í þeim erfiðleikum sem að öðru leyti ganga yfir þjóðina.

Ágúst Ásgeirsson, 27.8.2008 kl. 13:15

2 identicon

Þú ert kjarkaður að skrifa þetta mitt í öllu æðinu!

Ussumsussss - ekki svona óþægilegar umræður akkúrat núna!  Á morgun verður það í lagi.  Bara ekki í dag!  Sussss...

Reyndar man ég greinilgea eftir einu atviki frá ólympíuleikunum í Barcelona:  Þegar roskni maðurinn (62 ára) keppti fyrir okkar hönd í skotfimi.  Mig minnir að hann hafi verið aldursforsetinn á því móti.  Geri aðrir betur á hans aldri!

Malína (IP-tala skráð) 27.8.2008 kl. 14:55

3 identicon

Leiðrétting:  Hann var 63 ára!

Malína (IP-tala skráð) 27.8.2008 kl. 15:02

4 Smámynd: Muddur

Ég er þér sammála með að þetta fár kringum handboltalandsliðið er heldur mikið. Ekki það að ég meti ekki þeirra frábæru frammistöðu á ólympíuleikunum, en ég get bara ekki annað en fyllst aulahrolli af að lesa dagskrá þessarrar móttöku: flugvélin lendir á Keflavíkurflugvelli og skilar af sér öðrum farþegum og gerir svo sérstaka ferð til Reykjavíkur og með í fylgd verða Landhelgisgæsluþyrlur og Þristurinn. Svo verður ekið með liðið í rútu niðrí bæ og fólk fylgist með og veifar til leikmannanna. Að lokum verður hátíðardagskrá með lúðrasveit og tónlistaratriðum og Fálkaorðuafhendingum. Erum við virkilega svo smáborgaraleg að við búum til sérstaka þjóðhátíð með þvílíku umstangi og tilkostnaði útaf því að landslið okkar kemst í annað sæti á stórmóti erlendis? Það væri auðvitað annað mál ef þetta væri gullið, ég meina hver á eftir að muna eftir því hver lenti í öðru sæti???

Muddur, 27.8.2008 kl. 16:10

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Anna þó! Ég hélt að við værum alltaf sammála! Muddur: Þú hittir naglann á höfuðið. Þetta er einmitt smáborgaraháttur af lægstu sort með blendingi af þjóðrembu og væmni. Þetta gerir útslagið með það að héðan í frá hef ég andstyggð á handbolta. Forsetinn sagði að þetta væri mesta afrek smáþjóðar í íþróttum sem er sannanlega rangt en alveg lýsandi fyrir þá flatneskju og lygi sem þjóðremba nærist á. Ókei, það er allt í lagi að gleðjast yfir góðum árangri. Það er eitt. En það er annað að farið er út yfir öll takmörk í vemmilegheitum. Það er þjóðremba. Svo finnst mér þetta tal um hetjur minna óþægilega mikið á stríðshetjur.

Sigurður Þór Guðjónsson, 28.8.2008 kl. 01:00

6 Smámynd: halkatla

ég lét mér ekki bara fátt um finnast - ég gekk lengra! Og mér er alveg sama. Hef aldrei séð aðra eins hópsál einsog þarna í gær.

halkatla, 28.8.2008 kl. 11:09

7 identicon

Mér finnst allt í lagi að við séum þjóðrembuleg hópsál í einn dag.  Það er ekkert alltof oft sem þjóðin fær tækifæri til að þjappast svona saman.  Ég naut þess til fullnustu - og er ég þó antisportisti hinn mesti!

Sorrý, ef ég er með neikvæðni í partýinu hérna!

Malína (IP-tala skráð) 28.8.2008 kl. 14:15

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Villi geit! Ertu nú alveg orðin vitlaus að tala svona, þú hreintrúaði og harðkristni maður. Þú þarft að fara að koma í heimsókn og sjá Mala. Það myndi róa þig niður

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.8.2008 kl. 11:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband