Að rétta við kompásinn

Hingað komu í heimsókn í dag gríslingar tveir, fimm ára stelpa og þriggja ára strákur og einn pabbi með þeim. Þau sungu jólalögin; Jólasveinar einn og átta, Bráðum koma blessuð jólin, Adam átti syni sjö og margt fleira en ég spilaði með þeim á mitt píanó. Svo varð ég að þykjast vera draugur og setja upp ógurlega grímu og elta gríslingana út um allt húsið með hávaða og bölvuðum látum. Það var nú meira andskotans vesenið. Krakkarnir alveg skíthræddir og orguðu og veinuðu af spenningi en ég fékk næstum því hjartastopp. Þá tók ég niður grímuna og varð alveg grímulaus. Fór þá að kárna gamanið heldur betur og flúðu gríslingarnir húsið skömmu síðar í fylgd föður síns.

Þá brá ég mér í bæinn  og keypti jólagjafir handa þessum gríslingum. Þetta er fyrsti dagurinn sem ég hef haft einhverja tilfinningu fyrir því að helvítis jólin væru að koma.

Blessuð jólin ætlaði ég að segja og börnin hlakka mikið til. Ég hlakka hins vegar mest yfir því að það verða örugglega rauð jól og allir verulega fúlir yfir því nema ég.

Ég horfi bara á ríkissjónvarpið endrum og sinnum en ekki aðrar stöðvar en yfirleitt eyði ég kvöldunum í göfug viðfangsefni fjarri heimsins glaumi, eins og til dæmis það að lesa veðurskýrslur, helst frá síðustu öld,  sem ég tel hiklaust bestu bókmenntir sem hægt er að lesa. Veðurlíf er miklu meira spennandi en eitthvað skáldalíf.

Jæja, nú er ég farinn að bulla. En það er kannski sára saklaust. 

Verra ef ég væri farinn að sulla alla daga og orðinn svo fjósruglaður að ég þyrfti að fara í fantalega meðferð til að rétta við kompásinn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband