Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Áfram Wikileaks

Því fleiri ríkisstjórnir sem fordæma uppljóstranir Wikileaks því mikilvægari eru þær. 

Ef þeir vilja fordæma einhverja ættu þeir að líta í eigin barm því uppspretta alls þess sem ljóstrað er upp um og á að vera svona skaðlegt er hjá þeim sjálfum og engum öðrum. Þeir tala um að mannslíf séu í hættu en standa sjálfir fyrir manndrápum í stórum stíl eins og ekkert sé. Hvetja jafnvel opinberlega til morða á þeim sem ljóstra upp um þá.

Hræsnarar og aumingjar! 

Það er alveg sjálfsagt að almenningur um allan heim fái vitneskju um þær blekkingar og skuggastarfsemi sem viðgengst bak við tjöldin í refskák ríkja.

Hverjir gera til dæmis staði víða um heim hugsanleg skotmörk hryðjuverkamanna, Bandaríkjamenn sem hafa útvalið staðina sem slíka í vænisýki sinni, eða þeir sem segja frá því? 

Þetta er líka spurning um frelsið á netinu. Hvort ríkisstjórnir heimsins eigi að ráða þar lögum og lofum fremur en netverjar sjálfir. 

Áfram Wikileaks! 


Bréf til Borgarráðs

Borgarráð hefur ákveðið að breyta nafninu á götunni þar sem ég hef búið í áratugi.  

Um þetta vissi ég ekki fyrr en ég sá það og las í fjölmiðlum. Þar sem ég bý hefur engin tilkynning komið um eitt né neitt. Það hefði ekki farið framhjá mér og ég hefði strax brugðist við. Enginn í næstu húsum kannast heldur ekki við neitt.

Þegar ég gúglaði málið eftir að það kom núna í fjölmiðlum rakst ég í Pressunni á viðtal frá því í vor við Júlíus  Vífil Ingvarsson, formann skipulagsnefndar Reykjavíkurborgar. Eftirfarandi er þar haft eftir honum:

''Málið hefur hlotið talsverða umræðu og skoðanir eru skiptar meðal íbúa. Það hefur ekki verið afgreitt í borgarráði því eftir afgreiðslu skipulagsráðs var ákveðið að beiðni íbúa á svæðinu að efna til samráðsfundar með þeim til að ræða tillögurnar en ekki eru allir íbúar sáttir við þær.''

Ekki kannast ég við neitt af þessu eins og ég hef áður sagt. Engar upplýsingar eða boð um fundi eða nokkurn skapaðan hlut hafa borist í húsið þar sem ég bý og ekki heldur næstu hús. Við höfum því ekki haft tækifæri til neins samráðs.

Júlíus Vífill segir þarna vonast til að hægt verði að ná breiðri sátt um þetta mál. En hún er greinilega ekki svo breið að hún hafi náð til allra íbúa sem málið varðar.

Hins vegar hefur Júlíus Vífill  gert sér grein fyrir því að þessar fyrirætlanir myndu mæta andstöðu. Í fyrsta lagi eru þetta rótgrónar götur og mörgum almennum borgarbúum er illa við að  verið  sé  að hringla með gömul götunöfn í borg sem þeim þykir vænt um og tengjast sögu hennar sterkum böndum. Í öðru lagi eru þeir sem lengi hafa búið í sömu götu oft viðkvæmir fyrir því að nafni götunnar sé breytt allt í einu. Þegar það svo gerist, eins og í þessu tilfelli, án  þess að það sé svo mikið sem nefnt við íbúana, að minnsta kosti suma þeirra, eins og þeim komi það bara ekki hið minnsta við, líður þeim nánast eins og einhver sé að ryðjast inn í einkalíf þeirra og ráðskast með það að þeim forspurðum. Þetta er líking, því þetta tvennt er auðvitað ekki alveg eins. En ég er að reyna að benda á hvernig þeim verður við sem lenda í þvíum líku. Þetta hlýtur óhjákvæmilega alltaf að vera tilfinningamál. Og ekki síður þegar fólki er sýnd bein lítilsvirðing.

Vegna andstöðunnar virðist af fréttinni í Pressunni, sem hér er vísað til, að Borgarráð hafi ætlað að hverfa frá því að breyta götunöfnunum en það hefur greinilega ekki orðið ofan á eftir allt saman. Ég hef séð í öðrum nýlegum fréttum að það hafi ekki þótt góður kostur að nefna nýjar götur í höfuðið á þessum konum. En það þykir greinilega betri kostur að breyta rótgrónum götunöfnum og lenda í útistöðum við íbúa. Ég lýsi yfir undrun minni á því að Reykjavíkurborg þyki það álitlegri kostur heldur en að fara í aðgerðir sem ekki hefðu mætt andstöðu neins staðar frá.

Tilefni nafnbreytinganna, virðingarvottur við merkiskonur, er góðra gjalda verður. En fyrir þá sem mótmæla nafnbreytingunum sjálfum getur tilefnið einmitt verið býsna óþægilegt. Aldrei að vita nema þeir verði stimplaðir sem andvígir kynjajafnrétti, skorti virðingu fyrir konum eða séu jafnvel haldnir karlrembu.

Ég fer fram á skriflegar skýringar frá Reykjavíkurborg á því hvers vegna íbúum þess húss þar sem ég bý og reyndar fleirum í grennd var ekki gefinn minnsti kostur á neins konar samráði eða sátt í þessu máli.

Að lokum leyfi ég mér að mælast til þess að borgin dragi þessar nafnbreytingar til baka svo ekki fari nú fyrir þessum nöfnum eins og þegar Klambratún var formlega endurnefnt Miklatún, nafn sem enginn tók sér í munn, bara til þess að verða aftur skírt Klambratún af núverandi borgarstjóra. Ég er reyndar illa svikinn ef hann sér ekki hve absúrd það er að ætlast til að nokkur fari að kalla gömlu góðu Skúlagötuna Bríetartún!  

Með bestu kveðjum

Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta bréf mun ég senda með pósti til Borgarráðs á morgun. En þar sem efni þess snertir borgarmál  almennt og hvernig borgaryfirvöld umgangast íbúana læt ég það hér líka koma fyrir almenningssjónir.

 


Desember í harðri baráttu

Jæja, börnin góð!

Ef árið í Reykjavík ætlar að verða það hlýjasta sem þar hefur mælst verður meðalhitinn í desember að ná næstum því þremur stigum. Það er ekki vonlaust. Þrisvar hefur meðalhitinn náð fjórum stigum, síðast árið 2002.

Ef hitinn verður nákvæmlega í núgildandi en algerlega gamaldags og úreltu meðallagi verður árið það fjórða hlýjasta. Verði hann  hins vegar jafn kaldur og sá kaldasti sem hingað til hefur mælst, -7 stig verður meðalhiti ársins samt vel yfir meðallagi. 

Stundum er sagt að eftir kuldaskeiðið sem hófst með hafísárunum hafi byrjað að  hlýna á Íslandi kringum miðjan síðasta áratug tuttugustu aldar, en sumir hafa jafnvel nefnt miðjan níunda áratuginn en þá var mestu kuldunum á þessu síðasta kuldaskeiði lokið. En stóra stökkið var þó ekki fyrr en með aldamótunum. Einmitt frá 2001 hafa öll ár í Reykjavík verið yfir fimm stigum, en það var árshiti hlýindaskeiðsins mikla 1931-1960. Þess vegna verður gaman þegar árið er liðið að gera upp þennan makalausa áratug sem að hlýindum hefur slegið út alla aðra áratugi í mælingasögunni.

En á meðan við bíðum eftir að árið líði í aldanna skaut getum við fylgst með veðrinu í Reykjavík og á Akureyri og að nokkru leyti á landinu öllu í hinu óþreytandi fylgiskjali, blaði eitt og tvö. 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband