Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Verður maíhitametið slegið á landinu?

Samkvæmt veðurspá er gert ráð fyrir "allt að 25 stiga hita á Austurlandi". Í fréttinni, sem hér er vísað til og er skelfilega ónákvæm og ómerkileg, er sagt að það sé með ólíkindum. Það er þó ekki ólíkindalegra en svo að slíkur hiti hefur einmitt mælst á austurlandi í maí 1991 og 1992 og á Akureyri 1980. Mjög raunverulegt. Um þetta má lesa hér.

Hitt er annað mál að þegar svona hlýtt loft er yfir landinu og gert er ráð fyrir 25 stiga hita má alveg búast við nýju hitameti, hitinn geti t.d. farið á einhverjum stað í 26 stig, en metið er 25,6 stig á Vopnafirði frá 1992.  

Þetta er reyndar leiðinlegasta tegund af hitabylgju fyrir höfuðborgarbúa. Þar verður þungbúið og rigning og hámarkshiti ekki mikið yfir tíu stig nema kannski á miðvikudag og fimmtudag ef allt gengur vel. Hins vegar verður næturhitinn tiltölulega hár og þar með meðalhitinn og ætti 8 stiga  meðalhita mánaðarins að vera borgið ef ekki kólnar niður úr öllu valdi á síðustu dögum mánaðarins.  

Annars er dálítill munur á því hitastigi sem spáð er á hlýjustu svæðunum. Á veðursíðu Morgunblaðins og spáritum á vef Veðurstofunnar er gert ráð fyrir ívið meiri hita heldur en á hitaspánum á kortunum

Ég hallast að lægri tölunum og býst ekki við hitameti en myndi fagna því ef það kemur.


mbl.is Næstum óraunveruleg veðurspá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlar hann að hafa það?

Meðalhitinn í maí er nú kominn  niður í 8,1 stig og hefur lækkað síðustu daga um 0,1 stig. Þetta er allt í járnum hvort hann heldur átta stigunum. Miðað við spá næstu daga hækkar meðalhitinn líklega ofurlítið næstu fimm daga og jafnvel út mánuðinn miðað við lengstu spár sem ég hef séð. Enginn kuldaköst eru í sjónmáli en heldur ekki nein veruleg hlýindi hér vestanlands. Hitinn er alltaf bara jafn og fremur hár en vantar glæsilega hitadaga

Þá er ansi drungalegt veðrið og sólarlítið og verður líklega áfram. Okkur vantar sárlega bjarta daga með svona 13-15 stiga síðdegishita minnst. Ef slík hrina kæmi í nokkra daga væru horfurnar með 8 stiga meðalhita í maí í Reykjavík, hver ekki hefur komið síðan 1974, vænlegri en nú er.

Já, þetta er allt í járnum. Og spennandi að sjá hvernig fer. Kannski gloprar mánuðurinn niður 8 stigunum á lokasprettinum svona svipað og þegar "strákarnir okkar" glutra niður sigri í handboltaleikjum á síðustu mínútunum.

Um Júróvisjón þarf ekki að ræða. This is my life lyppast heim með skottið milli fótanna strax eftir fyrstu lotu.

Þetta er örugglega lélegasta júsovisjónlag allra tíma.   


Mali rófubrotnaði

Mali húrraði fram af svölunum í gær. Það er af fjórðu hæð.

Hann rófubrotnaði en slapp að öðru leyti. Það er búið að binda upp á honum rófuna.

Það er ekki útséð með hvort hann fær aftur mátt í hana. Ef ekki verður að taka hana af. Hann er með eitthvert lengsta og tignarlegasta skott sem sögur fara af eins og fylgir hans kyni.

Þetta er allt mjög sjokkerandi. Eitthvað sem skiptir máli. Annað en bloggblaðrið alltaf hreint.

Þrátt fyrir þrengingar sínar heldur Mali áfram að mala hve nær sem maður talar til hans eða snertir hann.

Hann er algjör mali.


Meðalhitinn er nú 8.2 stig

Nú er maímánuður hálfnaður og reikna ég meðalhitann 8,2 stig í Reykjavík. Það er 2.8 stigum fyrir ofan meðallag og hafa fáir maímánuðir gert það eins gott þegar þeir eru hálfnaðir. Hins vegar hefur kólnað síðustu daga. 

Næstu daga verður svipað veður og mun meðalhitinn fremur fara niður en upp. Það veltur því á síðasta sprettinum hvort þetta verður fyrsti átta stiga maí í Reykjavík síðan 1974 eða ekki. Ef við fengjum reglulega góðan hlýindakafla væri sigurinn í höfn. Slíkir kaflar koma oft seinni hluta maí og mánuðurinn hlýnar að meðalhita reyndar um meira en heilt stig á þeim dögum sem eftir er af árstíðalegum orsökum. Fáum við hins vegar kuldakast með næturfrostum er þetta búið spil.

Það er tiltölulega ekki eins hlýtt fyrir norðan. Hlýindin njóta sín nú best á suðurlandi, frá Skaftafellsýslum og upp í Borgarfjörð. Það er samt ekki kalt annars staðar, nokkuð yfir meðallagi. Annars er það eftirtektarvert að hitinn hefur verið jafn og fremur hár en þó ekki sérstaklega mikill miðað við það sem getur orðið en án allra alvöru kuldakasta. Frostlaust er enn í Reykjavík það sem af er mánaðarins.  

Ég verð að játa sem mjög óþjóðhollur Íslendingur að mér finnst það miklu meira spennandi hvort maí nær 8 stigum í Reykjavík en hvort versta lag í heimi,  This is me life, kemst áfram í júrovísjón, sem ég held að sé alveg útilokað.  Þó þessi keppni sé að vísu mesta lágkúra í heimi þá er hún ekki svo mikil lákúra. 

En átta stiga maí er sko engin lágkúra! 

Og hann ætti að veita hysterískum vitsmunaverunum sem hakka í sig þessa veðursíðu ómælda ánægju! 


Kemur þægilega á óvart

Það hefur vakið mér undrun hvað margir nenna að lesa bloggið mitt eftir að það breyttist í vissa tegund af veðurbloggi og ég lagði niður allt ónytjungshjal og aumlegt þvaður.

Furðu margir af hysterískum aðdáendum mínum hafa því reynst vera vitsmunaverur eftir allt saman.

Það kemur mér þægilega á óvart!


Hlý maíbyrjun

Fyrstu dagarnir í maí að þessu sinni eru einhverjir þeir hlýjustu sem um getur í Reykjavík. Meðalhitinn er 7,8 stig en meðaltalið 1961-1990 er 4,8 en 5,1 árin 1931-1960. Spáð er sæmilegum hlýindum fram til a.m.k. 10. maí. Fyrstu dagarnir í maí eru oft æði svalir svo það er gott forskot á meðalhitann ef fyrstu dagarnir spjara sig vel. Kannski fáum við nú almennilega hlýjan maí, með meðalhita yfir 8 stig (meðaltal alls mánaðarins 1961-1990 er 6,3) en það hefur ekki gerst í Reykjavík síðan 1974.

Maí hefur verið afskiptur meðal mánaða hvað hlýindi síðustu ára varðar. Síðustu maímánuði hafa líka komið leiðinleg kuldaköst. Og menn eru strax farnir að tala um að slík köst séu árviss í maí í þeim skilningi að þannig sé íslenskt veðurfar. Það sé regla að seint í maí komi kuldaköst. Menn eru fljótir að hrapa að ályktunum þegar veðurfarsvaríantar eru annars vegar.

Já, Það er alveg kominn tími á 8 stiga maí í Reykjavík og við fylgjumst spennt með því hvernig þessi mánuður plummar sig.

Engin næturskeyti berast nú frá Höfn í Hornafirði og sjálfvirka stöðin hefur verið óvirk síðan 15. apríl. Hvað er eiginlega að gerast á suðausturhorninu í veðurmálunum? Það er galli sjálfvirku stöðvanna að þær detta oft út svo vikum skiptir.

Annars var það ólán að flytja veðurstöðina frá Akurnesi inn í þorpið á Höfn sem er svona á nesi út í sjó sem um leika leiðinda vindar og hlýindi forðast eins og pestina. 

 

 


Fagurhólsmýri þegir

Enginn veðurskeyti hafa borist frá Fagurhólsmýri í nokkra daga. Það er þó ekki búið að leggja hana niður sem mannaða veðurstöð? Slíkum stöðvum fækkar sí og æ.

Einu er ég að pæla í. Hvernig verður með staðfestingu hita- og kuldameta þegar stöðvar sem mælt hafa hitann á kvikasilfursmæla breyta yfir alfarið í sjálfvirkar mælingar? Það kemur nefnilega all-oft fyrir á veðurstöðvum sem mæla bæði á kvikasilfur og sjálfvirkt að hámarkshitinn á sjálfvirka mælinum er þrjú til fjögur stig hærri en á kvikasilfrinu (t.d. á Eyrarbakka í gær). Sem sagt ef t.d. mældust 30 stiga hiti á sjálfvirka mælinum á Fagurhólsmýri yrði það staðfest sem hitamet en 28.5 stig hafa þar hæst mælst á kvikasilfursmæli. 

 

 


"Kólnun" á Íslandi?

Í Speglinum í Ríkisútvarpinu áðan var viðtal við Halldór Björnsson um nýja og víst athyglisverða veðurfarsspá frá Þýskalandi. Spáin, sem reynir að stíla upp á náttúrlegan breytileika, gerir ráð fyrir að hér á landi muni kólna á næstunni en síðan hlýna því meir.

En nú vaknar spurningin. Kólna frá hverju? Ef kólna á frá t.d. meðalhitanum 1961-1990 mun verða æði kalt miðað við það sem við höfum vanist síðasta áratuginn. Þessi síðasti áratugur hefur verið afskaplega hlýr og það hlýnaði svo skyndilega og mikið (kringum 1996) að það er nánast borðleggjandi að þar er á ferðinni sterk náttúruleg sveifla upp á við ofan á gróðurhúsaáhrifin sem lengi vel áttu reyndar erfitt uppdráttar hér á landi. Það er varla hægt að búast við því að þau hlýindi sem ríkt hafa á Íslandi undanfarin ár verði viðvarandi ástand. Þess vegna mun nokkuð örugglega kólna frá því sem nú er. Og það þarf enga sérfræðinga til að segja sér það.

Ekki hef ég séð þessa útlendu spá. En það sem var verið að færa þjóðinni áðan í Speglinum segir einfaldlega ekki neitt eins og það var sett fram. Nema það að íslenskt veðurfar er miklum sveiflum undirorpið.

Ég skil ekki tilganginn með þessum upplýsingum. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband