Fréttir af kuldabola

Í nótt mældist mesta frost á landinu -2,7 stig á Brú á Jökuldal. Þetta er sjálfvirk stöð sem mældi með kvikasilfri í 30 ár mest -2,1  stig. Það var í júlí 1983.

Sama ár mældist lægsti hiti sem mælst hefur á kvikasilfri á Hellu í júlí, 0,2 stig en þar mældist nú á sjálfvirku stöðinni -1,6 stig. Hitinn var þar að fara undir frostmarkið af og til í eina þrjá tíma.   

Á kvikasilfursmæli féll eitt kuldamet í nótt.  Það var á Hjarðarlandi í Biskupstungum. Þar mældist 0,0 stig en í júlíkuldakastinu 1995 hafði þar lægst mælst 0,2 stig. Á sjálfvirku stöðinni á Hjarðarlandi mældist  -0,8 stig í nótt. Við sjáum þarna einmitt muninn sem getur verið á þessum tvenns konar mæliaðferðum. Og líka þau vandræði sem geta orðið á staðfestingu hita-eða kuldameta á stöðvum sem lengi athuguðu með kvikasilfursmæli en eru nú eingöngu sjálfvirkar.  Mannaða stöðin  á  Hjarðarlandi  hefur aðeins mælt frá 1990. Hún hefur fangað eitt alvarlegt kuldakast í júlí, 1995, en var ekki starfandi í kuldaköstunum miklu 1983, 1970 og 1963.

Í nótt mældist - 1,1 stig í Þykkvabæ á sjálfvirku stöðinni.  Þar held ég að sé enn mönnuð stöð sem heitir Önnupartur og mælt hefur frá 1981 og mældi mesta júlíkulda árið 1995, 0,5 stig. Ekki veit ég hvað þar gerðist í nótt. 

Svæðið kringum Rangárvelli, Skeið og Holt og til sjávars urðu sérlega illa úti í nótt. Það er eiginlega hálf óhugnanlegt að frost skuli hafa mælst við suðurströndina í júlí en Þykkvibær liggur að sjó. Á Kálfhóli á Skeiðum mældist -1,0 stig og við Þjórsárbrú fór hitinn aðeins undir frostmarkið.

Ekkert af gömlu  kuldametunum á mönnuðu stöðvunum sem enn starfa hafa þó fallið. En það verður þó að gera ráð fyrir því að þetta sé mesti kuldi í júlí sem mælst hefur á Hellu  og Þykkvabæ en á mörkunum með Brú. Hins vegar er allt í lagi enn með stað eins og Þingvelli.

En sumar spár gera ráð fyrir því að næsta nótt verði enn kaldari en sú síðasta á  suðurlandi og víðar og muni þá verða næturfrost upp um alla Hreppa og Biskupstungur. Kuldametið í júlí á Hæli í Hreppum, 0,7 stig frá 1888, gæti þá verið í hættu. 

Aðrar spár eru bjartsýnni. Þar sem ég er svartsýnismaður  hallast ég að kaldari spánum!

Hvergi var talin alhvít jörð í morgun á veðurstöð og er það vel sloppið. 

Það hefði verið meira gaman að segja hitafréttir heldur en kuldafréttir!

Og áfram skín sólin í 9 stiga hita í Reykjavík á hádegi. Það er sterk ábending um það að ekki eru öll sólskinsveður af sama tagi. Þetta er fimm til tíu stigum kaldara en verið hefur í hitunum og sólinni undanfarið á sama tíma.

Samt er eins og sumir greini engan mun! Fyrir þeim er það bara sólin sem máli skiptir. Þeir finna engan mun á hitastigi ef hún skín á annað borð!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Afar gagnleg samantekt að vanda hjá þér Sigurður.  Greinilega met á Brú.  Athugaðu að Kálfhóll er vestan Þjórsár og því á Skeiðum en ekki í Holtum.

Sammála um að næsta nótt getur ekki síður orðið áhugaverð.  Skraufþurr svörðurinn eykur mjög á frosthættuna á Surðurlandi þegar rökkvar.

ESv 

Einar Sveinbjörnsson, 24.7.2009 kl. 14:44

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Var einmitt í vafa um hvort Kálfhóll væri á Skeiðum eða í Holtum! Verður leiðrétt.

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.7.2009 kl. 16:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband