Hlýjustu og köldustu marsmánuðir á Íslandi

Þrír marsmánuðir skera sig úr síðustu tvö hundruð árin hvað hlýindi snertir á Íslandi. Hlýjasti mars á öllu landinu var árið 1929. Þá var meðalhitinn á Veðurstofunni við Skólavörðustíg í Reykjavík 6,1 stig, en 5,4 í Stykkishólmi og 5,7 stig á Akureyri. Meðalhitinn árin 1961-1990 var á þessum stöðum 0,4 og -0,8  og -1,3 stig. Í Vík í Mýrdal var meðalhitinn hæstur á landinu, 6,8 stig sem þætti góður maíhiti. Á Grímsstöðum á Fjöllum var hitinn 2,7 stig og hvergi lægri.         

Í Veðráttunni segir svo: ''Öndvegistíð um land allt, mjög hlýtt, tún græn og nál í úthaga um mánaðarlokin, klakalaus jörð á láglendi, fé gengur víða sjálfala, útsprungnar sóleyjar finnast í túnum. Allan þennan mánuð er oftast suðlæg átt og blíðviðri, úrkomusamt sunnanlands, frá Fagurhólsmýri að Kvígindisdal, en þurrt norðanlands, einkum fyrir og um miðbik mánaðarins. Allan fyrri hluta mánaðarins er hæð fyrir sunnan og austan land, og dagana 8.-9. gengur lægð fyrir norðan land, og er hann þá víða á vestan. Síðara hluta mánaðarins eru lægðir fyrir Vesturlandi. Þ. 20.-21. er hann víða austlægur, enda gengur þá lægð austur um Suðurland, og veldur norðanátt á Vesturlandi síðari daginn, en næsta dag er aftur komin sunnanátt. Síðustu tvo daga mánaðarins er vestanátt og ekki eins hlýtt í veðri.''

Ekki var þó kaldara en svo að allan mánuðinn gerði ekki frost í Vík í Mýrdal og á Hólum í Hornafirði og er það einsdæmi í mars. Í Reykjavík varð frostið mest -1,5 stig og á öllu landinu -8,0 á Eiðum. Hvort tveggja er marsmet, aldrei verið hærri lágmarshiti í þessum mánuði. Mesti hiti mældist 14,4 stig á Teigarhorni við Berufjörð þ. 9. Úrkoma var lítið eitt yfir meðallagi á landinu og sólskinið í Reykjavík var fremur í minna lagi. Mánuðurinn var hægviðrasamur og loftvægi var hátt, hæst að meðaltali 1013,6 hPa á Hólum í Hornafirði. Snjólagið á landinu var minna en í nokkrum öðrum mars, 6% miðað við meðallagið 63% frá 1924-2002.  

Næst hlýjasti marsmánuðurinn var 1964. Þá var meðalhitinn 5,8 stig á Reykjavíkurflugvelli en 4,8 stig í Stykkishólmi og  4,7 á Akureyri. Veðráttan lýsir mánuðinum svo: ''Tíðarfarið var einmuna milt og gott, jörð grænkaði, tré og blóm sprungu út. Fé var víða beitt. Gæftir voru góðar.'' Hitinn fór mest í 15,1 stig á Akureyri þ. 28. Úrkoma var minni en árið 1929 og sólskinið talsvert meira í Reykjavík en þá. Loftið sem var yfir landinu var oftast nær komið frá Asoreyjum eða undan ströndum Vestur-Evrópu. Snjólag var 12% á landinu, það næstminnsta í nokkrum mars.

Hlýjasti mars í Reykjavík út af fyrir sig var reyndar árið 1847. Meðalhitinn var þá 6,4 stig en miklu kaldara var þá í Stykkishólmi 3,6 stig en þó tiltölulega mjög hlýtt.

Í riti Þorvaldar Thoroddsen Árferði á Íslandi í þúsund ár segir svo um tíðina á þessum vetri:   ''Á Vesturlandi var tíðarfar frá nýári til sumarmála eins og syðra eitt hið ágætasta, svo mátti kalla, að ekki væri frost nema dag í bili, og varla festi snjó á jörð, fannir sáust að eins í háum hlíðum, láglendi var snjólaust og jörðin klakalaus, svo sauðfje og jafnvel lömb gengu víða sjálfala úti. Gras á túnum og út til eyja, enda sóley og fífill sást þrisvar sinnum vera farið að spretta; fuglar sungu dag og nótt, eins og á sumrum, andir og æðafuglar flokkuðu sig um eyjar og nes og viku ei frá sumarstöðvum sínum, og svo var að sjá, sem hvorki menn nje skepnur fyndi til vetrarins. Menn sljettuðu tún , hlóðu vörzlugarða og mörg útihús, fóru til grasa, eins og á vordag, og það ekki einu sinni eða tvisvar, heldur allvíða 12 og 14 sinnum, enda var þetta hægðarleikur, því hvort heldur vindurinn stóð frá norðri eða suðri voru jafnan þíður, en oftar var þó sunnanátt aðalvindstaðan, en sjaldan hægviðri eða logn, svo sjógæftir voru nokkuð bágar ... .  "

Fjórði hlýjasti mars á landinu var árið 1923. Þá var Reykjavíkurhitinn 4,5 stig en 3,7 í Stykkishólmi og 3,3, stig á Akureyri.

Ókrýndur konungur allra kaldra marsmánaða var árið 1881. Þá var meðalhitinn í Reykjavík -6,1 stig en -13,3 í Stykkishólmi. Þetta er reyndar kaldasti mánuður sem þar hefur mælst frá upphafi í nokkrum mánuði. Á Siglufirði var meðalhitinn talinn -19,8 stig sem er geggjuð tala. Það mun láta nærri að vera ein 17 til 18 stig undir meðallaginu og er eitthvert mesta vik frá nokkru meðallagi sem ég veit um nokkurs staðar í heiminum. Það hvarflar reyndar að manni að eitthvað hafi verið athugunarvert við hitamælinn,  hann hafi sýnt of lágan hita. Varla hefur Siglufjörður  verið kaldasti staður landsins en einhvers staðar hefur meðalhitinn átt að vera meiri en 20 stiga frost eftir þessu og er það með hreinum ólíkindum. Í Grímsey var meðalhitinn -17,0 stig en -13,3 á Valþjófsstað í Fljótsdal, -9,6 á Teigarhorni í  Berufirði, -8,7 á Hrepphólum, -8,3 á Eyrarbakka og -3,6 í Vestamannaeyjakaupstað. Mesta frost sem mælst hefur í mars mældist í mánuðinum -36,2 stig, líklega þ. 21. eða 22. á Siglufirði. Í Grímsey fór frostið í 30 stig og -22,1 í Reykjavík þ. 21. sem er mesta frost þar í mars. Hitamælingar voru óvíða gerðar, t.d. ekki á Akureyri og ekki á Grímsstöðum. Mikill hafís var við landið. Nokkrir ísbirnir voru felldir. Fyrir norðan er þetta kaldasti mánuður allra mánaða ársins sem þar hefur nokkru sinni verið mældur, en fyrir sunnan var nokkru kaldara í janúar 1918. Yfir landið í heild var janúar 1918 kaldari en mars 1881 sem nemur innan við hálfri gráðu og mega mánuðirnir því teljast jafnokar sem köldustu mánuðir sem mældir hafa verið á Íslandi. Ef miðað er við meðalhita mánaðanna 1931-1960 hefur mars 1881 vinninginn í kuldanum, hann var u.þ.b. 10,5 stig undir meðaltali marrsmánaðar en  janúar 1918 u.þ.þ. 9,5 stig undir meðallagi janúar.

Þessi marsmánuður rak endahnútinn á kaldasta vetur sem gengið hefur yfir landið síðan mælingar hófust. Veturinn 1918 var barnaleikur í samanburði við hann. Þá stóðu kuldarnir í þrjár vikur en veturinn 1880-1881 í fjóra mánuði.

Mars 1881 var umhleypingasamur og snjóþungur. Mikið óveður, kallað góubylurinn, gekk yfir landið þ. 5. Þá voru veðrabrigðin frábær. Lægðardrag frá norðvestri var á leið yfir landið og gekk ekkert smáræði á. Um nóttina þegar skilin gengu yfir  kólnaði um tuttugu stig í Grímsey. Á Valþjófsstað var sunnanátt og sex stiga hiti kl. 14 en hálfri klukkustund síðar var kominn allhvöss austanátt, fjögra stiga frost og snjókoma. Klukkan 8 um morguninn hafði verið rigning og þoka í Vestmannaeyjum og 7 stiga hiti en á sama tíma 20 stiga frost í Grímsey og á Siglufirði og 15 stiga frost, snjókoma og rok í Stykkishólmi. Þá var hitinn um frostmark í Reykjavík. Klukkan 21 var þar komið 9 stiga frost og þá var hitinn um frostmark í Eyjum en  frostið var 21 stig í skafrenningi í Grímsey og 12 í snjókomu á Valþjófsstað. Kaldast í mánuðinum var vikuna í kringum jafndægur, víðast hvar yfir 20 stiga frost í nokkra daga og sums staðar yfir 30 stig. Við suðurströndina var frostið þó 15-20 stig. Mikil hæð var yfir N-Grænlandi þennan tíma.

Næst kaldasti mars, ef miðað er við Stykkishólm, var árið 1859, -9,7 stig,en það ár voru engar mælingar í Reykjavík. Næstur kemur í Stykkishólmi mars 1866 -8,2 stig. Það ár kom kaldasti mars í Reykjavík, -6,2 stig og var hann 0,1 stigi kaldari en mars 1881.

Á tuttugustu öld var kaldasti mars árið 1979. Þá var meðalhitinn -4,0 stig í Reykjavík, -4,6 í Stykkishólmi og -6,9 stig á Akureyri. Mars 1919 var svipaður að kulda en þó heldur kaldari fyrir norðan en mars 1979.  

Í fylgiskjali má sjá lágmarkshitann í Reykjavík 1881 og gang hitans í  Grímsey og Stykkishólmi í sama mánuði. Einnig sést hámarks- og lágmarkshiti í Reykjavík í mars 1847 og hiti, úrkoma og sól í mars 1964. Hitmælingarnar árið 1847 voru fremur ónákvæmar og þess vegna er eins og sé alltaf staglast mikið til á sömu tölunum. Eitthvað hér um bil á þetta að skiljast. En tölurnar sýna vel hvað hlýindin voru mikil.

Heimildir: Trausti Jónsson: Frostaveturinn mikli 1880-1881, Náttúrufræðingurinn, 46, 1-2, 1976; Veðráttan; Veðrið, I, 1964. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Frábær og fróðlegur pistill

Ágúst H Bjarnason, 14.3.2008 kl. 23:09

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta finnst mér gaman að lesa, enda þótt ég gleymi því öllu um leið og ég er búin að lesa það. En er á meðan er... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 14.3.2008 kl. 23:40

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband