Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Myrkur

Óskaplegt myrkur er þetta. Ég held bara að skammdegisdagarnir séu alltaf að verða skemmri og skemmri. Eru ekki gróðurhúsaáhrifin búin að skemma þá eins og allt annað?

Er hægt að panta kirkju?

Hrafn Jökulsson vill láta byggja kirkju í fornaldarstíl í Árneshreppi á Ströndum þar sem búa einar fimmtíu guðhræddar sálir.

Skyldi hann fá kirkjuna? Er það nóg að einhver þekktur maður fái einhverja delluhugmynd, að þá rjúki yfirvöld til og geri dellu hans að veruleika?

En af hverju í ósköpunum bloggar Hrafn ekki úr útkjálkabyggðinni? Er hann kannski ekki í sambandi? Wink


mbl.is Þriðja kirkjan í Trékyllisvík?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tófan var fyrsti landnámsmaðurinn

Í útvarpsfréttum var verið að segja að búið sé að sanna með aldursgreiningum að refurinn hafi tekið sér búsetu á landinu á undan mönnunum. 

Rebbi kallinn er þá fyrsti landnámsmaðurinn - eða landnámsrefurinn öllu heldur. Reyndar var ég búinn að lesa þetta í Náttúrufræðingnum sem er eitt þeirra tímarita sem ég er áskrifandi að.

447033ANú eru menn að kvarta yfir því að refurinn geri sér dælt við mannabyggðir. Ég held að menn ættu þá að gefa honum að éta. Þá þarf hann ekki að drepa fugla eða leggjast á fé. En refurinn þarf auðvitað að éta eins og aðrar skepnur. 

Og skyldi honum vera það of gott greyskarninu að fá sér lambakjöt annað slagið.

Ég stend algjörlega með rebba gamla í stríði hans við manninn. Hann hlýtur að hafa áunnið sér hefðarrétt til landsins gagna og gæða. 

Ég man alltaf eftir kvæðinu um refinn, "Refurinn gerir greni í urð"  eftir Örn Arnarson sem ég var látinn fara með á munnlegu kvæðaprófi í fyrsta bekk í gagnfræðaskóla.

Örn Arnarson er eitt þeirra skálda sem veitti ekki af að yrði skrifuð góð ævisaga um. Hann er merkari en margir sem meira er hampað.


Billegur forstjóri

Hannes Smárason segist hafa verið billegur forstjóri, samkvæmt viðtali sem er í Morgunblaðinu og sagt er líka frá á Vísi. 

"Hannes er spurður að því hvort kostnaður vegna forstjórans hafi verið óhóflegur og hann svarar að því fari fjarri og hallar sér yfir borðið til að leggja áherslu á orð sín eftir því sem fram kemur í viðtalinu.

"Ef þú horfir á fyrrverandi forstjóra FL Group, sem situr hérna við borðið, og svo forstjóra X, þú mátt velja þér nafn í það box, þú mátt velja þér nafn í það box, svo framarlega sem það er eitt af fimm stærstu fyrirtækjum á landinu, í hvers hópi við erum. Ef þú horfir á laun strípuð, þá var forstjóri FL Group með 4 milljónir á mánuði. En X myndi vera með í laun í kringum 80 til 90 milljónir á ári. Ef þú horfir á bónusa þá er forstjóri FL Group með núll en forstjóri X með aðrar 80 til 90 milljónir. Þannig að forstjórar stærstu félaganna hér á landi eru að leggja sig á 160 til 180 milljónir króna á ári en ekki tæpar 50 eins og ég gerði.

Ef þú horfir síðan á kauprétti, þá var forstjóri FL Group með með núll, forstjóri X með ... - köllum það einhverja milljarða," segir Hannes í viðtalinu."

Á Vísi má sjá að árslaun Hannesar var 51 miljón en þar sést líka að forstjóri Landsbankann fékk 153 miljónir og Bjarni Ármansson 144 miljónir.

Ég hef ekki hundsvit á viðskiptum en það vakna samt ýmsar spurningar þegar maður les svona, vitandi af venjulegu fólki í tugþúsundatali sem vinnur hörðum höndum, margt með afburða dugnaði, en nálgast aldrei þessa glás í launum.

Af hverju fá forstjórar svona há laun? Er vinna þeirra eitthvað mikilvægari en annarra? Og þá hvers vegna?

Hvað gerist í einu þjóðfélagi þegar menn fá svona há laun ár eftir ár og svo eru komnir áratugir sem hópar manna hafa fengið önnur eins laun? Myndast þá ekki gjá í þjóðfélaginu milli þeirra sem hafa slík ofurlaun og venjulegs fólks?

Vill þá ekki venjulega fólkið þá ekki fara að fá sambærileg laun? 

Já, já, er það bara öfundsjúkt!? Er það bara "fátæka" fólkið sem hefur lestina eins og fyrri daginn?Hinir ríku eru búnir dyggðunum? Þetta hefur verið söngur aldanna. 

Hvað gerist svo þegar þetta ríka fólk fer að eldast og getur ekki lengur hugsað um sig sjálft, er jafnvel komið með gullbryddaðar silkibleyjur? Verður þá ekki að reisa sér hjúkrunarheimili fyrir það? Ekki getur það verið með fólki sem fær svona þrjár miljónir í árslaun, hvað þá minna og hefur bara léreftsbleyjur? Og sjúkrahús? Skóla? Kirkjur? Ekki getur þetta ríka fólk setið með almenningi við guðsborð.

Hvernig er líf fólks sem er orðið svona ríkt?  Það hlýtur að lifa að mestu leyti í hópi álíka ríkra. Verður ekki bara vandræðalegt andrúmsloft ef svona billegur forstjóri eins og Hannes Smárason lætur sjá sig í hópi venjulegs launafólks? Geta menn slappað af og verið kammó og vinalegir? Rís ekki ósjálfrátt upp veggur? Og hvernig líta þessir ríku menn á hversdagslegan launamann?  Ætli þeir telji sig yfir þá hafna?   

Þetta eru bara svona laufléttar pælingar. En ég hefði svarið fyrir það þegar ég var lítill að mönnum hefði einu sinni dottið það í hug, þegar Ásbjörn heildsali og Einar ríki voru aðal millarnir og voru bara vinalegir gaurar í augum almennings, eigandi varla í sig og á í samanburði við auðjöfra nútímans, að annar eins launamunur ætti eftir að ríkja í landinu og nú er orðin staðreynd. 

Og svo fara þessir ríku menn að stjórna landinu í krafti auðs síns, kaupa stjórnmálamennina eins og hvert annað stykkjagóss.

Stjórn auðmanna er alltaf vond stjórn. Hún hugsar um það fyrst og fremst að auka þeirra eigin auð en hagur almennings verður algert aukaatriði.

 


Illviðri

Sagt er að illviðrið í gær hafi verið það mesta í tæpan áratug sem reyndar státar ekki af hinum stórkostlegustu óveðrum.  Það var því ekki nema von að menn væru í viðbragðsstöðu. En oft finnst mér eins og of mikið sé gert úr veðri upp á síðkastið. Menn rjúka til og loka skólum og aflýsa samkomum og mæta í almannavarnamiðstöðina þegar er að koma veður sem frekar er hægt að kalla leiðindaveður en raunverulegt óveður og svo gera þessi veður lítinn sem engan skaða þó veðrið í gær hafi að vísu gert það.

Menn gera hreinlega meira úr veðri nú en áður fyrr og eru hræddari við þau. Ég man til dæmis ekki til að skólum hafi nokkur sinni verið lokað vegna veðurs þegar ég var barn þó ég þori ekki að fullyrða að slíkt hafi komið fyrir í allra verstu veðrum. Og börn fóru allra sinna ferða í vondum veðrum í skólann fótgangandi í þá daga en ekki í bílum foreldra sinna. Ekki veit ég til að nokkru barni hafi orðið meint af því. En mörgum  varð og er enn meint af bílaumferðinni. 

Ég held að fjölmiðlar eigi sinn þátt í þessu veðuruppnámi. Það er samt auðvitað jákvætt að menn hafi gát á veðrinu og nú á dögum er svo miklu auðveldara að koma skilaboðum til almennings um veðrið en áður var gegnum sjónvarp, útvarp og netmiðla.

Hér fyrir neðan sjást nokkur veðurkort af Íslandi í frægum vondum veðrum sem koma vel fram á hádegiskortum, en mörg fræg óveður hafa ekki verið mest áberandi á þeim tíma dagsins. Fyrst sést veðrið kl. 15 í gær en síðan önnur veður verri frá fyrri árum. Af mörgu er að taka og þetta er bara örlítið brot af öllum þeim glæsilegum óveðrum sem komið hafa síðustu áratugi.

Menn geta séð á vindstyrknum að veðrið í gær var svo sem varla nokkuð til að gera veður út af í samanburði við gömlu góðu ofviðrin! Fárvirði er talið þegar vindur nær 32,6 m á sekúndu, 12 gömul vindstig, en rok, tíu vindstig, er við 24,4 m/s.

Vestanveðrið 5.-7. janúar 1952, sem stóð í heila þrjá daga, er líkast til versta vestanveður sem yfir landið hefur gengið. 

Veðrið 1954 er fyrsta óveðrið sem bloggarinn man sjálfur eftir. Þá slitnaði frægt skip þeirra tíma, síldarbræðsluskipið Hæringur, upp frá bryggju í Reykjavík og braut allt og bramlaði.

Í ofviðrinu 18. febrúar 1959 fórst vitaskipið Hermóður úti fyrir Reykjanesi með allri áhöfn. Snemma í mánuðinum hafði togarinn Júlí farist með allri áhöfn á Nýfundnalandi. Hafa síðan aldrei orðið jafn mikil sjólys í nokkrum mánuði sem betur fer.  

Fárviðrið í janúarlok 1966 er talið eitthvert versta norðaustanveður sem vitað er um og það stóð í fjóra daga, 28.-31.  

Veðrið í febrúar 1991 er eitthvert allra versta veður sem komið hefur á landinu á seinni áratugum. Takið eftir þessum 53 metrum á sekúndu í Vestmannaeyjum! 

Öll þessi veður ollu margs konar skaða og sum jafnvel mannskaða eins og fram hefur komið. Hér ekki tóm til að skrifa neitt meira um þessi veður, einungis minna á þau.

En hins vegar má hér lesa ýmislegt spennandi almennt um íslensk illviðri.

kl15g

1952-01-05_12

1952-01-06_12

1952-01-07_12

1954-01-05_12

1959-02-18_12

1966-01-29_12

1991-02-03_12


Skatan

Ég tek heilshugar undir svívirðingar nafna míns Sigurðar Helga Guðjónssonar formanns Húseigendagélagsins um helvítis skötuna og þá sem leggja sér slíkan viðbjóð til munns.

Nokkrir skötusyndaselir hafa risið upp á afturhalann og mótmælt réttmætum svívirðingum Sigurðar Helga en fnykinn leggur af rökum þeirra langar leiðir og segir það allt sem segja þarf um þau.

Skötuát landsmanna á Þorláksmessu, rétt fyrir heilög jólin, er alvarleg ógnun við kristilegt siðgæði, ókristilegt siðgæði og allar aðrar tegundir af siðgæði í landinu.

Það er villimannslegt siðleysi sem tekur mannáti í engu fram.

Þetta skrifa ég svo liggjandi uppi í sófa eins og kæst skata, innilokaður vegna óveðurs og annarra  hremminga.    


Tökum nú upp léttara hjal

Í dag lét ég klippa mig hjá sama rakaranum og ég hef  farið til í ein tuttugu ár. Hann er frábær. Ég kemst alltaf á hörkusjens i viku eftir að hann hefur klippt mig. Ég gekk heim frá honum alveg vestast úr vesturbænum og til móts við Norðurmýrina. Það var gaman að ganga þessar gamalgrónu vesturbæjargötur. Hjarn var á jörðu og jólaljós við hvert hús. Oft mátti sjá inn um glugga á bækur og gömul húsgögn. Saga í hverju skoti. Gamli bærinn er eiginlega tímalaus.

Mikil gersemi er diskurinn hennar Ingibjargar Þorbergs. Lagið hennar Hin fyrstu jól er eitthvert besta jólalagið. Það nær alveg blænum sem var yfir kyrrlátum vesturbænum um jólin þegar ég var að alast þar upp. Veturinn 1957 til 1958 kenndi Ingibjörg mér söng í Miðbæjarskólanum. Ég fékk að syngja Óla rokkara hjá henni í tíma. Þið hefðuð átt að sjá mig þá! Ég var rosalega töff!

Það var bernskujólalegt að ganga niður á Vesturgötuna og sjá Raforkujólabjölluna birtast fyrir enda götunnar. Þarna hefur hún verið á sínum stað um jólin frá því ég man eftir mér. Okkur krökkunum fannst alltaf vera komin alvöru jólastemning þegar bjallan var sett upp. 

Í Eymundsson gekk ég fram á vin minn Trausta Jónsson sem kom nálægt útgáfu disksins hennar Ingibjargar. Hann spáir í veðrið fram í tímann. Ég spái hins vegar í veðrið aftur í tímann og er bara nokkuð glúrinn í  því.

Jú, jú, jólin eru kristin hátíð. Menn eru að segja að saga okkar og menning sé samofin kristnum sið. En ekki hvað. Við höfum ekki haft neitt val um annað. Þetta er bara það sem við meðtökum með móðurmjólkinni. En er þetta nokkuð betri siður en annar siður? Kannski bara ósiður? Það sem okkur finnst  mest um vert í menningu vesturlanda, frelsið og mannréttindin, vísindin og velmegunin, hefur að vísu sprottið fram í kristnum löndum en á sér mjög veraldlegar forsendur, jafnvel efnahagslegar, er ýttu undir breytingar í hugsun sem oft voru  í fyrstu bornar fram af frjálshuga einstaklingum í andstöðu við alla trúarlærdóma eða að minnsta kosti ótengt þeim.  

Annars leiðist mér ekkert eins mikið og deilur um trúmál. Þær eru hreinlega að drepa bloggið. Ekki veit ég til að nokkrum manni, til eða frá, hafi verið talið hughvarf um  trú sína í öllu því ólukkans tuði.

Bloggum frekar um eitthvað  skemmtilegt.    

 


Fimmtíu tonna þunglyndi

Fyrir ári síðan lenti ég í þrjátíu tonna þunglyndi sem ég skrifaði um á blogginu.

En undanfarnar vikur hef ég verið að berjast við þunglyndi sem hefur verið að minnsta kosti fimmtíu tonn að þyngd. Ég læt samt á engu bera. Þó ég hafi aldrei litið glaðan dag í lífinu er ég alltaf hress og upprifinn út á við.

En ég nenni ekki lengur að fara út í búð að kaupa í matinn enda et ég ekki neitt og dagsbirtan sker svo í augun. Ég verð líka að hafa tappa í eyrunum því öll hljóð eru alveg að æra mig.

Ég er sannfærður um að mín bíður ekkert nema gröfin köld.

Svo fer ég beina leið til helvítis.

Og enginn fær gert við því.

 


Rauð jól eða hvít

Um daginn sagði Einar Sveinbjörnsson að helmingslíkur væru á hvítum jólum en tók spurninguna hæfilega alvarlega svo löngu fyrir jólin. Í Fréttablaðinu var Siggi stormur að spá rauðum jólum og stökk ekki bros. 

En Siggi sanasól, hverju spáir hann um jólin?

Hann spáir hvítum jólum. Á aðfangadagskvöld verður blindöskubylur og vestanfárviðri eins og var árið 1957. Verður þá engum manni fært út úr húsi. Á jóladag verður kolófært um allan bæ, bæði mönnum og bílum, og rafmagnslaust alls staðar.

Já, er það ekki þetta sem fólk vill? Hvít jól.

Það er sem sagt ekki gefið ef snjóar að það verði bara í "fallegum" jólakortastíl.

Mér finnst annars stór undarleg þessi árátta manna fyrir hver jól að spyrja eins og rellnir krakkar: Verða jólin hvít eða rauð? Og þá er allaf undirliggjandi frekja um það að jólin verði drifhvít.  

Afhverju vilja menn það endilega? Á það að vera hátíðlegra? Jólalegra? Eftir hvaða staðli? Jólakortakitschstaðli eða Hollywood white christmasvaðli?

Menn eru að tala um að gróðurhúsaáhrifin valdi nú alltaf rauðum jólum. En það er samt ekki lengra en í fyrra að jörð var alhvít í Reykjavík á jóladagsmorgun - reyndar öllum að óvörum. Það var auð jörð á aðfangadagskvöld og snjórinn var aftur horfinn á jóladag og autt var líka á öðrum í jólum.

Síðustu almennilegu hvítu jól í Reykjavík voru árið 2003. Það er sem sagt ekki ár og öld síðan.

Jólin 2000 og 2001 voru eldrauð. Árið 1999 var gamall klaki og skaflar en 1998 voru hvít jól. Þar á undan voru rauð jól í tvö ár en öll jólin frá 1990-1995 voru mjallahvít.  Það var víst gullöld jólanna í hugum margra. Allt glimmerhvítt og steindautt eins og á lágkúrulegasta jólakorti!

Talandi um gróurhúsaáhrifin. Ekki er alveg ljóst hvaða jól voru hvít og hver rauð á fjórða og fimmta áratugnum en örgugglega voru þá a.m.k. tólf jól eldrauð. Þá var árgæska í landi og engum datt í hug að óska eftir hvítum jólum. Enda White Crhistmas ekki enn orðið alheims húsgangur.

Nú, en gott fólk og vont fólk , takið gleði ykkar óstjórnlega. Hann Siggi sanasól spáir aftaka stórhríð og manndrápsveðri á aðfangadag og svo miklu fannfergi á jóladag að elstu menn og vel það muna ekki annað eins. Þá verða allir að hanga heima yfir sínu hangikjeti og það verður bara gott á þá.

Hvít jól ofar öllu. 

 

 


Á afmæli kattarins

Viðsjárverð þykir mér glyrnan gul,
geymir á bak við sig marga dul,
óargadýranna eðli grimmt
á sér í heilanum fylgsni dimmt.

Alla tíð var þó með okkur vel,
einlægt mér reyndist þitt hugarþel,
síðan ég forðum þig blindan bar,
breiddi á þig sæng þegar kaldast var.

Fimm voru systkinin fædd í heim,
fagnar þú degi hið eina af þeim;
hinum var öllum í æsku drekkt,
ósköp er kattlífið dapurlegt.

Lifað þú hefur nú árið eitt,
oddhvöss er vígtönnin, klóin beitt;
stundum á kvöldin með kurteis hljóð
kveðurðu af munni fram ástarljóð.

Andvakan þykir mér yfrið löng
uns ég í garðinum heyri söng,
hugurinn glaðnar þá heldur til,
hlægir mig dillandi raddarspil.

Til munu þeir sem það tónverk líst
tilkomu lítið, en eitt er víst:
læðan sem kúrir í leyndum stað
leggur við eyrun að hlusta á það.

Mjúkur með kirfileg kampahár
kemuru að dyrum í morgunsár,
upp þig úr munnvatni allan þværð,
augunum lygnir í sæld og værð.

Ólundin margsinnis úr mér rauk
er ég um kverk þér og vanga strauk,
ekki er mér kunnugt um annað tal
álíka sefandi og kattarmal.

Trýnið þitt starfar og titrar kvikt,
tekst því að skynja svo marga lykt,
þar sem mér ekki með allt mitt nef
unnt er að greina hinn minnsta þef.

Bugðast af listfengi loðið skott,
lyftist með tign er þú gengur brott;
aldrei fær mannkindin aftanverð
á við þig jafnast að sundurgerð.

Jón Helgason 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband