Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Trúarjátning

Kristindómurinn er afburða hallærisleg trúarbrögð, allt þetta blóð Krists, upprisustand og þrenningarhjal. Að ekki sé minnst á fádæma kærleiksmjálmið.

Ég er hallur undir gyðingdóm.

Gamli góði jahve er minn guð!  

Hann er sko harður nagli og enginn elsku Jesú!

Eins og alvöru guð á að vera.


Ekki minni vá en loftslagsógnin

Í Morgunblaðinu í dag er yfirlætislaus  frásögn, sem ekki er á vefútgáfunni, af ráðstefnu sem er nýlokið um vá sem steðjar að heimshöfunum vegna ofveiði og mengunar. Fram kom að 75% allra fiskistofna væru annað hvort ofveiddir eða verði fyrir rányrkju. Mannkynið sækir einn fimmta af próteinsþörf sinni í fisk og þessi ofveiði ógnar því lífsmöguleikum miljóna manna. Gífurleg mengun sem kemur í hafið frá ám og fljótum ógnar einnig lífríki hafsins. Sumir eru svartsýnir á framtíðina og telja að heimshöfin séu að "deyja". 

Ef það gerist er einnig úti um mannkynið.

Hvernig stendur á því að þessi vá og mörg önnur sem að mannkyninu steðjar fær svo að segja enga umfjöllun í samanburði við það fár sem geisar um loftslagsmálin?

Er svo komið að gegndarlaus áherslan sem lögð er á loftslagsmálin sé farin að standa almennri umhverfis-og náttúruvernd fyrir þrifum?    


Vísindamenn láti til sín taka

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur hvetur raunvísindamenn til þess á bloggsíðu sinni í dag og í grein í Mogganum til að taka meiri þátt í umræðunum um loftslagsmálin  þó sú umræða sé öðrum þræði mjög pólitísk. 

Það er óhætt að taka undir þetta enda hef ég nokkrum sinumm hvatt til hins sama á þessari bloggsíðu þó ég sé aðeins vesæll áhugamaður um veðurfar. Þögn íslenskra vísindamanna er beinlínis pínleg þegar þess er gætt að leikmenn um loftslagsmálin vaða uppi í blöðunum viku eftir viku. Í dag er Guðni Elísson enn einu sinni að skrifa í Lesbók Moggans. Hann virðist líta svo á að öll gagnrýni á meintan samhug vísindasamfélagsins um að vá sé fyrir dyrum vegna hlýnunar jarðarinnar sé álíka heiðarleg og áróður tóbaksfélaganna um skaðleysi reykinga og virðist telja, í niðurlagsorðum,  að slík gagnrýni sé skortur á raunveruleikatengslum. 

Það væri gaman ef Lesbókin gæti boðið lesendum upp á ærlegar fræðilegar, en samt alþýðlegar, greinar vísindamanna í Lesbók eftir Lesbók um loftslagsmálin.

Raunvísindamenn eiga að skrifa svo góðar greinar um málið að menn gleymi þessari martröð Guðna og Hannesar Hólmsteins í Lesbókinni síðustu vikur. 

Og afhverju í ósköpunum gera þeir það ekki?

Jafnvel umfjöllun Veðurstofunnar á vefsíðu sinni um gróðurhúsaáhrifin gæti ekki snautlegri verið.


Er vorið virkilega að koma?

Vorið hefur farið sér hægt. Meðalhitinn í Reykjavík það sem af er apríl hangir varla í meðaltalinu og er þetta þó sá landshluti þar sem einna hlýjast hefur verið. Á Akureyri er meðalhitinn næstum því heilt stig undir frostmarki og vel undir meðallagi. Snjór er víða mikill eins og um hávetur væri, jafnvel syðst á landinu, í Mýrdal. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum hefur ekki verið talin alauð jörð það sem af er mánaðarins. Snjólaust er þó á suðurlandsundirlendi, víða á suðvesturlandi og á stöku stað á vesturlandi.

Þessi þurra og kalda norðan-og norðaustanátt sem hefur ríkt lengi er sannarlega orðin óþolandi.

Það þurfti einmitt að koma þetta veðurlag sem nú er spáð. Ef spáin gengur þá eftir.

Jafnvel þó hún geri það er ég hóflega bjartsýnn um að vorið sé komið til að vera. En er á meðan er.


mbl.is Vorið kemur á þriðjudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurning

Dettur engum í hug að sannleikurinn, þægilegur eða óþægilegur, um loftslagsmálin kunni að liggja einhvers staðar á milli bölmóðar alarmisma Al Gores og bjartsýnnar afneitunar Hannesar Hólmsteins?

Auk þess: Þó það sé viðurkennt að hlýnunin,  sem orðið hefur svona síðustu 150 árin upp á um það bil 0,6 gráður í heiminum, kunni að einhverju leyti að stafa af mannavöldum er það ekki það sama og framtíðarspár um gríðarlega miklu meiri hlýnun á nokkrum áratugum héðan í frá. Um þær spár deila menn fremur en um vissa staðreynd um orðna hlýnun enda ekki nema von. Þar er margs að gæta.  

Meira vil ég ekki segja að svo komnu máli enda eru nógur margir aðrir sem vilja ólmir segja allt sem hægt er að segja um þessi mál og meira til og liggja ekki á vitneskju sinni. 

En aldrei hvarflaði það að mér á hafísárunum köldu að einæðisloftslagsdella mín ætti eftir að verða ástríða margra nokkrum áratugum seinna svo verulega hitnaði í kolunum.

 


Oft ratast kjöftugum ...

Snjódýptin í Reykjavík í morgun var 11 cm og sú mesta í apríl síðan 1996.  

Ég skrifaði á blogginu fyrsta mars:  

"Hláku er spáð eftir helgina. Mér finnst endilega að þessi vetrartaktur sé ekki þar með búinn, aftur muni sækja í sama farið svona  nokkurn vegin út mars. Kannski lengur. Kannski miklu lengur."

Oft ratast kjöftugum satt á munn. Og það sést ekki enn út fyrir þetta vetrarástand.

 


Hvað skiptir máli?

Nú dreymir mig um það að vera í friði og af engum þekktur. Þó ég sé stundum að þenja mig á almannafæri er ég afskaplega hlédrægur og mikið fyrir að lifa í mínu eigin heimi, eiginlega utan við skarkala mannlífsins. Mér finnst ég aldrei hafa tilheyrt mannlífinu í raun og veru. Samt á ég auðvelt með að eignast vini og er í góðu sambandi við fólk þegar ég vill það viðhafa. Ég fann það vel á fordómafundinum í dag, sem heppnaðist afar vel í alla staði, hvað það er mér auðvelt að tala til fólks. 

Mér finnst ég samt alltaf standa utan við. 

Og mér líður bara vel með það.

Undanfarið hef ég verið með bloggógeð sem kemur alltaf og fer annars slagið. Best finnst mér þá að láta sem minnst á mér bera. En af því að ég er líka félagslyndur er mér orðið hlýtt til marga þeirra  sem gera athugasemdir hér á síðunni. Og þó ég hafi sagt um daginn að ég sé búinn að fá mig fullsaddan af hysterískum aðdáendum mínum er þar ekki átt við einstaklingana heldur bara að ég hef ekki verið í bloggstuði og vildi vera einn með sjálfum mér.

Þegar fer að vora eflist alltaf þessi tilfinning mín fram eftir sumri að vera einn með sjálfum mér og njóta vorsins. 

Það er aldrei að vita nema það sé síðasta vorið.

Hvað skiptir máli í lífinu? Að þenja sig á bloggi og standa upp fyrir haus í dægurmálunum eða reyna að skilja lífið einhverjum alvöru skilningi meðan enn er tími til? Útivera, góðar bækur, mikil tónlist, einhver dýpt og innileiki utan við argaþrasið sækir þá að.

Allt sem máli skiptir kemur að innan en ekki utanfrá. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband