Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Miskunnarleysi

Mér finnst nú merkilegast við þessa frétt að ökumennirnir héldu áfram eins og ekkert hefði ískorist.

Árangurinn í keppninni skipti víst meira máli en það að gæta að slösðuðum skepnunum.

Er þetta hinn sanni íþróttaandi?


mbl.is Rallbíll lenti á hestum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgð á gjörðum sínum og líta sér nær

Bandaríski prófessorinn Daniel W. Drezner lætur sér í grein í Wall Street Journal fátt um finnast   bókina ''Why Iceland'' eftir Ásgeir Jónsson, forstöðumann greiningardeildar Kaupþings um bankahrunið.

Prófessorinn segir að bókin afhjúpi fyrst og fremst hugarfar Íslendinga. Þeir leiti blóraböggla erlendis í stað þess að líta í eigin barm.

Einar Már Jónsson er hins vegar að velta fyrir sér hugmyndum manna um  það hvort einhver alvöru raunhæf rannsókn fari fram á bankahruninu eða ''hvort einungis sé verið að syngja þjóðinni hugljúfar vögguvísur um rannsókn, meðan beðið sé eftir tækifæri til að lýsa því yfir að hvergi hafi fundist nein gögn um að nokkurt saknæmt athæfi hafi verið framið, enginn hafi í rauninni gert nokkurn skapaðan hlut af sér nema Jón Jónsson verkamaður sem tók sér lán til að kaupa flatskjá og gat ekki borgað það.''

Ég held því miður að síðari hugmynd Einar Más verði ofan á. 

Íslendingar muni ekki líta í eigin barn af alvöru með öllum þeim afleiðingum sem það myndi hafa fyrir viðskipta-og  stjórnmálaheiminn. 

Síðan muni fyrnast yfir málin og spilling og sérhagsmunagræðgi blómstra sem aldrei fyrr.

 


Fyrirgefning

Fólk biður aðra fyrirgefningar þegar því finnst það hafa gert eitthvað á hluta þeirra eða sært þá.

Það kemur innan frá.

Stundum skilja menn ekki að þeir hafi gert eitthvað á hluta annars fyrr en þeim er bent á það eða viðkomandi lætur uppi að þeim sárni.  Þá rennur upp fyrir þeim ljós og  þeir biðjast afsökunar.  Í sumum tilfellum biðjast menn meira að segja afsökunar jafnvel  þó þeir skilji  samt ekki að þeir hafi sagt eða gert eitthvað særandi. En þeir bregðast við því að sá sem fyrir var finnist það og virða þannig tilfinningar hans.

Það er hins vegar vafasamt hvort fyrirgefningarbeiðni sem knúin er fram utan frá án þess að nokkur hugur fylgi máli eða tilfinning fyrir öðrum hjá þeim sem biður þeirrar fyrirgefningar hafi nokkurt gildi. 

Rök hafa verið færð fyrir því af ýmsum að svokallaðir síkópatar hafi verið algengir í viðskiptaheimi veraldarinnar síðustu árin. Slíkir menn finna aldrei til iðrunar og eru gjörsneyddir samkennd með öðrum.

Þetta er kannski skýringin á því að engir íslenskir viðskiptajöfrar hafa beðist afsökunar á einu né neinu en fremur varið gjörðir sínar.

Verður bara ekki svo að vera.

Þvinguð afsökunarbeiðni frá síkópötum er verri en enginn.

Datt þetta í hug vegna Hólaræðu fjármálaráðherra. 


Á Hala veraldar

Um daginn kom ég á Hala í Suðursveit þar sem Þórbergur ólst upp. Það blakti ekki hár á höfði sem ekki er algengt á þeim slóðum.

Ég hef ekki komið þarna síðan Þórbergssafnið komst á laggirnar. 

Safnið er frábært. Sérstaklega var gaman að sjá endurgerð af baðstofunni á Hala þegar Þórbergur var að alast upp, ''baðstofunni'' í Bergshúsi og skrifstofu Þórbergs á Hringbraut 45.

Þetta safn er bæði sveitarsómi og þjóðarsómi.

Á leiðinni að Hala komum við félagarnir í bókakaffið á Selfossi og fengum kaffi og vöflur.  Við stöldruðum líka við á Skógum þar sem Þórður Tómasson safnvörður spilaði fyrir okkur á orgelið.

Eftir að ég kom heim fór ég að lesa Suðursveitarbækur Þórbergs eftir margra ára hlé. 

Hvað þetta eru góðar bækur. Hvað Þórbergur sá djúpt inn í heim náttúrunar, skildi sál steinanna, fjallanna og dýranna. Og hvað þessi heiðríkja og látlausa tign í stílnum er langt frá þeim hégóma sem nú ræður oft ríkjum í almennri umræðu.

Þessi ferð var hápunktur sumarsins og endurnæring fyrir sálina.

Nokkrar myndir úr ferðinni sem stækka ef smellt er þrisvar á þær.

picture_004.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

picture_195.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

picture_225.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

picture_080.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 picture_166_896049.jpg


Hvernig fordómar og rógur virka

Vangavelturnar um geðheilsu Þráins Bertelssonar í bréfi Margrétar Tryggvadóttur hafa mikið verið ræddar á bloggi. 

Eftirfarandi athugasemd fann ég setta fram við skrif tveggja bloggara og kannski hefur hún birst víðar: 

''Ég mæli með að karllin fari í meiðyrðamál við Margréti og þá þarf hann væntanlega að fara í geðrannsókn og alzheimer próf til þess að sanna að hún hafi haft rangt fyrir sér.  Ég held hún vinni það mál.''

Hvað skyldu margir aðrir hugsa á svipuðum nótum? Á blogginu hef ég rekist á margt sem bendir til að þeir séu æði margir. 

Sem sagt: Komdu einhvers konar geðveikisstimpli á einhvern í neikvæðu samhengi. Og þá er til þess ætlast að hann verði að sanna hann af sér.

Það er búið að negla hann. 

Það er vandfundið betra dæmi um það hvernig fordómar, rógur og slúður virkar þegar búið er að koma því að stað á annað borð.

Ég hef enga skoðun á innanhúsátökum Borgarahreyfingarinnar og stend ekki með neinum á móti neinum. Þátttakendur í leiknum þekki ég ekki nema hvað ég er málkunnugur Þráni Bertelssyni. Mér finnst þetta mál eingöngu áhugavert fyrir það hvernig það sýnir hve menn freistast til að koma geðveikisstimpli á þá sem eru að þeirra dómi eitthvað tregir í taumi. 

Það er áberandi á bloggsíðum að menn skilja ekki þennan punkt. Menn eru bara í pólitísku skotgröfunum.

Já og sumir tala um að það sé engin skömm að því að fá þunglyndi eða alshæmer.

Nei, nei. Við erum full af skilningi og umburðarlyndi á svoddan sjúkdómum. En við notum þá samt hiklaust til að reyna að afgreiða þá sem eru okkur óþægilegir hreinlega út af borðinu. Við vitum nefnilega að alshæmersjúklingur missir allan vitrænan trúverðugleika. Það er ekki hægt að ræða lengur við hann um landsins gang og nauðsynjar.

Hann er svo andskoti vit-laus í orðins bókstaflegu merkingu. 

Ekki gæti ég setið með félögum sem ég vissi að bæru svona mikla virðingu fyrir því sem ég hefði fram að færa í samskiptum við þá og slúðruðu af þessum kaliber um mig mér á bak. 

Mér er ekki í mun að Margrét Tryggvadóttir segi af sér þingmennsku. Eins og áður segir hef ég ekki áhuga fyrir hinni pólitísku hlið málsins. 

En ég undrast það mjög að hún skilji ekki að svona gera menn bara ekki. Og ég undrast enn meir að félagar hennar, þingmenn á alþingi Íslendinga, skuli finnast ekkert athugavert við gjörðir hennar og verja þær eins og ekkert sé. 

Það er mín skoðun að Þráinn Bertelsson eigi að fara í meiðyrðamál af fyllstu hörku. En það er eflaust ekkert grín að standa í slíku við alþingismann vegna svona viðkvæmra ásakana sem eru fullkomlega fyrir neðan beltisstað. 

En það gengur ekki í siðuðu þjóðfélagi að þingmenn komist upp með að reyna að gera fólk ómarktækt orða sinna og gjörða með geðveikisstimplunum.

Það er einfaldlega það sem gerðist í þessu máli.

Nú er kominn tími til að berja slíkt niður í eitt skipti fyrir öll.

Með formlegum dómi og viðurlögum.

 

 


mbl.is Margrét situr sem fastast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geðveikisstimpillinn

Í nokkra áratugi hefur það ekki dulist mér að hvers kyns geðræn vandkvæði, til dæmis þunglyndi, séu notuð miskunnarlaust gegn fólki til þess að gera það ótrúverðugt.

Hugsunin er: Maður með þunglyndi er ekki marktækur. Viðkomandi þarf ekki einu sinni að vera þunglyndur. Bara hugmyndin um þunglyndi,  eða aðra geðveiki, að koma þeim stimpli á einhvern, er notaður hve  nær sem henta þykir gegn einstaklingi til að rýra manngildi hans og trúverðugleika.

Til þess að gera lítið úr honum. 

Ég hef lýst því opinberlega yfir nokkrum sinnum að fordómar gegn geðsjúkdómum hafi lítið sem ekkert minnkað síðustu árin  þrátt fyrir það að á yfirborðinu sé þjóðfélaginu talsvert í mun að sýnast vera fullt af upplýsingu, víðsýni og skilningi.  Þegar á reynir kemur veruleikinn hins vegar í ljós alveg grímulaus:

Að eitthvert besta og öruggasta ráðið til að klekkja á einstaklingi, til að gera hann ómarktækan á vettvangi lífsins, sé að stimpla hann geðveikan.

Það er sígild aðferð sem virðst alltaf ganga upp. Annars væri hún ekki notuð.  

Já, maður verður bara svo þunglyndur yfir þessari dapurlegu staðreynd að  það hellist yfir mann þessi líka rokna alshæmer!

 

 

 


Þá er að skunda af stað

Jæja, ég er rokinn austur á land og verð ekki til viðtals um helgina. 

Lögreglan og niðurskurðurinn

Allir vita að niðurskurður er óhjákvæmilegur hvar sem litið er.

Heilbrigðis og menntakerfið verður illa úti. Ekki síður velferðarkerfið. Þrengt verður að öldruðum og öryrkjum.

Og lögreglunni!

Allir sem verða fyrir niðurskurði bera sig auðvitað aumlega og segja jafnvel að viðkomandi starfsemi muni leggjast af eða svo gott sem. En við þetta verða menn samt að búa og gera það besta úr öllu. Og menn láta sér það lynda.

Nema lögreglan.

Það hefur ekki linnt látum í  fjölmiðlum fyrir aðgangahörku lögreglumanna til að vekja athygli á fjárþörf sinni og það megi alls ekki skera þar neitt niður, frekar þyrfti meiri peninga.  En það gætu allir hinir líka sagt.

En þeir fá ekki önnur eins tækifæri til að ota fram sínum tota, nú síðast í fréttum  Ríkisútvarpsins. Það er engu líkara en lögreglan hafi tekið við yfirráðum fjölmiðla og noti þá  miskunnarlaust til að reka áróður fyrir sjálfri sér. 

Ekki síst er Morgunblaðið undirlagt af þessum grátkór lögreglumanna og í dag skrifar það leiðara um málið og leggst á sveif með þeim. En ekki hafa þeir skrifað leiðara um það að þrengt er að svo mörgu öðru.

Það er líka merkilegt að aldrei eru fullyrðingar lögreglumanna um hvað muni gerast ef skorið verður niður dregnar í efa eða skoðaðar með gagnrýnu hugarfari af fjölmiðlum. Það er eins og allt sem lögreglumenn segja sé óumdeilanlegur sannleikur.

Lögreglunni er ekkert meiri vorkunn að skera niður en öðrum mikilvægum stofnunum.

Viðauki: Vek athygli á þessari frétt Maður spyr sig hvort þessar aðferðir lögreglunnar hafi virkilega verið nauðsynlegar en þær voru sagðar átakanlegar af sjónarvotti. Er það til svona verka sem lögreglan heimtar meiri peninga?

Bye the way: Þetta er frétt sem Morgunblaðið myndi aldrei birta.

 


Skollinn sjálfur

Ísfólkið nr. 37 er komið út!

Mér skilst að þetta slekti sé afkomendur Satans.


Sumarblogg

Nú er ég svo þankalaus sem þorskurinn lepur strauma.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband